Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 249

Skóla- og frístundaráð

Ár 2023, 20. mars, var haldinn 249. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir (P), Helgi Áss Grétarsson (D), Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Trausti Breiðfjörð Magnússon (J). Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Guðný Maja Riba (S). Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjórar; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. mars 2023, um að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Rannveigar Ernudóttur. MSS22060048

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að hefja tilraunaverkefni þar sem fundir skóla- og frístundaráðs verða tileinkaðir málaflokkunum leikskólamál, grunnskóla- og frístundamál og sameiginleg mál. Fundir skóla- og frístundaráðs verða jafnframt færðir á 2. og 4. mánudag í hverjum mánuði. Þegar leikskólamál eru til umfjöllunar er gert ráð fyrir að áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra, starfsfólks í leikskólum og foreldra barna í leikskólum taki sæti. Þegar grunnskóla- og frístundamál eru til umfjöllunar er gert ráð fyrir að áheyrnarfulltrúar skólastjóra, kennara, foreldra barna í grunnskólum, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva og Reykjavíkurráðs ungmenna taki sæti. Þegar sameiginleg mál eru á dagskrá skulu allir áheyrnarfulltrúar taka sæti á fundi. Tilraunaverkefnið standi yfir frá 1. apríl – 31. desember 2023 og að því tímabili loknu skal meta reynsluna og taka ákvörðun um það hvort festa beri fyrirkomulag þetta í sessi til frambúðar.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. SFS23030106

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Pírata þakka fulltrúum minnihlutans, embættismönnum og áheyrnarfulltrúum fyrir samstarfsvilja við að koma að þessum breytingum. Vonast er til að fundir og starf ráðsins verði bæði árangursríkari og skilvirkari með þessum hætti.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tilgang tilraunaverkefnis með breyttu fyrirkomulagi funda skóla- og frístundaráðs en minna á að tiltekin ákvæði laga um leikskóla nr. 90/2008 og laga um grunnskóla nr. 91/2008 kveða á um rétt skólastjórnenda, fulltrúa kennara og foreldra, til að sitja fundi fagnefndar sveitarfélags um leik- og grunnskólamál. Einnig eiga fulltrúar stjórnenda frístundamiðstöðva og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna rétt á að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt samkvæmt samþykktum um ráðið. Af þessu leiðir að fulltrúar þessara hópa geta setið alla fundi ráðsins, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Brýnt er að þetta sé haft í huga við framkvæmd tilraunaverkefnisins.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram fundadagatal skóla- og frístundaráðs 2023, dags. 14. mars 2023, með fyrirvara um breytingar. SFS22060158

    Kl. 13.27 víkur Jón Ingi Gíslason af fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrslan Ytra mat: leikskólinn Sælukot, dags. 27. janúar 2023. SFS22110077

    Anna Greta Ólafsdóttir, Kristín Hildur Ólafsdóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstætt starfandi leikskólar gegna mikilvægu hlutverki í borginni til að auka fjölbreytileika leikskólastarfs. Skýrslan sem hér liggur fyrir geymir hins vegar vísbendingar um fjölda tækifæra til umbóta. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata telja afar mikilvægt að grannt sé fylgst með hvort leikskólinn bætir sig í þeim efnum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir samningu þessarar ytri matsskýrslu á starfsemi sjálfstætt starfandi leikskólans Sælukots. Mikilvægt er að leggja áherslu á að skýrslan veitir yfirlit yfir núverandi stöðu mála. Að þessu sögðu verður vart önnur ályktun dregin en að skýrslan veiti traustan grundvöll fyrir málefnalegri umræðu um núverandi stöðu leikskólans og hvað megi bæta til að styrkja framtíðarhorfur hans. Einnig verður til þess að líta að sjaldgæft er að svona ytri matsskýrsla sé samin um starfsemi leikskóla og því flókið að bera saman útkomu þessarar matsskýrslu við starfsemi annarra leikskóla.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. mars 2023:

    Lagt er til að starfsstöð leikskólans Miðborgar við Njálsgötu 9-11 verði lögð niður og að húsnæðinu verði skilað til fjármála- og áhættustýringarsviðs þegar leikskólinn fer í sumarleyfi og hefji starfsemi í Ævintýraborg við Vörðuskóla haustið 2023 þar til að nýr Miðborgarleikskóli rís. Leikskólinn Miðborg reki Ævintýraborgina undir sínum formerkjum og sé þá búið að manna hluta af henni til að auðvelda inntöku nýrra barna í haust.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt með fyrirvara um umsögn foreldraráðs Miðborgar. Vísað til borgarráðs. SFS23030063

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. mars 2023:

    Lagt er til að leikskólinn Blásalir verði fullgerður sem ungbarnaleikskóli fyrir 12-36 mánaða börn og rekstrarleyfi leikskólans fært í 68 rými. Leikskólinn Rauðaborg taki aftur sitt upprunalega hlutverk sem leikskóli fyrir 3-6 ára börn. Innritun yrði samræmd og samvinna sem nú þegar er til staðar verði efld. Einnig er lagt til að nafni leikskólans Blásala verði breytt í Ungbarnaleikskólinn Blásalir. Rauðaborg muni halda sama nafni en verði sérmerktur sem leikskóli fyrir 3-6 ára börn í Völu skráningarkerfi leikskóla.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt með fyrirvara um umsagnir foreldraráða Blásala og Rauðaborgar. Vísað til borgarráðs. SFS23020082

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata í skóla- og frístundaráði leggur áherslu á að auka hlut yngstu barna á leikskólum borgarinnar. Til þess að það sé hægt er gott að hluti þeirra skóla þar sem pláss eru boðin sérhæfi sig í að taka vel á móti og hlúa að yngstu börnunum. Með þessari breytingu verður komið til móts við það í Árbæ.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2023, ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. mars 2023:

    Lagt er til að leikskólagjöld verði felld niður vegna barna sem ekki sækja leikskóla á eftirfarandi tímabilum: Alla virka daga í dymbilviku (síðustu vikunni fyrir páska) og alla virka daga í öðru hvoru eða báðum vetrarleyfum grunnskóla (samkvæmt samþykktu skóladagatali vegna grunnskóla Reykjavíkurborgar), enda hafi foreldrar sótt um niðurfellingu fyrir tilgreindan umsóknarfrest. Reglum um leikskólaþjónustu verði breytt til samræmis við framangreint.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23020056

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúum Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata finnst mikilvægt að hugað sé að því hvernig leikskólastjórar geti aukið sveigjanleika í starfsemi sinni og mönnun. Þessi tillaga mun hjálpa foreldrum að nýta betur tímann, spara þeim fé og einnig auðvelda stjórnendum að skipuleggja mönnun betur.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að falla frá gjöldum fyrir þau börn sem taka sér frí frá leikskólum í dymbilviku, vetrarfríum grunnskóla og milli jóla og nýárs. Fulltrúi Sósíalista gerir athugasemdir við þau skilyrði að foreldrar verði að taka sér frí alla virku dagana til að fá niðurfellingu leikskólagjalda. Foreldrum hefði einnig átt að vera veittur kostur á niðurfellingu gjalda á þeim dögum sem þau ráða við að taka sér frí á.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2023, um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu ásamt greinargerð og reglum um leikskólaþjónustu með fyrirhuguðum breytingum og núgildandi reglum um leikskólaþjónustu.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. Vísað til borgarráðs. SFS23020056

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 9. febrúar 2023 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2023:

    Lagt er til að Reykjavík taki sér Hafnarfjörð til fyrirmyndar og hefji undirbúning í samráði við foreldra og leikskólasamfélagið við að samræma starfstíma í leikskólum og grunnskólum þannig að skólaárið á þessum tveimur skólastigum verði sambærilegt. Þetta væri gert til að laða fólk til starfa á leikskólum en mikil mannekla hefur ríkt á leikskólum allt frá 2016. Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið til að stíga þetta skref. Markmiðið með þessu er að búa til aðlaðandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum borgarinnar og auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms börnum til heilla. Umfram allt skiptir máli að gera breytingu til að gera starfið meira aðlaðandi án þess að skerða þjónustu. Nauðsynlegt er að styrkja hana frá því sem nú er.

    Greinargerð fylgir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. MSS23020056

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þótt fulltrúi Sósíalista geti tekið undir mikilvægi þess að starfsaðstæður séu samræmdar milli grunn- og leikskóla er samt mikilvægt að úrræði séu til staðar fyrir foreldra á leikskólum í kringum jól, páska og sumar. Foreldrar þurfa gjarnan að vinna á þessum tíma til að geta séð fyrir sér og sínum, og ef engin úrræði eru til staðar fyrir ungabörn þeirra á þessum tíma er ljóst að það bitnar á velferð barnanna, vegna tekjuskerðinga foreldra. Rétt væri að byrja á hinum endanum, þ.e. atvinnurekendum og þrýsta á þá að stytta vinnuvikuna og bæta starfsaðstæður foreldra. Í kjölfarið væri þá orðið tímabært að leikskólar samræmdu starfsaðstæður við grunnskóla.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 6. febrúar 2023:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að koma fyrir loftgæðamæli við þá leikskóla sem standa við eða nærri stofnbrautum í Reykjavík til að tryggja að börn andi ekki að sér heilsuspillandi svifryki þegar svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk.

    Greinargerð fylgir.

    Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. SFS23020045

    Fylgigögn

  11. Fram fer kynning á stöðu innritunar í leikskóla vorið 2023. SFS22090153

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. mars 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands varðandi framkvæmdir og framtíðaráætlanir um leikskólann Hlíð, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. mars 2023. SFS23030036

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. mars 2023, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipulag stoðþjónustu við borgarrekna leikskóla vegna fasteigna, sbr. 20. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 16. janúar 2023. SFS23010089

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. mars 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um fjölda lausra plássa í leikskólum sem má rekja til manneklu, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023. MSS23020057

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2023, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að leik- og grunnskólar í Reykjavík séu ávallt með sín eigin mötuneyti og eldi mat á staðnum. Matur sé ávallt eldaður og fullbúinn í eldhúsum leik- og grunnskóla. Börn séu þar að auki fengin til að taka þátt í undirbúningi, ræktun og matargerð þegar því verði við komið og eigi þannig hluti í matarmenningu skólans. 

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS23030124

    Fylgigögn

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Leikskólinn Sunnuás lokaði í júní 2022 vegna myglu. Núna, níu mánuðum síðar, er ekki fyllilega ljóst hvaða framkvæmdir verða á lóð skólans til að geta hafið leikskólastarfsemi þar á ný. Af þessum ástæðum er eftirfarandi fyrirspurnum beint til skóla- og frístundasviðs: 1) Hvað á að gera á lóð skólans, þ.e. á að bæta við tímabundnu húsnæði þar við og/eða gera við eldra leikskólahúsnæði? 2) Hvenær má ætla að nokkur leikskólastarfsemi geti hafist á ný á lóð skólans? 3) Hvaða aðilar hafa síðan júní 2022 borið ábyrgð annars vegar á viðbrögðum Reykjavíkurborgar við aðstæðum á lóð Sunnuáss og hins vegar hver framtíðarnýting lóðarinnar eigi að vera?

    SFS23030125

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir greinargerð skóla- og frístundasviðs um kosti þess og galla að Reykjavíkurborg styðji dansnám á grunnstigi í Reykjavík, m.a. með tilliti til þeirra fregna sem berast af uppsögnum starfsfólks Listdansskóla Íslands.

    SFS23030126

  19. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:  

    Við hvað er miðað þegar leikskólabörnum er haldið inni vegna loftmengunar? Hver ákveður við hvaða loftgæðamæli á að miða á hverjum leikskóla? Fá foreldrar tilkynningar um það þegar halda þarf börnum inni vegna lélegra loftgæða? Geta börn sem eru sérstaklega viðkvæm t.d. vegna astma verið inni ef loftmengun er mikil en undir viðmiðum? Er haldið utan um hversu oft halda þarf börnum á hverjum leikskóla inni vegna lélegra loftgæða? Ef það er ekki gert nú þegar ætti að byrja á því og birta þessar upplýsingar reglulega. Verklag í þessum efnum virðist vera mjög misjafnt milli leikskóla en mikilvægt er að skýrt samræmt verklag sé viðhaft í þessum efnum enda vitað að loftmengun er sérstaklega hættuleg fyrir börn.

    SFS23030128

Fundi slitið kl. 15:06

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sabine Leskopf

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 20. mars 2023