Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 113

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 10. maí var haldinn 113. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson. Einnig sat fundinn Ingvar Sverrisson áheyrnarfulltrúi ÍBR. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Inga María Leifsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðsla undir þessum lið er færð í trúnaðarbók menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MIR24050009

  2. Fram fer kynning á Tónhyl. MIR24050001

    Kristján Sturla Bjarnason, Brynjar Ingi Unnsteinsson og Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, stjórnarfólk Tónlistarfélags Árbæjar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 9.54 víkur Ingvar Sverrisson af fundinum.
    -    Kl. 9.55 tekur Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL sæti á fundinum.
    -    Kl. 10.00 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundinum.

  3. Fram fer kynning Listasafns Reykjavíkur á listaverkum í almannarými. MIR24050005

    Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri og Sigurður Trausti Traustason deildarstjóri safneignar sitja fundinn undir þessum lið.

  4. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 7. maí 2024 varðandi breytingu á dómnefnd fyrir Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. MIR24040003

  5. Lagt fram yfirlit yfir tölfræði aðsóknar á sundstaði, Ylströnd, Fjölskyldugarð, Borgarbókasafn, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafn jan – mars 2024. MIR24040018

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tölur um gestafjölda á stofnunum sviðsins á fyrsta ársfjórðungi sýna að aðsókn í sundlaugarnar og Ylströndina jókst talsvert frá fyrra ári, eða um 11%, sömuleiðis jókst aðsókn um 15% í Borgarsögusafn og aðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn jókst verulega eða um rúmlega helming. Lítillega dregur hins vegar úr útlánum Borgarsögusafns og gestafjöldi í Listasafn Reykjavíkur lækkar um 16% frá sama tíma í fyrra.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um fjárhagsáætlun menningar- og íþróttasviðs 2025.  MIR24050007

  7. Lögð fram drög að erindisbréfi dags. 8. maí 2024 um stýrihóp um gjaldskrár þjónustu á vegum menningar- og íþróttasviðs. Samþykkt. MIR24050008.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við stofnun nýs menningar- og íþróttasviðs í upphafi árs 2023 hefur mikil vinna farið í að samræma verkefni sviðanna og einfalda stjórnsýslu þeirra. Aukin tækifæri felast í að einfalda framsetningu og samræma gjaldskrár sviðsins. Markmiðið með vinnunni er m.a. að auka tekjur, gera gjaldskrár aðgengilegri fyrir íbúa og gesti í takt við þjónustustefnu borgarinnar, og betrumbæta þjónustuna með nýju rafrænu borgarkorti.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um opnunartíma Laugardalslaugar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2024. MSS24040085

    Tillagan er felld.  

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Opnunartími sundlauga Reykjavíkurborgar er fyrsta flokks í samanburði við önnur sveitarfélög. Í sjö af átta sundlaugum borgarinnar er opnunartíminn á kvöldin um helgar 1-3 klst. lengri en hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Nýr opnunartími sundlauga um helgar tók gildi í byrjun apríl og verður reynslan metin af þeirri framkvæmd í haust, en opnunartíminn er í sífelldri endurskoðun byggt á gögnum um aðsókn sundlaugagesta. Ekki er tímabært að breyta opnunartímanum þegar einungis rúmur mánuður er liðinn frá innleiðingu breytinganna. Ráðið er að hefja vinnu við endurskoðun og einföldun gjaldskráa sviðsins og er eitt af markmiðum þeirrar vinnu að auka tekjur og svigrúm til að bæta þjónustuna. Þá verður m.a. horft til opnunartíma sundlauga, en mikilvægt er að árétta að sundlaugar Reykjavíkurborgar eru með lengsta opnunartíma á landinu og stenst þjónustan sömuleiðis prýðilega alþjóðlegan samanburð, bæði varðandi gæði og opnunartíma.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um vatnspóstinn í Aðalstræti, sbr. 8. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. apríl 2024.   MIR24040007.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að hafinn verði undirbúningur að endurgerð gamla vatnspóstsins í Aðalstræti með það að markmiði að koma honum í viðunandi horf.  Borgarsögusafni verði falið að leiða þá vinnu, sem feli í sér að láta vinna kostnaðaráætlun og leggja fyrir ráðið tillögu að tímasettri framkvæmdaáætlun.

    Samþykkt.
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vatnspósturinn í Aðalstræti er skemmtilegt tákn um horfna lifnaðarhætti í borginni sem sækir aðdráttarafl sitt ekki síst í nálægð við náttúruöflin, hreint vatn, náttúruböð og upphitaðar almenningssundlaugar. Vatnspósturinn má muna sinn fífil fegurri og er hér samþykkt að hefja undirbúning að endurgerð hans með gerð kostnaðaráætlunar og í kjölfarið tillögu að framkvæmdaáætlun.

     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11.32

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

Kristinn Jón Ólafsson Pawel Bartoszek

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. maí 2024