Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2023, miðvikudaginn 12. apríl, kl. 9:06 var haldinn 265. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir, Sigurjóna Guðnadóttir og Hólmfríður Frostadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
Þetta gerðist:
-
Lögð fram og kynnt, skýrsla stýrihóps um endurskoðun á vetrarþjónustu, dags. 15. mars 2023.
Samþykkt að vísa tillögum stýrihópsins til fjárhagsáætlunargerðar.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Stíga og gatnakerfi borgarinnar hefur stækkað til muna á síðustu árum og veðurfar hefur breyst og hefur orðið öfgakenndara. Farið hefur verið í nokkrar umbætur, en mikilvægt að bregðast við af auknum krafti og bæta vetrarþjónustuna til að takast á við nýjan veruleika. Hér eru lagðar til 16 tillögur ásamt 40 aðgerðum. Af þessu má nefna fjölgun tækja í hverju útboði, endurskoðun á útboðsaðferðum, aukið samstarf við vegagerð og nágrannasveitarfélög, eflingu á upplýsingagjöf og móttöku ábendinga og fleira. Þó stofnvegir þurfi áfram að vera í forgangi er lagt til að eitt tæki á hverju svæði byrji í húsagötum, til að koma í veg fyrir uppsöfnun og almennt miðað við að byrja við lægra snjómagn. Þjónustustig á hjóla og göngustígum sé hækkað og sérstaklega tekið á því þegar snjóruðningur lokar af gönguþverunum við fjölfarin gatnamót, ruðningur við biðstöðvar almenningssamgangna og rútustoppa verði boðin út sér, eftirlit verði eflt svo hægt sé að grípa inn í þar sem eitthvað misferst. Einnig er lagt til nánara samstarf við veðurfræðinga til að bæta áætlanagerð og viðbragð. Í heildina er um að ræða töluverða þjónustuaukningu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Undanfarna vetur hafa Reykvíkingar kynnst getuleysi pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar gagnvart þeirri grunnskyldu að tryggja að götur séu sæmilega færar og að fólk komist til og frá heimilum sínum. Tugþúsundir lentu í miklum vandræðum vegna ófærðar í húsagötum á meðan götur voru almennt orðnar greiðfærar í nágrannasveitarfélögunum. Tekið skal fram að starfsmenn borgarinnar og verktakar, sem sinntu snjómokstri stóðu sig vel. Hins vegar sannaðist ítrekað að pólitískt skipulag og verkstjórn snjóruðnings er óviðunandi. Gullna reglan við snjóhreinsun felst í því að setja sem mestan kraft í verkið á meðan snjór er nýfallinn, ótroðinn og meðfærilegur. Þetta var ekki gert í Reykjavík heldur snjó leyft að safnast upp í húsagötum vegna óstjórnar og seinna viðbragða. Mynduðust því víða harðir klakahryggir á milli djúpra hjólfara, sem olli tjóni á undirvögnum bifreiða. Ástandið var slæmt í flestum hverfum borgarinnar en verst í eystri hverfum. Í skýrslu stýrihóps um vetrarþjónustu er miklu rými varið til upptalningar á sjálfsögðum atriðum, sem eflaust er full þörf á miðað við sleifarlag pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar í málaflokknum. Er skýrslan því ágæt viðbót við gildandi þjónustuhandbók vetrarþjónustunnar frá 2020. Sætir furðu að formaður ráðsins hafi kosið að ræða skýrsluna í smáatriðum í fjölmiðlum áður en hún var formlega lögð fram og jafnframt notað tækifærið til persónulegra árása á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Vinstri græn binda vonir við að þetta nýja verklag og sá nýi rammi í kringum snjómokstur og hálkuvarnir skili góðum árangri næsta vetur. í vetrarhörkum og fannfergi þarf Reykjavíkurborg að tryggja greiðan og öruggan aðgang vegfarenda og tryggja að fólk geti reitt sig á gönguleiðir og að almenningssamgöngur séu á áætlun. Eins þarf að huga vel að því að neyðarþjónusta og hvers kyns heilbrigðisþjónusta gangi snurðulaust fyrir sig. Athygli vekur að lagt er til auka eftirlit með verkþáttum o.þ.h. með því að ráða starfsfólk. Hér skapast tækifæri til að skoða slíkar ráðningar í víðara samhengi og dusta rykið af hugmyndum Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar um að ráða borgarlandverði sem gegna fjölþættu eftirlitshlutverki í borgarlandinu - allt frá stöðumælavörslu og í að tryggja aðgengismál en einnig að hafa eftirlit með því að vetrarþjónusta gangi sem skyldi. Hér gætu skapast ákveðin samlegðartækifæri í starfsmannahaldi borgarinnar og vel þess virði að rýna þessa ágætu hugmynd.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalista vekur athygli á því flækjustigi sem myndast hefur vegna aukinnar útvistunar í snjómokstri. Verktökum hefur í auknum mæli verið falið að ryðja snjó í borginni en því fylgir mikil skriffinnska og eftirlit. Þannig þarf reglulega að uppfæra staðla og reglugerðir svo að verktakar sinni verkum sínum eftir væntingum. Nú er m.a. lagt til hreinsunar í húsagötum þegar snjór fer yfir 10cm. Í stað þess að verkviti starfsfólks og stjórnenda borgarinnar sé treyst til að lesa í stöðuna eftir veðrum og vindum, eru frekar settir upp staðlar um það hve mikla sentímetra þarf að snjóa til að það sé mokað. Þetta er gert vegna þess að snjómokstur er í höndum verktaka og þá þarf setja ströng skilyrði (eins og nákvæmar mælingar upp á sentímetra), með tilheyrandi kostnaði. Áætlaður kostnaðarauki vegna fjölgunar eftirlitsmanna er áætlaður um 50 milljónir á ári. Þessi kostnaður mun m.a. aukast vegna eftirlits með verktökum. Það er aftur á móti ánægjuefni að Reykjavíkurborg ætli að fjárfesta í fleiri snjómoksturstækjum en betur má ef duga skal. Snjómokstur í Reykjavík ætti að fara fram milliliðalaust. Í því samhengi má benda á að tæki og beinráðið starfsfólk á vegum borgarinnar gæti sinnt fleiri verkum en bara snjómokstri.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögð er fram skýrsla stýrihóps um endurskoðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins fékk óvænt tækifæri til að taka sæti í hópnum. Ef þeim tillögum verða fylgt eftir sem stýrihópurinn hefur nú birt í nýrri skýrslu mun vetrarþjónustan batna. Í skýrslunni eru skilaboð um að sýna þarf meiri metnað og ber borginni að veita framúrskarandi þjónustu í þessu sem öðru. Í vetur kom skýrt í ljós að víða var pottur brotin sem má rekja til fjölmargra ástæðna sem ekki er rými fyrir að fjalla um í bókun. Fulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu á í stýrihópnum að þjónusta húsagötur mun betur en gert hefur verið. Bæta þarf viðbragðstíma, vinnulag og eftirfylgni. Meginreglan skal vera að setja snjóruðninga ekki á gangstéttir nema í undantekningartilfellum. Ákvarða má fyrir fram hvert á að setja ruðninginn og merkja inn á kort. Þessum ábendingum var vel tekið í hópnum og skilaði sér með eftirfarandi hætti: „Skoða og skilgreina götur og svæði þar sem nauðsynlegt er að skilja ekki eftir snjóruðning, moka snjó burt eða blása honum á vörubíl eða til hliðar. Skoðað verði til hins ýtrasta hvernig koma megi í veg fyrir að myndun snjóruðninga á gönguleiðum.
Hjalti Jóhannes Guðmundsson skrifstofustjóri, Björn Ingvarsson deildarstjóri og Daði Baldur Ottósson frá Eflu taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK22090079
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa, dags. 23. og 30. mars 2023. USK23010150
Fylgigögn
-
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Nýja Skerjafjarðar. Við vinnslu deiliskipulagstillögu var m.a. horft til umhverfisgæða með hliðsjón af uppfærðu Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Breytingin felst í: 1. Komið er fyrir dreifistöðvum Veitna ohf. með byggingarreitum á þremur stöðum innan deiliskipulagssvæðis. Ein dreifistöðin, sú sem er nyrst í græna ásnum fær sérlóð. 2. Kafla 5.10 vegna lóðar 5 í greinargerð er breytt. 3. Afmörkun fylgilóða fyrir djúpgáma í götum felld niður og gert er ráð fyrir sorpgerðum á lóðum sérbýla og raðhúsa og djúpgámum á fjölbýlishúsalóðum undir einu eignarhaldi. 4. Akfær stígur á lóð 5 er felldur niður og er byggingarreitur austan megin lóðar verður þá óslitinn en þess í stað er komið fyrir akfærum stíg vestan megin lóðar að djúpgámum. 5. Svæði afmörkuð á uppdrætti fyrir tímabundin haugsvæði vegna geymslu á menguðum jarðvegi á meðan vinna við jarðvegshreinsun stendur yfir, samtals 1 ha. að stærð. 6. Tákn fyrir ofanvatnsrás á grænu svæði vestast á skipulagssvæði tekið út vegna breyttrar hönnunar ofanvatnslausna. 7. Byggingarreitir fyrir raðhús á lóð 2 dregnir inn 2m frá hjólastíg til að rýmka milli hjólastígs og húsgafla. 8. Byggingarreitir sérbýla við Skeljanes stækkaðir. 9. Lóðum 2, 3, 4, 6 og 10 skipt upp í smærri lóðareiningar. 10. Skilmálar fyrir lóð 10 undir hjúkrunarheimili eru felldir úr gildi en fjölbýlishúsum komið fyrir með allt að 80 íbúðum á lóðum 10a og 10b. 11. Lóðir sem snúa að miðsvæðum hafi heimild til atvinnu- og þjónusturýma á jarðhæðum sem snúa að götu. 12. Stök hús í inngörðum minnkuð á reitum 4 og 6. 13. Götuheitum nafnanefndar bætt inná uppdrátt. 14. Við port og sund á lóðum 3, 4, 5 og 10 skal vera uppbrot í útvegg og vandaður frágangur. 15. Akstursstefnur fjarlægðar af uppdrætti. Breyting deiliskipulagsáætlana þessara er sett fram á þremur uppdráttum; deiliskipulagsuppdrætti, skýringaruppdrætti og skuggavarpsuppdrætti, dags. 4. mars 2022, breytt 2. febrúar 2023, og í uppfærðri greinargerð og almennum skipulagsskilmálum dags. 4. mars 2022, breytt 18. ágúst 2022, og sérskilmálum, dags. 4. mars 2022, síðast breytt 2. febrúar 2023. Einnig fylgir samantekt breytinga 1. áfanga, dags. 4. mars 2022, breytt 2. febrúar 2023, ásamt hönnunarleiðbeiningum fyrir almenningsrými, götur, torg og inngarða, dags. 4. mars 2022. Tillagan var auglýst frá 27. apríl 2022 til og með 13. júní 2022. Eftirtaldir sendu umsagnir: Isavia, dags. 13. maí 2022, Bláskógabyggð, dags. 20. maí 2022, Veðurstofa Íslands, dags. 2. júní 2022, Mosfellsbær, dags. 13. júní 2022, Náttúrufræðistofnun Íslands, dags. 13. júní 2022, Umhverfisstofnun, dags. 13. júní 2022, Minjastofnun Íslands, dags. 13. júní 2022, og Veitur, dags. 13. júní 2022. Einnig eru lagðir fram tölvupóstar Veitna, dags. 17. og 23. ágúst 2022 þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við tillöguna. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. febrúar 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt.
Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér eru lagðar fram nokkrar breytingar á deiliskipulagi til að lagfæra liði sem snúa að veitukerfum, djúpgámum og nokkrar breytingar gerðar á lóðum. Við viljum sjá nýtt hverfi rísa í Skerjafirði og mikilvægt er að hafa í huga við uppbyggingu hverfisins að tekið sé tillit til aðstæðna í nærumhverfi tekið tillit til faglegs áhættumats líkt og boðað var í samstarfsáttmála meirihlutans. Vinna við það faglega áhættumat á vegum ráðuneytis með aðkomu borgarinnar stendur enn yfir en ætti að ljúka bráðum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Vera kann að búið sé að bregðast við ýmsum athugasemdum um Nýja Skerjafjörðinn. Þótt hér sé verið að fjalla um 1. áfanga þar sem fjaran kemur ekki við sögu, kemur fram í gögnum að ekki sé frekari þörf á að bregðast við athugasemdum frá Náttúrufræðistofnun. En eitt að meginathugasemdum var einmitt að ekki yrði gengið á fjöruna? Þegar flugvöllurinn fer, hvenær sem það verður, þá fyrst er ástæða til að skipuleggja nýja byggð á svæðinu og þá ekki þarf að fara í landfyllingar. Margar athugasemdir bárust vegna mengunar í jarðvegi. Fjarlægja þarf og hreinsa mengun úr jarðvegi áður en uppbygging hefst. Gerðar voru athugasemdir um að ekki var athugað hvort hættulegt efni (PFAS) efni sem m.a. koma frá slökkvifroðu séu í jarðveginum. Allt þetta er reifað í löngu máli í gögnum. Eftir stendur hvort þessi framkvæmd sé tímabær. Innviðaráðuneytið telur að svo sé ekki án þess að fullkannað sé hvort búið sé að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta hefði átt á áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefja ekki framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. 6. 2022.
Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri, Sigurður Örn Jónsson frá Eflu og Andri Klausen frá ASK arkitektum taka sæti á fundinum undir þessum lið. SN210810
Fylgigögn
-
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Vegagerðarinnar, dags. 25. júlí 2022, um framkvæmdaleyfi vegna gerð strætóstöðva í Fossvogi ásamt færslu og lengingar fráreinar af Kringlumýrarbraut að Suðurhlíð. Gera skal stíga að strætóstöðvum, þverun stígs á Suðurhlíð og þrengja syðsta hluta Suðurhlíðar. Aðlaga skal hljóðmön vegna færslu fráreinar, aðlaga fláa og ganga frá landmótun vegna afvötnunar stíga og gatna. Einnig er lagt fram teikningahefti Hnit verkfræðistofu, dags. í júní 2022, og útboðslýsing Hnit verkfræðistofu, dags. í apríl 2022. Erindi var grenndarkynnt frá 30. september 2022 til og með 28. október 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Friðrik Sigurðsson og Magnea S. Magnúsdóttir, dags. 6. október 2022, Þórarinn G. Pétursson og Kristín Þórðardóttir, dags. 9. október 2022, Anna Pálsdóttir, Björn Sigurbjörnsson og Jóhanna Björnsdóttir, dags. 18. október 2022, Haraldur Sigþórsson, dags. 18. október 2022, Viktoría Valdimarsdóttir, dags. 18. október 2022, Ragnar Halldór Hall, dags. 18. október 2022, Guðni Sigfússon og Anna M. Björnsdóttir, dags. 18. október 2022, Sigríður Kristín Pálsdóttir og Snæbjörn Þór Ólafsson, dags. 19. október 2022, Guðríður Gísladóttir og Ragnar Halldór Hall, dags. 23. október 2022, Eggert Gunnarsson, dags. 24. október 2022, Sigrún Kelleher, dags. 25. október 2022, Þóra Sigríður Jónsdóttir f.h. húseiganda að Suðuhlíð 36, dags. 26. október 2022, Hrafnhildur Grace Ólafsdóttir, dags. 26. október 2022, Auður Pálsdóttir f.h. Jóhönnu Björnsdóttur, dags. 26. október 2022, Anna Björg Halldórsdóttir, dags. 26. október 2022, Árni Samúelsson, dags. 26. október 2022, Sigríður Svana Pétursdóttir og Jón Sigurðarson, dags. 26. október 2022, Þóra Eyjólfsdóttir, dags. 27. október 2022, María Friðjónsdóttir, dags. 26. október 2022, og Þorbjörg Jónsdóttir og Jóhannes Kristinsson, dags. 28. október 2022. Einnig eru lagðir fram tölvupóstar Björns Sigurbjörnssonar og Önnu Pálsdóttur, dags. 18. og 22. október 2022, þar sem óskað er eftir fundi og betri kynningu og tölvupóstar Jóns Sigurðarsonar, dags. 20. og 24. október 2022, þar sem óskað er eftir fundi og frekari upplýsingum/gögnum. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 30. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 30. mars 2023, með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdaleyfi vegna strætisvagnastöðva beggja vegna Kringlumýrarbrautar í Fossvogi.Flokkur fólksins fagnar því að efla eigi almenningssamgöngur á þessum stað í Reykjavík. En sjá má í gögnum að margir eru ósáttir og á þær raddir þarf að hlusta. Fjöldi athugasemda eru gerðar m.a. vegna hávaða. Enda þótt hávaði sé hluti af borgarumhverfi á að leitast við að halda honum í lágmarki. Ekki er séð að grípa eigi til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að hljóðstig hækki. Ekki er að sjá á þeim gögnum sem fylgja erindinu að gert sé ráð fyrir því að gerðar verði ráðstafanir austan Kringlumýrarbrautar til að koma í veg fyrir aukin hávaða frá fyrirhugaðri strætisvagnastöð í þeirri akstursstefnu.Einnig er bent á að umferðarhraði er mikill á þessum kafla Kringlumýrarbrautar og þrátt fyrir að hámarkshraði sé 80 km er umferðin oft á tíðum mun hraðari en það. Gæta þarf að hljóðvist við byggðina sem næst er. Flokkur fólksins minnir á samráð og samtal við íbúa, að hafa íbúa með frá byrjun, gæta að kynningar séu skýrar og skilmerkilegar. Umsagnafrestur er auk þess of stuttur og finnst mörgum málið illa undirbúið af hálfu borgaryfirvalda.
Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220464
Fylgigögn
-
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Arkþing/Nordic f.h. umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14.júní 2022, er varðar breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi. Í tillögunni felst uppbygging á íbúðarhúsnæði og nýjar lóðir skilgreindar innan íbúðarsvæðis ÍB57 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Um er að ræða fyrsta áfanga af tveimur möguleikum með allt að 81 íbúðum. Einnig eru lagðir fram deiliskipulagsuppdrættir og skuggavarp, dags. 14. júní 2022, br. 16. mars 2023. Tillagan var auglýst frá 12. október 2022 til og með 23. nóvember 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Guðfinna Ármannsdóttir, dags. 14. nóvember 2022, íbúaráð Kjalarness, dags. 11. nóvember 2022, og Veitur, dags. 22. nóvember 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. mars 2023. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
Frestað.Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, leggur fram svohljóðandi bókun:
Réttur fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði til að leggja fram bókanir um dagskrármál er ótvíræður. Því er mótmælt að fulltrúar Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknarflokks komi í veg fyrir að bókun Sjálfstæðisflokksins um skipulagsmál í Grundarhverfi á Kjalarnesi sé færð í fundargerð fundarins.
Formaður ráðsins, Alexandra Briem, leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Samkvæmt fundarsköpum hafa fulltrúar rétt til að bóka um þau mál sem eru til meðferðar, en frestuð mál hafa ekki verið talin vera til meðferðar og því hefur hingað til ekki tíðkast að bóka um þau nema það sé beinlínis til að bóka um frestunina. En efnislegar bókanir um fundarliði koma þá eðlilega á þeim fundi sem þeir eru teknir fyrir á aftur.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Umrætt dagskrármál var til kynningar og efnislegra umræðna á fundinum og því heimilt að bóka efnislega um það. Mótmæli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna gerræðislegrar fundarstjórnar eru ítrekuð.
Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220294
-
Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa, dags. 21. og 28. mars og 4. apríl 2023. USK22120096
Fylgigögn
-
Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu: samþykki fyrirkomulag sbr. bréf dags. 30. mars 2023 á tímabundnum endastöðvum Strætó vegna framkvæmda á Hlemmi. Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. USK22030182Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Spurning er um hvort ekki þurfi að fresta þessum framkvæmdum vegna ótíðar í efnahagsmálum. Um er að ræða risaframkvæmd sem setur margt á hvolf, samgöngur og aðgengi. Gæta þarf þess að fara ekki of geyst nú vegna hárra vaxta á lánum. Sjá má hvernig komið er fyrir Árborg sem fór of bratt í framkvæmdum. Reikna má með að framkvæmdir muni kosta mun meira en áætlað er. Reynslan sýnir það. Þetta er ekki tíminn fyrir verkefni af þessu tagi. Kallað hefur verið eftir að dregið verði úr framkvæmdum á landsvísu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eins og meirihlutinn skilji þetta ekki. Draga þarf úr framkvæmdum víðar, verkefni sem mega bíða sbr. endurgerð torga.
Fylgigögn
-
Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu: að stytta svæði samsíða bílastæða við Skólavörðustíg, fyrir framan hús nr. 45, um sem nemur einni bíllengd. Í stað þess verði núverandi gróðurbeð við enda götunnar stækkað og því breytt í blágrænt ofanvatnsbeð. Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. USK22030079Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samgöngustjóri leggur til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að stytta svæði samsíða bílastæða við Skólavörðustíg, fyrir framan hús nr. 45, um sem nemur einni bíllengd. Í stað þess verði núverandi gróðurbeð við enda götunnar stækkað og því breytt í blágrænt ofanvatnsbeð. Flokkur fólksins telur að takmarkað gagn verið af þessari framkvæmd. Telja Veitur virkilega að fimm fermetra beð geti tekið við miklu magni að regnvatn?
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 16. mars 2023 vegna samþykktar borgarstjórnar þann 21. mars 2023 á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 - skotæfingasvæði Álfsnesi - lýsing. USK23030130
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. mars 2022 ásamt svari skrifstofu borgarlandsins, dags. 21. mars 2021. USK22030092
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna fyrirhugaðs kynningarfundar á forhönnun rammaskipulagsins á Gufunesi fyrir uppbygginguna á síðari áföngum, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa. USK23030295 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um trjáfellingu tveggja silfurreyna við Grettisgötu, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23030293 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fyrirkomulag gangstéttarviðhalds í borginni, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23030292 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjármagn til kaupa á strætisvögnum, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. mars 2023.
Vísað til umsagnar strætó bs. USK23030210 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðhaldskostnað leik- og grunnskólabygginga, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK23030093 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um niðurfellingu aukagjalds vegna sorphirðu, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23030100 -
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um veggjakrot, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins. USK23030094 -
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur til svohljóðandi tillögu: Lagt er til að kynningarfundur verði haldinn fyrir íbúa Grundarhverfis á Kjalarnesi vegna umræddrar deiliskipulagstillögu áður en hún verður samþykkt. Mikilvægt er að skipulag hverfisins verði þróað í góðu samráði við íbúa þess.
Frestað. USK23040079
-
Áheyrnafulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Bílastæðasjóður ásamt borgaryfirvöldum hvetji handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum til að senda inn kvittanir svo þau fái endurgreiðslu vegna gjalda sem þau hafa greitt í bílastæðahús. Ljóst er að slík innheimta var ólögleg og Reykjavíkurborg hefur fallið frá gjaldinnheimtunni. Greinagerð fylgir tillögunni. USK23040072
Frestað.Fylgigögn
-
Áheyrnafulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að greiðslur til starfsfólks Reykjavíkur í 50-100% starfshlutfalli vegna samgöngusamninga svari til þeirrar upphæðar sem það kostar á mánuði að ferðast með Strætó. Starfsfólk í starfshlutfalli fram að 50% fái helming þeirrar fjárhæðar. Greinargerð fylgir tillögunni. USK23040075
Frestað.Fylgigögn
-
Áheyrnafulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvenær hófst útvistun á snjómokstri í Reykjavík og hvernig hefur sú þróun verið síðan? Hvernig var fyrirkomulag snjómoksturs áður en ráðist var í útvistun? Sósíalistar kalla einnig eftir gögnum um kostnað snjómoksturs á hverju ári eins langt og aftur nær, bæði á verðlagi hvers árs og föstu verðlagi. USK23040078
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvenær hefja á niðurrif á Íslandsbankahúsinu við Kirkjusand? Íbúar er þreyttir á ófremdarástandi en eigendur segja niðurrif handan við hornið. Spurt er hvað það merkir? Hvenær verður verkinu lokið? Íbúar í nágrenni við Kirkjusandsreitinn nærri Laugardal í Reykjavík furða sig á aðgerðaleysi í tengslum við myglað hús Íslandsbanka og kalla eftir að skipulagsyfirvöld axli ábyrgð. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert í tengslum við Íslandsbankahúsið, sem hefur staðið autt í sjö ár, þrátt fyrir að ítrekað sé því lýst yfir að nú eigi að rífa það. Á meðan fær myglað húsið að grotna niður og íbúar í hring eru orðnir þreyttir á aðgerðaleysinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta vera ófremdarástand og bjóða upp á ýmsar hættu. Í húsinu hefur verið hústökufólk og unglingar að leika sér á hættulegum stöðum fyrir utan sóðaskap sem fylgir niðurníddri byggingu af þessari stærð. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandssjóðum, sem eiga húsið, eru öll leyfi fyrir niðurrifi komin og gögnin komin á borð Skipulagsstofnunar. Ekkert virðist því vera að vanbúnaði að hefjast handa. USK23040074
- Kl. 11:21 víkur Líf Magneudóttir af fundi.
- Kl. 11:39 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundi.
- Kl. 11:49 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.
- Kl. 11:52 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.
Fundi slitið kl. 12:08
Alexandra Briem Kjartan Magnússon
Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2023