Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 41

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 14. nóvember var haldinn 41. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.06. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Magnús Davíð Norðdahl, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir og Andrea Helgadóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Unnur Þöll Benediktsdóttir. Fundinn sat einnig Anna Kristinsdóttir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 5. nóvember 2024, um uppfærslu á handbók um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun, 2. útgáfa. MSS23010175

    Sigríður Finnbogadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að út sé komin ný handbók um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun hjá Reykjavíkurborg. Handbókin byggir á handbók sem gefin var út árið 2014, margt hefur breyst á tíu árum og því eðlilegt að uppfæra handbókina. Í handbókinni segir: Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun veitir okkur tæki og tól til að greina stöðuna og taka upplýstar ákvarðanir sem taka mið af stöðu og þörfum ólíkra hópa fólks og bæta þannig þjónustu okkar og nýtingu fjármagns. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að horft verði til þessara þátta þegar ný fjárhagsáætlun verður lögð fram. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt ýmsar þá sparnaðaraðgerðir sem lagðar hafa verið fram og þá sérstaklega þær aðgerðir sem snúa að þjónustu við borgarbúa. Ýmsar sparnaðaraðgerðir hafa komið fram á skóla- og frístundasviði sem skerða þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Í handbókinni segir: Réttlæti felst í því að horfa til þess hvaða áhrif ákvarðanataka kann að hafa á mismunandi hópa og bregðast við ef talið er að ákvörðun sé líkleg til að auka misrétti. Fulltrúa Flokks fólksins telur að börn og barnafjölskyldur vera ákveðinn hópur í samfélaginu sem þarf að hafa í huga við kynjaða fjárhags-og starfsáætlun. Flokkur fólksins vill réttlátari dreifingu fjármuni með tilliti til þarfa borgarbúa.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram svar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis dags. 7. október 2024 við erindi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 30. ágúst sl., um ókyngreind salerni á vinnustöðum og breytingar á reglum nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. MSS22020161

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð harmar sem fyrr úrskurð Félagsmálaráðuneytisins varðandi ókyngreind salerni dags. 11. júlí 2024. Telur ráðið ákaflega mikilvægt að réttindi þeirra sem skilgreina kyn sitt á annan hátt en karl eða kona séu virt í hvívetna, ekki síst með hliðsjón af lögum um kynrænt sjálfræði. Ráðið fól mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar að senda erindi á Félagsmálaráðuneytið þar sem kallað yrði eftir nauðsynlegum breytingum á reglum 581/1995 um húsnæði vinnustaða þannig að umræddar reglur stæðu ekki vegi fyrir ókyngreindum salernum. Í nýlegu svari ráðuneytisins kom fram að heildarendurskoðun reglnanna stæði yfir og tekið yrði tillit til ólíkra sjónarmiða og samráð yrði haft við hagsmunaðila. Með hliðsjón af þessari endurskoðun telur Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð ekki tilefni að svo stöddu til þess að merkja salerni og hverfa þannig frá stefnu um ókyngreind salerni.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst deilan á milli mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og Félagsmálaráðuneytisins um kynlaus salerni alveg með ólíkindum. Sumarið 2019 voru öll salerni fyrir starfsfólk í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar gerð ókyngreind. Samkvæmt athugasemdum frá Vinnueftirliti ríkisins og úrskurði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins nr. 7/2024 frá 11. júlí 2024 koma reglur nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða þó í veg fyrir þessa breytingu. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar sendi erindi á Félagsmálaráðuneytið þar sem kallað er eftir því að þessum reglum verði breytt.Nú hefur borist svar frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu um að það sé verið að endurskoða þessar áðurnefndu reglur um húsnæði vinnustaða og jafnframt að breytingarnar hafi tafist vegna mikilla anna í ráðuneytinu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst í raun svona reglur algjör tímaskekkja og finnst að hver og ein stofnun eða vinnustaður megi ráða því hvort salerni séu ókyngreind eða ekki og þá auðvitað í samráði við starfsfólk.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um opinn fund mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs sem fram fer þann 10. desember 2024. MSS22110179 

  4. Fram fer umræða um fund mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs með samráðsnefndum 28. nóvember nk. MSS23010102 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir gegn mansali, sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 10. október 2024. MSS24030088
    Samþykkt að vísa tillögunni til afgreiðslu borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins fagna tillögu Sjálfstæðisflokksins um skipun stýrihóps til þess að berjast gegn mansali. Mikilvægi þess að berjast gegn mansali verður seint vanmetið. Nýlega vísaði Borgarstjórn til Borgarráðs tillögu í sama málaflokki sem lögð var fram af hálfu Sósíalista. Mikilvægt er að tryggja aðkomu allra þeirra aðila í stjórnkerfi borgarinnar sem hafa snertiflöt í baráttunni gegn mansali, svo sem Velferðarsvið, Heilbrigðiseftirlit og Innkaupa- og framkvæmdaráð. Með hliðsjón af því telja fulltrúar rétt að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins áfram til Borgarráðs til afgreiðslu.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista er ekki sammála mati ráðsins að stofnun stýrihóps skipuðum kjörnum fulltrúum um aðgerðir gegn mansali sé vísað til borgarráðs, þar sem það er gert með vísan til tillögu sósíalista um samstarfsvettvang til höfuðs misnotkunar vinnuafls sem bíður afgreiðslu í borgarráði. Sú tillaga snýst um stofnun vinnuhóps skipuðum starfsfólki borgarinnar sem verkkaupa og starfsfólki stéttarfélaga sem annast réttindagæslu félagsmanna sinna, hópi sem á að vinna saman að því að varpa ljósi á virðiskeðjuna sem borgin er aðili að til þess að uppræta réttindabrot. Hún snýr að því að taka strax til hendinni, á forsendum laga um keðjuábyrgð og gildandi kjarasamninga. Afar mikilvægt er að þeim samstarfsvettvangi sé komið á fót sem fyrst, vinnan liggur fyrir, verkefnið er skýrt og ekkert sem stendur í vegi fyrir því að hefja starfið án meiri tafa og því telur fulltrúi sósíalista að ekki sé til heilla að fjalla um tillögurnar samhliða. Með því er verið að festa í sessi ákveðinn misskilning á eðli tillögu sósíalista. Tillaga um stýrihóp sem skoði leiðir til þess að koma í veg fyrir mansal er að öðru leyti ágæt. Mikil hætta er á því að með þessu sé búið að flækja afgreiðslu, það skapist ruglingur á tilgangi beggja tillagna, og enn meiri tafir á afgreiðslu þeirra. 

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning forvarnarfulltrúa Reykjavíkurborgar. MSS24110068

    Guðrún Halla Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að setja aukinn kraft í forvarnarstarf og heilsueflingu barna og ungmenna með markvissum aðgerðum. Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á þessa aðgerðaáætlun og vonar að þetta verði ekki bara falleg orð á blaði heldur verði ráðist í raunverulegar forvarnaraðgerðir. Hvergi er t.d. hægt að sjá neina tímalínu, hvað er komið í gang og hvað ekki? Hvernig miðar aðgerðum? Áskoranirnar eru margar því rannsóknir sýna að vímuefnaneysla hefur aukist og þá sérstaklega hjá stúlkum og þær eru einnig farnar að nota nikotínpúða í meira mæli. Einnig hefur kvíði og depurð aukist hjá unglingsstúlkum og vilja margir meina að þar sé mikil notkun þeirra á samfélagsmiðlum áhrifavaldur. Ofbeldi er að aukast og hatursorðræða að verða meira áberandi í samfélaginu. Fulltrúi Flokks hefur haft áhyggjur af þessari þessari þróun og hefur ítrekað viðrað þær áhyggjur í mannréttinda- og ofbeldisvarnaráði. Mikilvægi þess að bregðast við þessum vanda sem er knýjandi. Ráðið gæti beitt sér af meiri krafti. Það þarf aðgerðir og þær þarf að mæla til að hægt sé að meta árangur af þeim.

    -    Kl.15.24 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun á skráningarferlum vegna ofbeldis í garð starfsfólks grunnskóla, sbr. 7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 10. október 2024. MSS24090153 
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl.15.30

Magnús Davíð Norðdahl Sabine Leskopf

Þorvaldur Daníelsson Friðjón R. Friðjónsson

Helga Þórðardóttir Andrea Helgadóttir

Unnur Þöll Benediktsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 14. nóvember 2024