Íbúaráð Laugardals - Fundur nr. 47

Íbúaráð Laugardals

Ár 2024, mánudagurinn, 29. maí, var haldinn 47. fundur íbúaráðs Laugardals. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12 -14, Hofi  og hófst kl. 16.37. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Atli Stefán Yngvason, Birna Hafstein, Grétar Már Axelsson og Lilja Sigrún Jónsdóttir. Fundinn sat eftirfarandi starfsfólk: Kristinn Jakob Reimarsson og Arna Hrönn Aradóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram umsagnarbeiðni skóla- og frístundasviðs dags. 15. maí 2024, vegna tillögu um mótun skóla- og frístundastarfs í Laugardal til framtíðar. SFS24050075 

    Íbúaráð Laugardals leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Laugardals óskar eftir lengri tímafrest en 31. maí 2024, vegna umsagnar okkar vegna skólamála Laugardals. Íbúaráð Laugardals minnir á að sviðsmynd 1 hefur verið samþykkt áður á okkar vettvangi.

    Fulltrúi foreldrafélaga leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi foreldrafélaga í íbúaráði Laugardals vill fyrir hönd stjórna foreldrafélaga Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla koma því á framfæri að við áteljum stjórnsýslu borgarinnar og virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart íbúalýðræði. Skóla- og frístundaráð og fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn hyggjast nú ganga gegn öllu samráði sem m.a. byggði á endurteknum umsögnum sem unnar voru m.a. af skólastjórnendum, starfsmönnum, og börnum í Laugardal. Til stuðnings breyttri afstöðu hefur borgaryfirvöldum mistekist hrapallega að sýna fram á breyttar forsendur og sundurlaus rök um erfiðar framkvæmdir og rask sannfæra engan. Stefnan felur í sér að skólastarf í Laugardal beri hallann af dugleysi við viðhald og stækkun innviða með þéttingu byggðar. Í forsendum borgaryfirvalda er heldur ekki fjallað um neikvæð áhrif þess að börn þurfi að ganga í allt að 27 mínútur að skóla, gengið verði á græn svæði í Laugardal eða áhrif aukinnar bílaumferðar um hverfið. Áleitnum spurningum varðandi spár um fjölda nemenda er ósvarað og við teljum verulegar líkur á því að stækka þyrfti Langholtsskóla, jafnvel þótt unglingadeildin yrði flutt í safnskóla. Afleiðing af þessu er jafnframt að Laugarneshverfi verður klofið í tvær félagseiningar með uppbroti skólahverfa í tvo litla skóla fyrir 1-7.bekk - stefna sem setur vík á milli vina. Við erum hrygg að sjá samráði og hverfisþekkingu hent frá borði eins og einskisnýtri tusku. Við krefjumst þess að þeim verðmætum, sem felast í farsælli menningu skólanna okkar og mannauði þeirra, verði mætt af virðingu og íbúalýðræði verði virt við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu skólanna í Laugardal. Við krefjumst þess að framtíðaruppbygging verði á grundvelli farsælu skólanna og hverfisins samkvæmt Sviðsmynd 1 og að þegar verði hafist handa við endurbætur og stækkun skólahúsnæðis skólanna í Laugardal.

    Helgi Grímsson, Soffía Pálsdóttir, Ámundi V. Brynjólfsson, Hannes Frímann Sigurðsson, Dagur Bollason og Árelía Eydís Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18.50

Atli Stefán Yngvason Birna Hafstein

Grétar Már Axelsson Lilja Sigrún Jónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 29. maí 2024