Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

121. fundur

Fræðsluráð

Ár 2000, mánudaginn 28. ágúst, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 121. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Eyþór Arnalds og Guðlaugur Þór Þórðarson. Auk þeirra sátu fundinn Hannes Þorsteinsson og Guðrún Sturlaugsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Ingunn Gísladóttir starfsmannastjóri og Guðmundur Þór Ásmundsson verkefnisstjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf frá borgarstjóra, dagsett 22. ágúst s.l., um aukafjárveitingu vegna tómstundatilboða til barna og unglinga í Breiðholti ásamt umsögn fjármálastjóra frá 21. ágúst (fskj 121, 1.1).

2. Starfsmannastjóri kynnti stöðuna í ráðningum að skólunum (fskj 121, 2.1) og fræðslustjóri lagði fram minnisblað með upplýsingum um leit að kennurum og námskeið fyrir nýja kennara (fskj 121, 2.2). Fulltrúar kennara lögðu fram eftirfarandi bókun: Fulltrúar kennara í fræðsluráði harma að enn eitt skólaárið skuli sú staða komin upp í Reykjavík að í skólabyrjun hafi ekki verið gengið frá ráðningum kennara. Ljóst er að nú vantar á annað hundrað kennara í skóla borgarinnar. Nokkuð hefur borið á því að ráðnir hafa verið leiðbeinendur án þess að sótt hafi verið um undanþágur fyrir þá fyrst. Þetta er með öllu óþolandi og er ekki heimilt samkvæmt lögum. Fulltrúar kennara fagna því að leitað skuli leiða til að leiðbeinendum með fagmenntun verði gert kleift að öðlast kennsluréttindi en hafna með öllu að skólarnir verði mannaðir leiðbeinendum án fagmenntunar. Fulltrúar minnihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Fulltrúar sjálfstæðismanna í fræðsluráði harma þann mikla kennara-skort sem er í upphafi skólaársins. Ástand þetta er því miður að versna ár frá ári og er nú svo komið að hætta er á að los komist á skólastarfið. Ennfremur teljum við ámælivert að ekki hafi verið fengin lögbundin undanþága við ráðningar leiðbeinenda. Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Umtalsverður árangur hefur náðst í ráðningarmálum kennara við grunnskóla borgarinnar frá fræðsluráðsfundi 14. ágúst s.l. Búið er að ráða í u.þ.b. tvo þriðju þeirra stöðugilda sem voru ómönnuð fyrir hálfum mánuði síðan, þ.e.a.s. í dag vantar um 20 kennara. Það er því ekki rétt hjá fulltrúum kennara að nú vanti á annað hundrað kennara í skóla borgarinnar. Þá viljum við taka fram að sjálfsögðu fer

starfsfólk Fræðslumiðstöðvar og skólastjórar að lögum við ráðningar kennara. Fræðslustjóra er falið að fylgjast grannt með stöðu mála í þeim skólum þar sem ennþá vantar kennara. Fræðsluráð hvetur til að undirbúið verði frá áramótum hluti af fjarnámi í kennsluréttindum fyrir leiðbeinendur, en meðal margra þeirra er mikill áhugi á að hefja kennsluréttindanám.

3. Forstöðumaður þróunarsviðs lagði fram og kynnti minnisblað um skráðan nemendafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2000 - 2001 (fskj 121, 3.1). Einnig lagði hún fram minnisblað um skólabyrjun í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2000, ásamt auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu (fskj 121, 3.2).

Eyþór Arnalds hvarf af fundi kl 13:40

4. Forstöðumaður þróunarsviðs lagði fram svör við fyrirspurnum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá 119. og 120. fundi fræðsluráðs (fskj 121, 4.1). Formaður lagði fram eftirfarandi bókun: Á fundi fræðslurás þann 21. ágúst s.l. bar Guðlaugur Þór Þórðarson fram fyrirspurn til borgarlögmanns varðandi hæfi formanns Innkaupastofnunar til þess að taka þátt í afgreiðslu tillögu tveggja fulltrúa stjórnar Innkaupastofnunar um að bjóða út skólanet grunnskóla Reykjavíkur. Í þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga og stjórnsýslulaga sem fjalla um hæfisreglur er kveðið á um að það sé viðkomandi nefndar að skera úr um hæfi einstakra nefndarmanna til að taka þátt í afgreiðslu mála. Það er því ekki hlutverk fræðsluráðs að afla upplýsinga um hæfi nefndarmanna í öðrum nefndum. Eðlilegur vettvangur slíkrar fyrirspurnar er stjórn Innkaupastofnunar eða borgarráð, en stjórnin starfar í umboði þess. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram eftirfarandi bókun: Meirihluti fræðsluráðs hefur augljóslega ekki áhuga á áliti bæjarlögmanns á þessu máli. Erindinu verður komið til borgarlögmanns með öðrum hætti.

5. Forstöðumaður þróunarsviðs kynnti drög að gátlista með þeim efnisatriðum sem gert er ráð fyrir að afla upplýsinga um varðandi skólastarf (fskj 121, 5.1). Lagðar voru fram ábendingar um viðbætur sem Fræðslumiðstöð var falið að vinna úr og kynna síðar í fræðsluráði.

6. Kynnt var minnisblað frá ÍTR vegna breytinga á félags- og tómstundastarfi á vegum ÍTR í grunnskólum Reykjavíkur haust 2000 (fskj 121, 6.1).

7. Forstöðumaður fjármálasviðs kynnti tillögu að styrkjum til einkaskóla skólaárið 2000 - 2001 og þróun þeirra frá hausti 1997 (fskj 121, 7.1). Tillagan samþykkt samhljóða.

8. Guðrún Sturlaugsdóttir kvaddi sér hljóðs og þakkaði samstarf í fræðsluráði s.l. 5 ár. Henni voru þökkuð góð störf og óskað velgengni.

Fundi slitið kl. 14.05

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Guðlaugur Þór Þórðarson
Sigrún Elsa Smáradóttir