Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 293

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 17. janúar, kl. 9:00 var haldinn 293. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birkir Ingibjartsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon og áheyrnarfulltrúinn Rúnar Sigurjónsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir og Friðjón R. Friðjónsson og áheyrnarfulltrúinn Ásta Þórdís Skjalddal. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Brynjar Þór Jónsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 11. janúar 2024. USK23010150

    Fylgigögn

  2. Að lokinni kynningu er lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi 2040 fyrir skotæfingasvæði Álfsnesi, dags. í janúar 2024 sbr. 3. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ásamt umsögn dags. 15. janúar 2024.  Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt að auglýsa sbr. 31. gr. skipulagslaga 123/2010, að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar. Vísað í borgarráð.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagsbreytingu í auglýsingu svo kalla megi fram sjónarmið íbúa. Gera fulltrúarnir því hefðbundinn fyrirvara um endanlega afstöðu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þær breytingar sem hér eru lagðar til, að skapa skilyrði fyrir skotæfingar, bera merki um hversu kappsamur meirihlutinn er að þjóna þessum hópi fólks sem vill skjóta. Aðstaða á svæðinu hefur verið byggð upp og kostuð af Reykjavíkurborg. Miklu hefur verið kostað  vegna landmótunar og annarra mannvirkja til að réttlæta frekar að svæðið verði notað fyrir skotæfingar. Flokkur fólksins harmar að hunsa eigi alfarið áralanga baráttu íbúanna að losna við skotæfingasvæði svo hlífa megi fólki og dýrum við mengun.  Eftir því er tekið að hvergi í gögnum er minnst á viðurlög ef reglur eru brotnar.  Umræða um að þetta sé þjóðarleikvöllur í skotfimi ætti leiða til þess að fleiri en borgin greiði fyrir allar þessar breytingar. Hvernig getur skotæfingasvæði verið þjóðarleikvöllur þegar stór hópur er e.t.v. alfarið á móti þessu sporti. Þótt blýhögl séu bönnuð hafa þau fundist í fuglum sem ekki gera greinarmun á blýhöglum og sandkornum sem þeir éta til að auðvelda meltinguna.    Ætlast er til að Reykjavíkurborg beri kostnað af rannsóknum á menguninni.  Með öllu þessu tilstandi má ætla að þessi skotvöllur verði þarna um aldur og ævi eftir allt þetta tilstand. Allt þetta mál er að mati Flokks fólksins mikið hörmungarmál.

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030130

    Fylgigögn

  3. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Skurnar ehf., dags. 23. janúar 2023, ásamt  bréfi, dags. 23. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Vallár á Kjalarnesi. Í breytingunni sem lögð er til felst að fjölga stæðum fyrir fugla í húsunum í samræmi við kröfur um aðbúnað alifugla, samkvæmt uppdr. TAG teiknistofu ehf. dags. 23. janúar 2023, síðast br. 9. janúar 2024. Tillagan var auglýst frá 11. apríl 2023 til og með 26. maí  2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Íbúaráð Kjalarness, dags. 21. apríl 2023 og Umhverfisstofnun, dags. 7. júlí 2023. Einnig er lögð og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. nóvember 2023.
    Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim tillögum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. nóvember 2023
    Vísað til borgarráðs USK23010259

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að tillit verði tekið til sjónarmiða íbúa á svæðinu sem hafa áhyggjur af neikvæðum umhverfisáhrifum og mögulegum heilsuspillandi áhrifum starfseminnar á íbúa. Tryggja þarf örugga vöktun með hugsanlegri lyktarmengun af völdum stækkunarinnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að stækka eigi hænsnabúið svo betur fari um hænsnin. Hætta á notkun búra en á sama tíma á að tvöfalda fjölda fugla. Þetta hlýtur að vera allt í samræmi við dýraverndunarlög- og sjónarmið.
    Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins sér í gögnum eru helstu athugasemdir um lyktarmengun vegna stækkunar Stjörnueggja. Í ljósi þess að óvissa er um áhrif stækkunarinnar á lyktarmengun telur Umhverfisstofnun rétt að tekið verði tillit til þess við gerð skilmála deiliskipulagsins. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það og einnig að gert verði skoðun á á umhverfisáhrifum  þegar fram líða stundir sbr. bókun Íbúaráðs Kjalarnes.

    Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn VSÓ ráðgjafar, dags. 4. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð Strætó. Í breytingunni sem lögð er til felst að byggingarreitir fyrir þjónustu eru felldir út og afmarkað er svæði fyrir skiptistöð Strætó þar sem komið verði fyrir biðstöðvum ásamt strætóskýlum. Auk þess er afmarkaður byggingareitur fyrir aðstöðuhús starfsmanna Strætó, samkvæmt uppdr. VSÓ ráðgjafar, dags. 28. september 2023, br. 11. janúar 2024. Einnig er lögð fram fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 229 frá árinu 2023. Tillagan var auglýst frá 2. nóvember 2023 til og með 14. desember 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Hólmfríður Guðmundsdóttir, dags. 30. nóvember 2023, Þorbjörg Guðmundsdóttir, dags. 4. desember 2023, Ingi B. Poulsen hjá POULSEN lögmannsstofu f.h. Húsfélagsins Völundur, dags. 11. desember 2023, Jónas Örn Jónasson hjá Reykjavik Lawyers f.h. Kristínar Hjartardóttur og Eylendar ehf., dags. 13. desember 2023 og Helgi Axel Svavarsson og Eunsun Lee, dags. 13. desember 2023. Einnig er lögð fram ábending Veitna, dags. 29. nóvember 2023, umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 11. desember 2023 og umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 14. desember 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. janúar 2024.
    Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. janúar 2023 Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs USK23090029

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um árabil hefur legið fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir endastöð strætisvagna í staðinn fyrir núverandi endastöð og skiptistöð við Hlemm. Fyrirliggjandi staðsetning við Skúlagötu er ekki ákjósanleg og mun hafa ónæði í för með sér fyrir nærliggjandi íbúa. Óheppilegt er að mikil óvissa um hversu lengi umrædd endastöð muni vera við Skúlagötu þrátt fyrir að einungis sé um staðsetningu til bráðabirgða að ræða. Heppilegra hefði verið að finna framtíðarstaðsetningu slíkrar endastöðvar til framtíðar í stað þess að koma henni fyrir til bráðabirgða á þeim stað, sem hér er lagt til. Hér virðist því vera um skipulagsklúður að ræða. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld leggja til tímabundna endastöð Strætó við Skúlagötu vegna flutning frá Hlemmi, samþykkt af samgöngustjórn Reykjavíkurborg. Fjöldi athugasemda hefur borist, einna helst er bent á óæskilega staðsetningu fyrir strætóstöð í íbúðarhverfi og nálægð við svefnherbergi íbúa. Mikil umferð strætisvagna með hljóð og loftmengun hlýtur að teljast ógn við heilsu og friðhelgi íbúa. Bílastæðið sé einnig fullnýtt alla daga. Æskilegra væri að finna annan stað fjær íbúabyggð til dæmis vestasta hluta Miðbakkans. Flokkur fólksins tekur undir þetta. Mótvægisaðgerðir mega sín lítils því erfitt er t.d. að koma upp frekari hljóðvörnum umfram þau sem eru í dag án þess að ganga á útsýni íbúa til norðurs. Fulltrúi Flokks fólksins finnst ekki duga að hafa samráð  aðeins með því að auglýsa tillöguna heldur væri nær að hafa íbúafund og hlusta á það sem fólkið segir. Bréf dugar ekki heldur, sums staðar er póstur einfaldlega ekki borinn út og ef þau eru borin út er útburður afar stopull.

    Hrönn Valdimarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 9. janúar 2024. USK22120096

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð SORPU bs. dags. 9. janúar 2024 ásamt fylgigögnum. USK23010167

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið 3 í fundargerð Sorpu bs.:

    Eitt helsta umtalsefni borgarbúa er sorphirðan og nýja flokkunarkerfið sem tekið var í notkun síðastliðið sumar. Reykvíkingar eru duglegir að flokka lífrænan úrgang frá en á sama tíma er mikil óánægja með að stefnt sé að því að íbúar þurfi að greiða fyrir bréfpokana undir lífræna úrganginn. Vel hefur gengið að hirða lífrænt og almennt sorp en mikil óánægja er með hversu hægt gengur að tæma plast- og pappírstunnur. Í miðri umræðu meirihlutans um að halda aftur af gjaldskrárbreytingum til að leggja sitt af mörkum við að sporna gegn hækkun verðbólgu hefur Sorpa hækkað sína gjaldskrá svo um munar. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt og mun fara eins og aðrar gjaldskrárhækkanir beint út í verðlagið. Vissulega kunna að vera góðar skýringar á hækkunum s.s. að að einingarverð á blönduðu rusli til orkuvinnslu hefur hækkað. Engu að síður er mikilvægt að setja allar gjaldskrárhækkanir sem mögulegt er á frest enda er það í þágu almannahags.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á breytingum á söfnunarkerfi grenndargáma í febrúar 2024.
    Frestað. USK24010116

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mathöll í Mjódd og skiptiaðstöðu Strætó, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. nóvember 2023. Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. janúar 2024.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. USK23110012

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar meirihlutans kjósi að fella tillögu um að tengja Göngugötuna í Mjódd og skiptistöð Strætó með sérstakri byggingu og að þar verði komið á fót mathöll í samstarfi við einkaaðila. Ljóst er að slík starfsemi myndi styrkja Mjóddina í sessi sem helstu verslunar- og þjónustumiðstöð í Breiðholti og bæta þjónustu við strætisvagnafarþega.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ákaflega jákvætt yrði fyrir íbúa Breiðholts að fá mathöll í Mjóddina, sérstaklega í ljósi þess að hin sívinsæla matsala Hjá Dóra fór úr Mjóddinni fyrir allnokkru og íbúar því svolítið á einskismannslandi að sækja út fyrir hverfið í leit að góðum matsölustöðum. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að í framtíðarskipulagi á Mjóddinni og þeim húsakynnum sem  þar eru og eiga eftir að koma yrði gert ráð fyrir möguleika á slíkri mathöll eða öðru sambærilegu ef að áhugasamir rekstraraðilar finnast í slíkt verkefni.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipulag í Mjódd, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. janúar 2024.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. USK23110185

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lágvöruverslun í stúdentahverfi, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs. dags. 25. október 2023. Einnig er lagt fram svar skipulagsfulltrúa dags. 11 janúar 2024. USK23100294

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tekið sé vel í erindi þetta og að þarna geti við endurskipulag svæðisins skapast aðstæður til að opna slíka verslun á þessum stað. Ekki er vanþörf á að hafa slíka verslun í návígi við fólk sem stundar nám á Háskólasvæðinu.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kannað verði hvort hægt sé að greiða samhliða fyrir bílastæði í bílastæðahúsi og hleðslu rafbíls, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. janúar 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssvið, skrifstofa samgangna og borgarhönnunar USK24010096

  12. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að íbúar við Hlemm fái að nota bílastæði við enda lögreglustöðvarinnar, Rauðarársstígsmegin, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. janúar 2024.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgangna og borgarhönnunar. USK24010094

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði á þekktum sprungusvæðum innan Reykjavíkur og öðrum svæðum innan borgarmarkanna þar sem fyrir hendi er þekkt hætta á náttúruvá af einhverju tagi.

    Frestað USK24010169

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um lagfæringu á gangstéttum í Norðurhólum, Hólabergi og Hraunbergi (111 Reykjavík). Gangstéttar þarna í þessum götum eru orðnar mjög illa farna, sprungnar og yfirborð þeirra mjög frostsprungið, gróft og ónýtt. Gangstéttirnar eru á köflum illa gangfærar og beinlínis stórhættulegar yfirferðar á t.d. rafhlaupahjólum. Dæmi eru um að fólk, m.a. börn, hafi dottið og meitt sig vegna þess hvernig þessar stéttar eru orðnar á yfirborðinu. Alvarlegast er ástandið í Norðurhólum frá gatnamótunum við Hólaberg þar sem stéttirnar eru kross sprungnar og aflagaðar. Sama má segja um ástandið fyrir framan húsið að Hólabergi 80. Samhliða lagfæringum á þessum gangstéttum er lagt til að eigendum húsa sem þarna standa verði boðið að tengja snjóbræðslu í bílaplönum sínum út í gangstéttirnar fyrir framan húsin sín á sinn kostnað óski þeir eftir að fá að gera það.

    Frestað. USK24010167

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hvergi er að sjá í gögnum um breytingu á aðalskipulagi að það sé gert ráð fyrir neinum viðurlögum við brotum á hertum reglum á skotæfingasvæðinu Álfsnesi. Flokkur fólksins leggur til að samin verði reglugerð um sektir og eða önnur viðurlög ef settum reglum á skotæfingasvæðinu er ekki framfylgt. Ef ekki eru nein viðurlög við brotum má gera ráð fyrir að brot sem hafa átt sér stað á árum áður haldi áfram.

    Frestað. USK24010168

Fundi slitið kl. 10:10

Pawel Bartoszek Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Birkir Ingibjartsson Kjartan Magnússon

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 17. janúar 2024