Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 25

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2023, fimmtudagur 23. nóvember var haldinn 25. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.05. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Magnús Davíð Norðdahl, Þorvaldur Daníelsson, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Sabine Leskopf, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Andrea Jóhanna Helgadóttir og Helga Þórðardóttir. Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Margrét Kristín Pálsdóttir, Jenný I. Ingudóttir og Linda Dröfn Gunnarsdóttir. Einnig sátu eftirfarandi embættismenn og starfsfólk fundinn: Anna Kristinsdóttir og Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrsla fagsviðs persónuverndar hjá innri endurskoðun, Eftirlitsmyndavélar á vegum Reykjavíkurborgar greining á hlítni við persónuverndarlög, dags. október 2023. IER22110017 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur fram til þessa verið talsmaður þess að eftirlits- og öryggismyndavélar séu settar upp þar sem talin er þörf og ástæða og þá í kjölfar mats sérfræðinga þar að lútandi. Sérstaklega er slíkur búnaður eftirsóknarverður þar sem börn koma saman í námi, starfi eða leik. Þótt myndavélar sem þessar komi ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn hafa þær fælingarmátt og auðvelda að mál séu upplýst. Þannig eru eftirlitsmyndavélar almennt til bóta. Með þeim má einnig sjá hverjir skemma með veggjakroti og gera þá ábyrga fyrir verknaðinum. Ef tækjabúnaður sem þessi og gögn honum tengd eru ekki misnotuð til að hefta frelsi eða frelsistilfinningu einstaklinga á að beita eftirlitsmyndavélum víða. Það hefur auk þess komið fram í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að samkomulagið um öryggismyndavélar samræmist mannréttindastefnunni en einungis ef vel útfærðar og nákvæmar verklagsreglur fylgja því. Öryggis- og eftirlitsmyndavélar eru að verða eðlilegur hlutur í öruggum borgum.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um næstu skref vegna úttektar á stöðu ofbeldisvarnarmála innan Reykjavíkurborgar. MSS22060211

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til umfjöllunar er úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg. Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð samþykkti að láta framkvæma úttektina til að fá heildstæða sýn á stöðu ofbeldisvarna. Í úttektinni eru margar tillögur um úrbætur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð taki þessar tillögur til rækilegrar skoðunar. Tvö verkefni voru sérstaklega tiltekin vegna góðs árangurs en það eru verkefnin Saman gegn ofbeldi og Jafnréttisskólinn. Flokkur fólksins tekur undir með skýrsluhöfundi um að það sé brýnt að efla Jafnréttisskólann og fjölga starfsfólki. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að bregðast við aukinni ofbeldismenningu barna og ungmenna og jafnframt að ráðast í átak vegna aukins vopnaburðar hjá þessum hópi. Skýrsluhöfundur úttektarinnar leggur til að átak verði gert gegn ofbeldismenningu en þar segir: Átak gegn ofbeldismenningu barna með áherslu á aðkomu allra sem málið varðar þ.á m. ríkis, borgar, lögreglu og heilbrigðiskerfisins en síðast en ekki síst barna. Flokkur fólksins hvetur til þess að farið verði í slíkt átak eins fljótt og kostur er.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Úttektin ítrekar að endurskoða þurfi verklagsreglur þegar starfsfólk er grunað um ofbeldi gegn börnum í skóla- og frístundastarfi í samræmi við 3. grein Barnasáttmála. Samkvæmt lögreglu á enginn munur að vera á viðbrögðum hvort sem grunur er um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. SFS fékk sambærilegar ábendingar frá innri endurskoðanda í september 2022. Mikilvægt er að allir verkferlar stuðli að því að mál þar sem grunur leikur á að börn hafi orðið fyrir ofbeldi af hvers kyns tagi gangi eins áreynslulaust fyrir og mögulegt er, og að börnin verði ekki fyrir áreiti á meðan unnið er að lausn slíkra mála. Verkferlar eiga umfram allt að taka mið af því. Sósíalistar sendu tillögur um endurskoðun verkferla til mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs eftir kynningu í janúar 2023 sem var vísað til skóla- og frístundaráðs sem hefur kosið að vísa málinu frá. Stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sjá til þess að hvert og eitt barn njóti allra réttinda Barnasáttmálans. Í samþykkt stendur að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð skal móta stefnu, taka ákvarðanir og gera tillögur til borgarráðs hvað varðar verksvið ráðsins.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á ráðstefnu Nordic Safe Cities, Vaanta Camp sem fram fór dagana 8.- 9. nóvember 2023. MSS21110025 

    Tómas Ingi Adolfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um opinn fund mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs þann 11. desember 2023. MSS22110179 

    Samþykkt að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að hefja undirbúning í samræmi við umræðu fundarins. 

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á verkefninu Regnbogaborgir. MSS21110024

    Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju tillaga mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi. sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 24. ágúst 2023. Jafnfram eru lagðar fram umsagnir Ríkislögreglustjóra dags. 28. september s.l., Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu dags. 20. september s.l. og sameiginleg umsögn skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs dags. 6. nóvember s.l. MSS23060018 
    Frestað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga er nokkurs konar mótsvar eða breytingartillaga við tillögu Flokks fólksins um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og aukið samráð þriggja ráða sem koma hvað mest að þjónustu við börn. Í umsögn við tillögunni var bent á að betra væri að stofna stýrihóp þar sem sætu formenn VEL, SFS og MOR og að þeir njóti ráðgjafar ýmissa fagaðila. Þessi tillaga meirihlutans er því greinilega mótspil við tillögu Flokks fólksins enda gerir hún ráð fyrir víðtækara samráði m.a. að fulltrúar frá hinum ýmsu ríkisstofnunum og öðrum félögum taki sæti í samstarfshópnum. Kostir og gallar eru við svo stóran samráðshóp það gæti t.d. reynst erfitt að finna fundartíma sem hentar öllum. Þó samstillt átak sé mikilvægt þá telur fulltrúi Flokks fólksins að það hefði skilað meiri skilvirkni ef vinnan einskorðast við kerfi innan borgarinnar og með þéttu samráði við hagsmunasamtök. Fyrst og fremst þarf að samþætta verkefni sem nú þegar eru innan borgarinnar og rýna gagnsemi og mæla árangur þeirra. Mikilvægt er að nálgast ofbeldi barna og ungmenna út frá hagsmunum barna og þeim skyldum sem felast í lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því miður hefur borgin ekki lögfest sáttmálann sem er mjög miður.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um ástæður þess að kosningaþátttaka í Hverfið mitt hefur dalað mikið milli ára. Árið 2021 var hún 16.4 % en er nú 12%. Áberandi lægst er útkoman í Breiðholti, Vesturbæ og Miðbæ. Er vitað til þess af hverju þátttaka er svo dræm í þetta lýðræðisverkefni? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að þetta verði skoðað með tilliti til framtíðar. Hverfið mitt er dýrt verkefni í meðferð borgarinnar, það krefst auglýsinga og mannafla. Nokkrar vangaveltur hafa einnig verið um lýðræðisþáttinn þegar kemur að því hvaða verkefni sem er ofarlega á lista eru framkvæmdar og hvernig endanleg útfærsla er. Skemmst er að minnast á Vulgar stigann í efra Breiðholti sem fór fyrir brjóstið á fjölda manns. MSS23110145

  8. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um starfsemi Bjarkarhlíðar. Hvort hún er í samræmi við upphaflegt markmið? Hvort markmið og tilgangur hafi breyst í áranna rás og ef svo er þá hvernig? Hefur verið gerð greining eða skoðun á fyrirtækinu nýlega, s.s. hversu margir sækja þjónustu í Bjarkarhlíð og þá hvernig? Hvar er mesta þörfin að mati forráðamanna? Er málum fylgt eftir með þolendum sem leita til Bjarkarhlíðar eins lengi og þeir telja þörf? Bjarkarhlíð tók formlega til starfa 1. febrúar 2017. Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Dómsmálaráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Á vefsíðu kemur fram að Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis. Bjarkarhlíð býður áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum, 18 ára og eldri. MSS23110146

    -    Kl. 14.19 víkur Helga Margrét Marzellíusardóttir af fundinum og Friðjón R. Friðjónsson tekur sæti. 

    -    Kl. 15.40 víkur Linda Dröfn Gunnarsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið kl.15.50

Magnús Davíð Norðdahl Unnur Þöll Benediktsdóttir

Þorvaldur Daníelsson Sabine Leskopf

Helga Þórðardóttir Friðjón R. Friðjónsson

Andrea Helgadóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð 23.11.2023 - prentvæn útgáfa