Skóla- og frístundaráð
Ár 2023, 22. maí, var haldinn 253. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15. Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S); Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtalinn áheyrnarfulltrúi var kominn til fundar í fundarherberginu Hofi: Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning og umræða um stöðu innritunar í leikskóla. SFS22090153
Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Halla María Ólafsdóttir og Ásdís Olga Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 13.20 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum.
Kl. 13.26 tekur Albína Hulda Pálsdóttir sæti á fundinum.
Kl. 13.37 tekur Frans Páll Sigurðsson sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Þann 22. maí 2023 hefur 1524 barni verið boðið leikskólapláss, þar af eru 838 börn með nýjar umsóknir, 119 börn með forgangsumsóknir, 366 börn með flutningsumsókn milli borgarrekinna leikskóla og 201 barn með flutningsumsókn frá sjálfstætt starfandi leikskólunum. Mikilvægt er að hafa í huga að fjölmargir þættir hafa áhrif á stöðu innritunar í leikskóla en mikil fjöldi barna er að flytjast til borgarinnar sem hefur áhrif á stöðu biðlista og gerir bæði skipulag og áætlunargerð erfitt fyrir. Á þessum tímapunkti er beðið eftir fjölda plássa hjá sjálfstætt starfandi skólum áður en hægt er að fullyrða um fjölda barna á biðlista.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Enn eina ferðina hefur ekki tekist að stytta biðlista á leikskóla og langt er í land að hægt verði að standa við loforð sem gefin voru rétt fyrir kosningar um að öll börn frá 12 mánaða aldri fengju pláss á leikskóla frá og með septembermánuði í fyrra. Staðan hefur ekki batnað frá í fyrra en nú blasir við að 911 börn eru á biðlista og þar af 615 12-17 mánaða börn og frá 18 mánaða 296 börn. Hér ríkir því enn neyðarástand í leikskólamálum sem þarf að bregðast við strax með því að leita fjölbreyttra lausna eins og við Sjálfstæðismenn höfum margsinnis lagt til. Gerðar eru athugasemdir við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir sundurliðuðum upplýsingum um biðlista eftir leikskólum 24. apríl sl. og ítrekuðum ósk okkar um að fá þær upplýsingar á fundi skóla- og frístundaráðs 8. maí sl. en þessar upplýsingar hafa ekki enn verið lagðar fram og liggja ekki fyrir fundi ráðsins í dag 22. maí 2023. Hér er því gengið á rétt kjörinna fulltrúa til að fá sjálfsagðar upplýsingar til að sinna sínu hlutverki en eftirlitsskyldan er ein ríkasta skylda kjörinna fulltrúa skv. sveitarstjórnarlögum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar gera athugasemdir við það hve stuttu fyrir fund kjörnir fulltrúar fengu aðgang að þeim glærum sem hér voru kynntar. Það að veita kjörnum fullrúum ónægan fyrirvara til undirbúnings er ekki til eftirbreytni. Miðað við stöðu innritunar mun draga mjög úr fjölda barna 18 mánaða og eldri sem bíða eftir leikskólavist í haust. Það sama er ekki hægt að segja um börn á aldrinum 12-17 mánaða, þar sem reiknað er með að fjöldi þeirri muni aukast lítillega. Það er ekki gott að fulltrúar úr röðum meirihlutans hafi gefið loforð um að öllum börnum á þeim aldri yrði tryggt leikskólapláss án þess að það rætist. Margar fjölskyldur sitja eftir sárar og vonsviknar með kjörna fulltrúa. Þetta hefur dregið mjög úr trausti almennings á borgaryfirvöldum. Í þessari kynningu var einnig talað um að veikindadögum hafi fækkað á þeim leikskólum þar sem úrbætur hafa verið gerðar á tækjabúnaði, hljóðvist, loftgæðum o.fl. Þetta sýnir svart á hvítu að fjárfesting í skólabyggingum og þessum grunninnviðum margborgar sig. Það er ekki skynsamlegt að spara sér til ógagns þegar kemur að leikskólum, en núverandi meirihluti stefnir samt á það. Samþykkt var í síðustu fjárhagsáætlun að skera niður tækjapott til leikskóla um 50%.
-
Fram fer kynning og umræða um málefni dagforeldra.
Elísabet Helga Pálmadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn í Reykjavík hefur lagt mikla vinnu í að brúa bilið með fjölbreyttum leiðum og fagnar því að tillögur varðandi styrkingu á dagforeldrakerfinu séu að verða að veruleika. Með þessum tillögum vonast meirihlutinn í Reykjavík til þess að fjölga dagforeldrum í Reykjavík og styrkja stoðir þeirra.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Kynningin um væntanlega tillögugerð meirihlutans varðandi dagforeldrakerfið var um margt upplýsandi og fyrir hana ber að þakka. Staðreyndin er hins vegar sú að dagforeldrum hefur fækkað úr 204 í 86 á tæpum áratug. Árið 2014 voru 689 börn í vistun hjá dagforeldrum, en fóru niður í 371 í fyrra. Í stað þess að fjölga og hlúa að dagforeldrakerfinu og mæta þannig brýnni þörf fyrir dagvistarúrræði hefur Samfylkingin ásamt meðreiðarflokkum sýnt andvaraleysi undanfarin ár gagnvart uppbyggingu þessa kerfis.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi borgarstjórnar 21. mars 2023 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:
Borgarstjórn samþykkir eftirfarandi bráðaaðgerðir í málefnum barna á leikskólaaldri: Í fyrsta lagi að hrint verði í framkvæmd stefnu í málefnum dagforeldra sem reist er á tillögum í skýrslu dags. maí 2018; í öðru lagi að farið verði í samningaviðræður við sjálfstætt starfandi leikskóla um að fjölga leikskólaplássum með ýmsum hætti, svo sem með möguleikum á stækkun á starfsemi þeirra með útibúi leikskólanna og/eða svokölluðum ævintýraborgum/færanlegum kennslustofum á lóðum þeirra leikskóla þar sem því verður við komið. í þriðja lagi að framkomnar tillögur um foreldrastyrk/heimgreiðslur verði samþykktar; í fjórða lagi að farið verði strax í tilraunaverkefni í þeim hverfum þar sem leikskólavandinn er mestur og komið á laggirnar fimm ára deildum í grunnskóla þar sem kennsla fer fram á forsendum leik- og grunnskólans. Öllum aðgerðum samkvæmt ofangreindu verði lokið eigi síðar en 1. september 2023. Til að hrinda aðgerðunum í framkvæmd verður fimm manna aðgerðarhópur settur á laggirnar sem samanstendur m.a. af einum fulltrúa frá fagfélagi dagforeldra og einum fulltrúa frá sjálfstætt starfandi leikskólum. Hinir þrír fulltrúar hópsins skipi einstaklingar innan og utan stjórnkerfisins sem hafa fagþekkingu á sviði áætlanagerðar, samningagerðar, fjármála og leikskólamála. Hópurinn taki til starfa sem fyrst en hann heyrir beint undir skóla- og frístundaráð borgarinnar.
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. MSS22010084
Elísabet Helga Pálmadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að efla, bæta og styrkja umgjörð leikskólastarfs í borginni. Fyrst með fjölbreyttum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks, efla faglegan stuðning og skipulag, tryggja samkeppnisfær laun og skapa umgjörð fyrir fjölskylduvæna vinnustaði. Mannekla er viðvarandi verkefni leikskólans og hefur Reykjavíkurborg lagt mikið upp úr að viðhalda stöðugleika í starfsmannahaldi. Undirbúningsvinna við samningagerð við sjálfstætt starfandi leikskóla er í vinnslu sem og endurskoðun á þeim tillögum dagforeldra sem samþykktar voru í borgarráði 18. ágúst 2022 eru á lokametrunum en þær snúa m.a. að því að hækka niðurgreiðslu vegna þjónustu dagforeldra til þess að fjölga dagforeldrum, styrkja starfsgrundvöll þeirra og lækka útgjöld foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra. Meirihluti skóla- og frístundaráðs mun áfram leggja áherslu á að brúa bilið þrátt fyrir húsnæðisvanda í eldri leikskólum borgarinnar sem hefur hægt tímabundið á aðgerðum til að lækka inntökualdur barna. Uppbyggingin heldur áfram eftir metár í fyrra þar sem um 600 ný pláss urðu til. Stefnir í aðra metfjölgun á næstu 12-16 mánuðum en meirihlutinn leitar allra leiða til að vinna áfram að fjölbreyttum lausnum til að koma til móts við foreldra og leita leiða til að lækka útgjöld barnafjölskyldna samhliða því að þrýsta á lengingu fæðingarorlofs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér sýna meirihlutaflokkarnir Samfylking, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn viðhorf sitt og viljaleysi til að leysa þann mikla vanda sem blasir við í leikskólamálum. Gefin voru innantóm loforð fyrir kosningar um leikskólapláss og mikil neyð skapaðist sl. haust og enn hefur ekki tekist að leysa þann vanda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram tillögur að fjölbreyttum lausnum til að leysa vandann og einu viðbrögð meirihlutans er að vísa þeirri tillögu frá og hafna samvinnu við minnihlutaflokkana um lausn vandans þrátt fyrir að borgarstjórn sé skilgreint sem fjölskipað stjórnvald. Þau rök að nú þegar sé verið að vinna skv. tillögunum stenst ekki skoðun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins er fjórþætt. Sósíalistar telja að liður nr. 1 og nr. 3 um eflingu dagforeldrakerfisins og heimgreiðslur eigi að fá nánari skoðun og komast til framkvæmda sem fyrst til að mæta stöðu barnafjölskyldna sem nú eru í erfiðri stöðu. Fulltrúi Sósíalista áréttar mikilvægi þess að nauðsynlegt er að efla leikskólastig borgarinnar á öllum stigum, hækka þarf laun leikskólastarfsfólks og tryggja góðar starfsaðstæður þannig að allt sé til staðar sem þörf er á. Hagræðingartillögur meirihlutans vegna fjárhagsáætlunargerðar árið 2023 gera ráð fyrir niðurskurði í tækjapotti leikskólanna. Borgaryfirvöld eru þannig ekki að styrkja leikskólaumhverfið eins og svo sannarlega er þörf á. Á meðan borgin vinnur að framtíðarsýn sem ekki gengur að koma á laggirnar, sýn sem snýst um að tryggja börnum á ákveðnum aldri dvöl á leikskóla, verður að mæta barnafjölskyldum á þeim stað sem þau eru. Þannig telja Sósíalistar að heimgreiðslur geti létt á stöðu einhverra foreldra sem eru í slæmri stöðu vegna þess að ekki hefur verið staðið við fyrirheit. Fulltrúar Sósíalista telja ekki að breyta eigi aldri vegna grunnskólainntöku til þess að stytta bið eftir leikskólaplássi. Sósíalistar greiða ekki atkvæði með heildartillögunni þar sem ekki er hægt að styðja alla liði tillögunnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 8. maí 2023, um tillöguna:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki stefnu í málefnum dagforeldra á grundvelli skýrslu dags. í maí 2018 (SFS2018010109) og sú stefna taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2023. Í þessu felst m.a. að borgin útvegi leiguhúsnæði svo að dagforeldrar eigi auðveldara með að starfa tveir saman, niðurgreiðslur til dagforeldra hækki verulega, aðstöðu- og stofnstyrkir verði hækkaðir og aukinn verður faglegur stuðningur við dagforeldra.
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS22120007
Elísabet Helga Pálmadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram efni á fundum skóla- og frístundaráðs, 19. september 2022, 3. október 2022 og 21. nóvember 2022 með það að markmiði að fá umræðu um stöðu dagforeldrakerfisins í Reykjavík. Þessum tilraunum fulltrúanna var tekið fálega af meirihlutanum. Af þeim ástæðum var þessi tillaga sett fram 5. desember 2022. Það er fyrst núna í dag, 22. maí 2023, sem hægt var að ræða ýmis málefni dagforeldrakerfisins. Þessi vinnubrögð meirihlutans eru afar aðfinnsluverð. Óviðunandi er einnig að tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafi verið vísað frá.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. maí 2023, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. febrúar 2023 og bréfi leikskólastjóra Vinagarðs, dags. 9. janúar 2023:
Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. maí 2023, að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til KFUM og KFUK vegna leikskólans Vinagarðs verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að greiða framlag vegna 97 barna með lögheimili í Reykjavík á aldrinum 12 mánaða til sex ára þar af 9 barna á aldrinum 12-18 mánaða í húsnæðinu að Holtavegi 28 í Reykjavík. Þannig yrði heimilt að greiða framlag vegna 88 barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára í stað 86 barna líkt og núgildandi samningur gerir ráð fyrir. Breytingin taki gildi 1. júní 2023. Vegna þessa er sviðsstjóra falið að gera viðauka við núgildandi samning við KFUM og KFUK vegna leikskólans Vinagarðs sem gildi til 31. desember 2023.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23010038
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu mála í Grandaborg, sbr. 28. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. september 2022. SFS22090037
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ástæður þess að Brákarborg var tekin í notkun áður en framkvæmdum var lokið, sbr. 22. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 3. október 2022. SFS22100011
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa starfsfólks í leikskólum og leikskólastjóra um opnun Brákarborgar, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 3. október 2022. SFS22100008
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um leikskólann Sælukot, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2022. MSS22090103
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um innheimtu leikskólagjalda, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars 2023. MSS23030010
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa starfsfólks í leikskólum um námsleyfi í leikskólum, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars 2022. SFS22030245
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. apríl 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um loftgæði við leikskóla, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 20. mars 2023. SFS23030128
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna skorar á borgina að taka mjög fast á málum hvað varðar áhrif slæmra loftgæða á leikskólabörn í borginni. Hvaða áhrif hafa loftgæði á starfsemi leikskóla? Útivera er mikilvægur þáttur í leikskólastarfinu og það hefur neikvæð áhrif á bæði börn og starfsfólk þegar ekki er hægt að vera með útiveru vegna slæmra loftgæða. Hefur verið skoðað að halda miðlægt utan um fjölda daga sem börnum er haldið inni vegna slæmra loftgæða? Væri hægt að skerpa á verklagi, halda miðlægt utan um fjölda daga sem börnum er haldið inni á hverjum leikskóla og birta í ársskýrslum leikskóla og á vefsíðu borgarinnar? Væri hægt að gera upplýsingar aðgengilegri fyrir foreldra um við hvaða mæla er miðað í hverjum leikskóla fyrir sig? Skóla- og frístundasvið og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eru hvött til þess að árétta við leikskólastjóra í borginni hvernig eigi að standa að mati á loftgæðum á hverjum leikskóla fyrir sig.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Til að efla og styðja við nýliðun dagforeldrakerfisins er lagt til að óskað verði eftir því við eignaskrifstofu að skoðaðir verði möguleikar á því að nýta smáhýsi í eigu borgarinnar sem staðið hafa ónotuð á geymslusvæði í nokkur ár. Þessi smáhýsi eru af þeirri stærðargráðu sem gætu nýst vel fyrir dagforeldra og þeim mætti koma fyrir á heppilegum stöðum í borgarlandinu.
Frestað. SFS23050135
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að fulltrúar flokka í minnihluta skóla- og frístundaráðs fái að lágmarki ávallt á einum fundi ráðsins í hverjum mánuði rétt til að taka mál á dagskrá með þeim hætti að aðili, með viðeigandi sérþekkingu, reynslu og eftir atvikum er ekki starfsmaður Reykjavíkurborgar, fái að koma á fund ráðsins til að kynna viðkomandi mál.
Frestað. SFS23050137
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að úttekt verði gerð einu sinni í viku eða oftar eftir því sem þörf þykir yfir nokkra vikna tímabil til þess að kanna næringargildi og fjölbreytni matarins sem er í leik- og grunnskólum borgarinnar. Úttektin verði gerð til að kanna hvort máltíðirnar uppfylli viðmið um næringargildi fyrir börn. Litið verði til mismunandi aldurs barnanna þegar verið er að meta næringarþörf. Jafnframt verði skoðað hvort maturinn sé fjölbreyttur og hvernig vikumatseðlar eru settir upp með tilliti til næringar, fjölbreytni og gæða. Þegar könnunin er gerð verið litið til allra máltíða sem og hressinga. Einnig er lagt til að næringargildi verði könnuð innan sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í Reykjavík. Í niðurstöðum verði tekið fram hvort að skólarnir séu með eigið eldhús og matreiðslu á staðnum eða kaupi mat frá utanaðkomandi fyrirtækjum. Skóla- og frístundasviði verði falið að móta könnunina og aðferðarfræði hennar þannig að hægt verði að fá þessar upplýsingar fram, upplýsingar sem sýna raunverulega mynd af máltíðum og hressingum innan leik- og grunnskóla og hvort að þau uppfylli opinber viðmið um næringargildi og fjölbreytni.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS23050120
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að íslenskuverum verði fjölgað í Reykjavík þannig að eitt slíkt sé í hverju hverfi. Íslenskuver er hugsað fyrir nemendur sem koma ný inn í skólakerfi borgarinnar. Um börn með takmarkaða eða jafnvel enga skólagöngu að baki getur verið að ræða. Einhver börn koma vegna umsókna um alþjóðlega vernd eða sem börn á flótta. Þarna er um ungmenni að ræða sem þurfa á mikilli íslenskukennslu á að halda fyrstu mánuði þeirra hér svo þau dragist ekki aftur úr jafnöldrum. Íslenskuverið sinnir því hlutverki og mikilvægt er að það sé aðgengilegt börnum í öllum hverfum, í nærumhverfi þeirra. Nú starfa fjögur íslenskuver í borginni en nauðsynlegt er að þeim sé fjölgað.
Frestað. SFS23050121
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er það mat miðlægrar stjórnsýslu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar að stjórnendur leikskóla eigi að veita sviðinu upplýsingar um hvernig barn skilgreinir kyn sitt? Fyrirspurnin byggir að hluta til á hvað sé nauðsynleg upplýsingaöflun af hálfu opinberra aðila um persónuleg málefni einstaklinga, sbr. m.a. ákvæði reglugerðar nr. 896/2009 um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla, með síðari breytingum, sbr. sérstaklega 2. ml. 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. reglugerðarinnar.
SFS23050138
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver eru rökin fyrir því að ekki er heimilt að nýta frístundastyrk fyrir sumarfrístund? Búið er að skerða leyfilegan viðverutíma í sumarfrístund niður í 8 viðverutíma, sem hefur áhrif á vinnutíma foreldra, og þar með möguleika þeirra til að standa undir útgjöldum. Sumarnámskeið kosta þar að auki meira en hefðbundnar frístundir á vetrartíma, auk þess sem foreldrar þurfa að sjá um matinn sjálfir. Hvers vegna er ekki hægt að gera foreldrum kleift að nýta frístundastyrk á sumrin, eða að minnsta kosti nýta hann upp í þessi aukaútgjöld?
SFS23050122
Fundi slitið kl. 15:56
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
Sabine Leskopf Sara Björg Sigurðardóttir
Trausti Breiðfjörð Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. maí 2023