Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

101. fundur

Fræðsluráð

Ár 1999, mánudaginn 6. desember, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 101. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðrún Pétursdóttir og Eyþór Arnalds. Auk þeirra sátu fundinn Erna M. Sveinbjarnardóttir frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Guðrún Sturlaugsdóttir og Hannes K. Þorsteinsson frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður fjármálasviðs, Júlíus Sigurbjörnsson, deildarstjóri rekstrardeildar, Áslaug Brynjólfsdóttir, umboðsmaður foreldra og skóla, og Steinunn Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi, sem ritaði fundargerð.

1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 18. nóvember sl., um tilnefningu Hrannars B. Arnarssonar sem fulltrúa í fræðsluráð í stað Margrétar S. Björnsdóttur. Hrannar Björn var kosinn varaformaður að tillögu formanns. Formaður bauð Hrannar Björn velkominn til starfa í fræðsluráði og þakkaði um leið Margréti Björnsdóttur vel unnin störf í ráðinu.

2. Lögð fram ársskýrsla fræðslumála í Reykjavík fyrir árið 1998, Sjón er sögu ríkari, skýrsla um ferð fræðslustjóra með skólastjórum til Minnesota 21. – 28. mars sl. og Reykjavíkurskólar – framtíðarskólinn, blað Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Einnig lagt fram minnisblað vinnuhóps um forsögn um grunnskóla, dags. í dag. Lögð fram að nýju viðmið um góðan skóla. Fræðslustjóri ræddi nokkur atriði til umhugsunar og umræðu varðandi framtíðarskólann. Deildarstjóri rekstrardeildar sýndi myndir sem teknar voru í ferð formanns fræðsluráðs, fræðslustjóra, forstöðumanns byggingadeildar borgarverkfræðings o.fl. til Minnesota í Bandaríkjunum. Fræðslustjóri og deildarstjóri rekstrardeildar gerðu grein fyrir myndunum.

Meirihluti fræðsluráðs óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Í tilefni af 100. fundi fræðsluráðs fjallar ráðið um framtíðarskólann. Mótun hans er án vafa eitt mikilvægasta verkefni okkar næstu árin. Breytt viðhorf til kennsluhátta, foreldrasamstarfs og samfélagslegs hlutverks skólanna kallar á nýjar áherslur. Tölvuvæðing samfélagsins hefur opnað víddir sem skólinn verður að nýta sér eigi hann að þjóna hlutverki sínu í nýju og breyttu umhverfi. Síðan yfirfærsla grunnskólans átti sér stað fyrir þremur árum hafa framlög til skólastarfs aukist um tæpa tvo milljarða króna eða um 50%. Á sama tíma hefur uppbygging skólahúsnæðis verið meiri en áður hefur þekkst og jafngildir einu Ráðhúsi á ári í fermetrum talið. Starfsfólk skólanna og Fræðslumiðstöðvar hefur unnið frábært starf við uppbyggingu skólastarfs við fjölmörg verkefni og tilraunir um breytta starfshætti og nýjungar í skólastarfi. Sú mikla þekking og reynsla sem þannig hefur fengist er skólasamfélaginu afar mikilvæg og nauðsynlegt að aðgangur allra að þeim upplýsingum verði tryggður, m.a. með öflugum gagnabanka á heimasíðum skólanna.

Einnig var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða: Af þessu tilefni samþykkir fræðsluráð að undirbúa verðlaunasam-keppni á árinu 2000 meðal grunnskólanemenda í Reykjavík um bestu heimasíðugerð í tengslum við skólana. Heimasíður skipa á komandi árum æ ríkari sess í öllum samskiptum skólasamfélagsins og er því vel við hæfi að fela yngstu kynslóðinni að opna þessar mikilvægu dyr framtíðarskólans fyrir andblæ nýrrar aldar.

Fræðsluráð lýsir sig sammála viðmiðum um góðan skóla.

Fundi slitið kl. 14.10

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Guðrún Pétursdóttir Eyþór Arnalds