Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 123

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 13. desember var haldinn 123. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru:  Skúli Helgason formaður, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir varamaður fyrir  Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Stefán Pálsson. Kristinn Jón Ólafsson og Sabine Leskopf tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti. Jafnframt:  Frímann Ari Ferdinandsson varaáheyrnarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur og Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi Bandalags íslenskra listamanna.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Helga Friðriksdóttir, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð. Andrés B Andreasen tók sæti á fundinum með rafrænum hætti.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgarinnar dags. 12. desember 2024 ásamt tillögum og greinargerð faghóps um styrkveitingar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til menningarmála 2024. Trúnaðarmál fram að úthlutun. MIR24120004. 

     Samþykkt.

    • kl. 09:07 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Styrkir til menningarmála í borginni eru að þessu sinni veittir til 96 verkefna að fjárhæð 110 m. kr. þar af fara 71 milljón til nýrra verkefna og Listhóps Reykjavíkur.  Metfjöldi umsókna barst að þessu sinni eða 225 sem er vísbending um mikla grósku í menningarlífi borgarinnar. Ánægjulegt er að sjá að gott jafnræði er milli listgreina hvað varðar árangurshlutfall umsókna sem liggur á bilinu 37-51% eftir greinum. Ráðið setti í forgang í fyrra að hækka framlög til menningarstyrkja um 45 m. kr. á þremur árum og var annar áfangi samþykktur í síðustu viku í borgarstjórn um 15. m. kr. hækkun styrkjapottsins á næsta ári.  Ráðið einsetur sér að ná fram enn frekari hækkun styrkjapottsins á næsta ári til að renna enn frekari stoðum undir fjölbreytt og framsækið menningarlíf í borginni. Faghópnum sem vann tillögugerðina eru færðar kærar þakkir fyrir góða vinnu og ábendingar sem ráðið mun taka til meðferðar.

     

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga faghóps um styrki á sviði menningarmála ber vitni um glæsilegt og fjölbreytt menningarlíf í borginni. Hún leiðir líka í ljós hversu vanfjármagnaður málaflokkurinn er til að standa undir svo metnaðarfullum verkefnum, auk þess sem brýnt er að fjölga föstum samningum borgarinnar við einstaka aðila, líkt og hópurinn bendir á í umsögn sinni.

     

    Inga María Leifsdóttir sat fundinn undir þessum lið.

  2. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 11. desember 2024 ásamt umsögnum sem borist hafa um áfengisveitingar í íþróttamannvirkjum í tengslum við íþróttaviðburði. MIR24070001

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð óskaði eftir því í sumar að ráðið myndi eiga samráð við hagaðila varðandi umsókn Knattspyrnusambands Íslands um varanlegt leyfi vegna áfengisveitinga á leikjum á Laugardalsvelli.  Ráðið ákvað að senda erindið til umsagnar fjölmargra aðila og hafa nú umsagnir borist frá 7 aðilum, þ.e. Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Embætti landlæknis, IOGT á Íslandi, Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði, Reykjavíkurráði ungmenna, Ungmennafélagi Íslands og Velferðarráði.  Ráðið þakkar þessum aðilum fyrir umsagnirnar og mun taka þær til efnislegrar meðferðar í byrjun nýs árs og skila í kjölfarið umsögn til borgarráðs um málið.

    Fylgigögn

  3. Fram fara kynningar á vetraríþróttum.   MIR24120005

    • Skíðasvæðið í Bláfjöllum
    • Vetrargarður – skíðabrekkur innan borgar
    • Skautahöll í Laugardal

    Magnús Árnason forstöðumaður skíðasvæðanna situr fundinn undir þessum lið.

    • kl. 09:56 víkur Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir af fundi.
  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 9. desember 2024 þar sem fram kemur að á fundi borgarstjórnar 3. desember 2024 hafi verið samþykkt að vísa breytingatillögu V13 til meðferðar menningar- og íþróttasviðs um fjölgun ístíma Skautahallarinnar í Laugaral. FAS24010022.

    Vísað sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs.

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Meirihlutinn þakkar fulltrúa VG fyrir tillöguna og vísar henni til sviðsstjóra með ósk um minnisblað með greiningum á stöðunni varðandi úthlutun tíma í Skautahöllinni og mati á tillögunni.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka tillöguna og hafa komið því á framfæri að skoða verði möguleikann á nýju útisvelli til að leysa þann bráðavanda sem nú er uppi vegna aðstöðuskorts. Hægt væri að koma því upp í samvinnu við einkaaðila til að flýta fyrir.  Staðan er sú að bygging viðbyggingarinnar við Laugardagshöllina sem átti að leysa þennan vanda hefur verið tekin af fjárhagsáætlun og því nauðsynlegt að skoða aðra möguleika.  Vonandi mun þessi skoðun á stöðu mála í forgangsröðun íþróttamannvirkja verða til þess að eitthvað þokast áfram í aðstöðumálum Skautafélags Reykjavíkur en tíminn þarf að leiða það í ljós.“

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svofelld tillaga fulltrúa Samfylkinar, Pírata og Viðreisnar um fyrirkomulag gufubaðsþjónustu í sundlaugum. MIR24120007

    Lagt er til að settur verði á fót spretthópur starfsmanna menningar og íþróttasviðs sem hafi samráð við fulltrúa sundlaugagesta varðandi fyrirkomulag gufubaðsþjónustu í sundlaugum Reykjavíkurborgar. Samráð verði t.d. í formi funda með fulltrúum gesta og framkvæmd viðhorfskönnunar meðal sundlaugagesta. Starfshópurinn skili niðurstöðum með tillögu að útfærslu á fyrirkomulagi gufubaðsþjónustunnar til menningar-,íþrótta- og tómstundaráðs eigi síðar en 21. febrúar 2025.

    Samþykkt.

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nokkur umræða hefur skapast um breytingar á sánuaðstöðu í Breiðholtslaug og Vesturbæjarlaug undanfarnar vikur og mánuði.  Fram hafa komið óskir sundlaugagesta um meira samráð varðandi þessar framkvæmdir og fyrirkomulag þjónustunnar og er sjálfsagt að verða við því. Þess vegna leggur meirihlutinn nú fram tillögu um skipan spretthóps sem beiti sér fyrir samráði við sundlaugagesti um hvernig best verði staðið að fyrirkomulagi sánubaðsþjónustu í sundlaugum borgarinnar með það að markmiði að leita leiða til að koma til móts við mismunandi sjónarmið.  Hópnum er ætlað að starfa næstu 2-3 mánuði og skila tillögum til ráðsins eigi síðar en 21. febrúar á komandi ári.

    Fylgigögn

  6. Lagður fram viðauki við samning Knattspyrnufélagsins Fram og Reykjavíkurborgar frá 17. september 2024.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi viðauka við samning knattspyrnufélagsins Fram og Reykjavíkurborgar. Viðaukinn er efnislega í samræmi við tillögu Sjálfstæðisflokksins sem flutt var í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur 8. desember 2023 en vísað frá af meirihlutanum 26. janúar sl.

    Umræddd tillaga Sjálfstæðisflokksins fól í sér að þegar yrði hafinn undirbúningur að byggingu knatthúss Fram ásamt áhaldahúsi, byggingarframkvæmdir hæfust á árinu 2025 og að húsin yrðu tilbúin til notkunar á árinu 2026. Vinstri meirihlutinn kýs hins vegar að draga lappirnar í málinu en tillaga hans felur í sér að knatthúsið verði ekki tilbúið fyrr en árið 2029. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja því til þess að tímarammi samkomulagsins verði endurskoðaður til að flýta byggingu húsanna í samræmi við framkvæmdaáætlun, sem gerð var í tengslum við áðurnefndan samning árið 2017. Í þeirri áætlun var skýrt kveðið á um að knatthúsið yrði byggt á árunum 2019-2020 og felur fyrirliggjandi viðauki því í sér seinkun um næstum því áratug að umrædd mannvirki Fram verði tekin í notkun. Löngu er orðið tímabært að Reykjavíkurborg standi við samninginn að þessu leyti gagnvart Fram og íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal.

    Gerð er athugasemd við að umræddur viðauki hafi ekki verið kynntur í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði áður en hann var afgreiddur í borgarráði 7. nóvember sl.

     

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar fagna því að niðurstaða sé fengin í áralöngum deilum borgarinnar og Knattspyrnufélagsins Fram um að uppfylla samkomulag beggja aðila um flutning félagsins og uppbyggingu nýrrar íþróttaaðstöðu. Málið hefur dregist úr hömlu og því enn meiri ástæða til að gleðjast yfir að það nái loks í höfn.

     

    Fylgigögn

  7. Lagður fram samningur við Leikfélag Reykjavíkur um rekstur Borgarleikhússins dags. 27. nóvember 2024.  MIR24110014

    Fylgigögn

  8. Lögð fram mannvirkjaskýrsla Sundsambands Íslands um sundíþróttamannvirki – MSS24110150

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 12. desember 2024 varðandi ómannaða opnun íþróttamannvirkja.MIR24120006

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 10. desember 2024 ásamt drögum að samningum við félög og samtök til eins, tveggja og þriggja ára. MIR24030002

    Samþykkt.

     

    Fulltrúa meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hluti styrkja ráðsins til menningar og íþróttamála eru bundnir í samningum við félög og félagasamtök sem ýmist eru til eins, tveggja eða þriggja ára. Þessir samningar skapa viðkomandi félögum aukinn stöðugleika í starfi sínu og eru mikilvæg forsenda þess að hægt sé að stuðla að meiri fyrirsjáanleika í menningarlífi borgarinnar sem borinn er uppi af starfi sjálfstæðra listhópa og félaga.

     

    Fylgigögn

  11. Rætt um opinn fund MÍR 2025.

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið hefur haft til umfjöllunar undanfarna mánuði fjármál íþróttafélaga í borginni og telur að mikil þörf séu á hreinskiptinni umræðu um fjármál og rekstur íþróttafélaga, samspil barna- og ungmennastarfs og afreksstarfs, áhættuþætti í starfinu, áskoranir sem tengjast m.a. rekstri meistaraflokka, álag á foreldra og aðstandendur vegna sjálfboðaliðastarfs og fjármögnunar keppnisferða og búnaðar og hins nýja veruleika sem tengist auknum árangri íslenskra félagsliða í keppnum á erlendum vettvangi. Ráðið hefur því ákveðið að efna til opins fundar um þessi málefni á nýju ári og er stefnt að því að fundurinn verði haldinn föstudaginn 24. janúar næstkomandi.

  12. Lagt fram bréf Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 29. nóvember 2024 varðandi samþykkt íbúaráðs Miðborgar og Hlíða á fundi 28. nóvember 2024 um endurskoðun opnunartíma Sundhallar.  Óskað er eftir að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð taki samþykktina til afgreiðslu. MSS24110182

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar íbúaráði Miðborgar og Hlíða fyrir bókunina og tekur undir þau sjónarmið um mikilvægi sundiðkunar fyrir lýðheilsu sem koma fram í samþykktinni.  Ljóst er að ákvörðun um styttri kvöldopnun sundlauga um helgar um eina klukkustund á laugardags og sunnudagskvöldum er eingöngu tekin í hagræðingarskyni og vegna kröfu borgarráðs um samdrátt í útgjöldum en aðgerðin skilar 20 m. kr. í lægri útgjöldum á hverju ári. Það er hins vegar skýrt að metnaður ráðsins stendur til þess að lengja opnunartímann á ný þegar hagur borgarsjóðs vænkast og er unnið að undirbúningi mismunandi leiða í því sambandi.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 28. ágúst 2024 þar sem vísað er til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs tilllögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingu á opnunartíma í Nauthólsvík MSS24080083

     

    Tillagan er felld með 4 atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Fulltrúi Vinstri grænna sigur hjá,

    Fylgigögn

  14. Lagt fram afrit af svari skrifstofustjóra stjórnsýslu hjá menningar- og íþróttasviði dags. 12. desember 2024 vegna fyrirspurnar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um endurhönnun sundlaugarbakka í Sundhöllinni. MSS24090081

    Fylgigögn

  15. Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir því að fá kynningu í ráðinu svo skjótt sem auðið er á því hvaða áhrif bygging safnskóla á svokölluðum „þríhyrningi“ í Laugardal, sem samþykkt hefur verið í borgarráði, muni hafa fyrir íþróttastarfsemi á svæðinu. Er þar átt við bæði afnot Knattspyrnufélagsins Þróttar af knattspyrnuvöllum og hugmyndir um stækkun Skautahallar.

  16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir því til borgarráðs að ráðist verði í uppgjör milli Reykjavíkurborgar og Íþróttafélagsins Fylkis samkvæmt samkomulagi þessara aðila frá 18. desember 2017. Samkvæmt umræddu samkomulagi var m.a. gert ráð fyrir því að Fylkir gæfi eftir æfingasvæði milli Hraunbæjar og Bæjarháls, sem félagið hafði til afnota um áratugaskeið. Reykjavíkurborg fengi æfingasvæðið til uppbyggingar en 20% af söluverði byggingarréttar á svæðinu, umfram 400 milljónir króna, færu til uppbyggingar og endurbóta á svæði Fylkis.

     

Fundi slitið kl. 11:53

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Sabine Leskopf Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 13.12.2024 - prentvæn útgáfa