Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
Ár 2022, mánudaginn 31. október var haldinn 81. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hinu Húsinu og hófst kl. 10:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Birkir Ingibjartsson varamaður fyrir Sabine Leskopf, Friðjón R Friðjónsson, Kjartan Magnússon og Stefán Pálsson.
Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson starfandi sviðsstjóri ÍTR, Signý Leifsdóttir verkefnastjóri hjá menningar-, og ferðamálasviði og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra ÍTR sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á Hinu Húsinu.
Markús H. Guðmundsson forstöðumaður, Ragnheiður Árnadóttir aðstoðarforstöðumaður, Hreiðar Már Árnason deildarstjóri upplýsingamiðstöðvar, Elísabet Pétursdóttir deildarstjóri atvinnumála og forvarna, Ása Hauksdóttir deildarstjóri menningarmála og Ásta Sóley Haraldsdóttir deildarstjóri frístundastarfs fatlaðra sátu fundinn undir þessum lið.
Ráðið þakkar fyrir yfirgripsmikla og góða kynningu á þeirri mikilvægu starfsemi sem á sér stað hjá Hinu húsinu. Ánægjulegt að sjá hvað rödd unga fólksins er sterk í allri starfseminni þar sem sköpun, leikur og tilraunir eru í öndvegi og ungmennin hafa svigrúm til að gera mistök og læra af þeim, sem er mikilvægur hluti af þroskaferli þeirra.
-
Fram fer kynning á framkvæmdum í Sundhöllinni.
Fylgigögn
-
Lögð fram greinargerð ÍBR og ÍTR dags. 5. október um Frístundaakstur á æfingar íþróttafélaga.
Fylgigögn
-
Lagður fram undirskriftalisti dags. 17. október 2022 100 einstaklinga um útiaðstöðu í Nauthólsvík. ITR 221000044.
-
Samþykkt að Sabine Leskopf, Kristinn Jón Ólafsson og Friðjón R Friðjónsson sitji í styrkjahóp ÍTR.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. fundur ráðsins 19. september 2022 liður 12. ITR22100003
Menningar- íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að fallist verði á framkomna hugmynd Fjölnis um lagningu keppnisvallar og uppbyggingu áhorfendaaðstöðu við Egilshöll og leigusamning um þau mannvirki. Ljóst er að umræddar framkvæmdir munu bæta aðstæður til íþróttaiðkunar í Grafarvogi verulega og fullnægja gildandi kröfum KSÍ um leyfisveitingar vegna keppnisvalla. Þá liggur fyrir álit skipulagsstjóra um að þessar hugmyndir gangi upp skipulagslega.
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
Óskað er eftir því að tillaga Sjálfstæðisflokksins um lagningu keppnisvallar Fjölnis og uppbyggingu áhorfendaaðstöðu, sem flutt var á fundi menningar-, íþrótta og tómstundaráðs 19. september sl. verði lögð fram til afgreiðslu sem fyrst, sbr. 7. grein samþykktar ráðsins. Öll nauðsynleg gögn um viðkomandi framkvæmdir liggja fyrir og er brýnt að ráðið taki málið til afgreiðslu sem fyrst í því skyni að það hljóti framgang í vinnu við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023, sem nú er á lokastigi.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. fundur ráðsins 19. september 2022 liður 13. ITR22100004
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að sem fyrst verði ráðist í nauðsynlegt viðhald og endurbætur á íþróttahúsinu á Kjalarnesi. Ráðast þarf í viðgerðir á þaki hússins nú þegar. Þá þarf að skipta um gólfefni og leggja þar parket. Jafnframt þarf að meta fram komnar tillögur um viðbyggingu við íþróttahúsið fyrir áhalda- og tækjageymslu.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Á fundi ráðsins 19. september var lagt fram minnisblað sviðsstjóra með hugmyndum að undirbúningi framkvæmda við íþróttahúsið á Kjalarnesi. Unnið hefur verið á grundvelli þessara tillagna undanfarnar vikur og m.a. búið að leggja til fjármagn í fjárhagsáætlun næsta árs fyrir framkvæmdum við nýtt gólfefni, þakviðgerðir og fleira. Þar sem málið er þegar í góðum farvegi er tillögunni vísað frá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu um nauðsynlegt viðhald og endurbætur á íþróttahúsinu á Kjalarnesi. Mikilvægt er að sem fyrst verði ráðist í umfangsmeiri viðgerðir endurbætur á húsinu en tillögur liggja fyrir um varðandi fjárhagsáætlun komandi árs. Ekki er því hægt að taka undir þá skoðun meirihluta ráðsins að úrbætur varðandi löngu tímabært viðhald hússins, séu í nógu góðum farvegi
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. fundur ráðsins 19. september 2022 liður 14.
Menningar, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir því til borgarráðs að gengið verði til samninga við Knattspyrnufélagið Þrótt, og eftir atvikum Glímufélagið Ármann, um hönnun, fjármögnun, framkvæmd og rekstur á fjölnota íþróttahúsi á svæði félaganna. Staðsetning íþróttahússins verði í samræmi við niðurstöður starfshóps um skipulags- og uppbyggingarmál íþrótta í Laugardal, sem skilaði áliti í febrúar 2018. Húsið verði keppnis- og æfingahús Þróttar og miðstöð starfsemi félagsins en einnig nýtt í þágu innanhúss íþróttagreina Glímufélagsins Ármanns. Jafnframt þjóni húsið íþróttakennslu fyrir skólana í hverfinu. Menningar, íþrótta- og tómstundasviði og umhverfis- og skipulagssviði verði falið að hefja nauðsynlega undirbúningsvinnu vegna málsins, m.a. semja kynningaráætlun fyrir hagsmunaaðila vegna íþróttahússins og hefja deiliskipulagsvinnu vegna þess í góðu samstarfi við Þrótt, Ármann og aðra hagsmunaaðila.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Viljayfirlýsing milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um byggingu þjóðarhallar í Laugardal var undirrituð síðastliðið vor er starfshópur þegar tekinn til starfa um verkefnið sem mun stórbæta aðstöðu félaganna Þróttar og Ármanns, barnanna og grunnskólanna í hverfinu. Um þessar mundir er unnið að tillögum að þjóðarhöll um inniíþróttir í Laugardal. Íþróttafélögin eiga fulltrúa í ráðgjafaráði um uppbyggingu Þjóðarhallar, einnig er vinna í gangi af hálfu ÍTR með félögunum og utanaðkomandi ráðgjöfum varðandi aðstöðu félaganna og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardal og í Voga- og Höfðabyggð. Tillögunni er því vísað frá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar skuli vísa frá tillögu um að gengið verði til samninga við Knattspyrnufélagið Þrótt, og eftir atvikum Glímufélagið Ármann, um hönnun fjármögnun, framkvæmd og rekstur á fjölnota íþróttahúsi á svæði félaganna. Ljóst er að leysa þarf aðstöðuvanda umræddra félaga sem og skólaíþrótta í Laugardal, er sjálfstætt mál, sem borgaryfirvöld þurfa að leggja áherslu á að leysa eftir áralanga vanrækslu.
Fundi slitið kl. 11:55
PDF útgáfa fundargerðar
81. Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 31. október 2022.pdf