Heilbrigðisnefnd - Fundur nr. 144

Heilbrigðisnefnd

Ár 2023, fimmtudaginn 9. nóvember kl. 11:08, var haldinn 144. fundur heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birna Hafstein, Hjálmar Sveinsson, Sandra Hlíf Ocares og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, Ólafur Jónsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Tómas G. Gíslason, Rósa Magnúsdóttir, Guðjón Ingi Eggertsson, Svana Svanborg Steinarsdóttir, Hólmfríður Frostadóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Snædís Karlsdóttir Bergmann.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram fundadagatal heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir árið 2024. HER23010001

    Fylgigögn

  2. Lögð fram skýrsla starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Starfshópurinn, sem var skipaður af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráði við matvælaráðherra með erindisbréfi, dags. 18. október 2022, hafði það verkefni að leggja til nýtt fyrirkomulag að opinberu eftirliti og leggur til að það flytjist alfarið frá sveitarfélögum til ríkisins. Einnig er lagt fram minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum, dags. 6. nóvember 2023. HER23010001

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Pírata í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við niðurstöðu starfshóps um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits. Við teljum hana byggða á veikum grunni. Okkur finnst skorta skilning á hlutverki heilbrigðiseftirlita sem og laganna sem starfsemi þeirra byggir á. Í tillögunni felst að allt eftirlit verði flutt til ríkisins og þá um leið fjær því nærsamfélagi sem heilbrigðiseftirlitin sinna. Við teljum það óráð. Svo virðist sem samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafi verið mjög ábótavant við gerð skýrslunnar. Það er miður. Við teljum að nauðsynlegt sé að ráðast í nákvæmari hagsmunagreiningu á verkefninu með mati á kostum og göllum, ásamt kostnaðargreiningu, áður en viðamiklar og kostnaðarsamar breytingar verði lagðar til. Við leggjum til að gripið verði til aðgerða til að bæta rafræna stjórnsýslu og starfsleyfisútgáfu. Einnig þarf að samræma betur leyfisskilyrði og eftirlit með því að virkja betur þau úrræði sem eru skilgreind í lögum sem hlutverk Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar. Þau hafa verið vannýtt af hálfu ríkisins. Fulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Pírata taka undir minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og vísar því til borgarráðs og borgarstjórnar Reykjavíkur til upplýsingar.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að samtal og samvinna sé höfð að fyrirrúmi þegar unnið verður áfram að breytingu á skipulagi heilbrigðiseftirlita á landinu. Mikilvægt er að vanda til verka og tryggja að lagarammi og reglur séu uppfærðar samhliða. 

    Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Atvinnulífið er jákvætt fyrir niðurstöðu skýrslu starfshóps um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits, þar sem samræming eftirlits á landsvísu er lykilatriði. Öll útfærsla málsins er eftir og tekur sú vinna nú við. Mikilvægt er að atvinnulífið hafi aðkomu að þeirri vinnu.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar, dags. 31. maí 2022 um endurskoðun á skilgreiningu síður viðkvæms viðtaka ásamt bréfi Skrifstofu borgarstjórnar, dags. 31. ágúst 2023, þar sem erindi Umhverfisstofnunar er sent Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til meðferðar. Einnig er lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 31. ágúst 2023 um endurnýjun skilgreiningar á viðtaka fráveitu Veitna ohf. í Faxaflóa, bréf Veitna, dags. 15. september 2023 um yfirlit yfir fyrirliggjandi gögn varðandi viðtaka skólps úr Skerjafjarðar- og Sundaveitum og tillaga Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að endurnýjun á skilgreiningu Faxaflóa sem síður viðkvæms viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík og nágrenni, dags. 6. nóvember 2023. HER23010001

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsagnarbeiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, dags. 20. september 2023, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 4. október 2023 HER23010001

    Fylgigögn

  5. Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar um kynningu matsáætlunar á umhverfisáhrifum vegna Sundabrautar, dags. 19. september 2023 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. október 2023. Einnig er lögð fram matsáætlun um Sundabraut, dags. 15. september 2023. HER23010001

    Fylgigögn

  6. Lögð fram umsagnarbeiðni Reykjavíkurborgar um aðalskipulagsbreytingu og umhverfismat Sundabrautar. Verklýsing til kynningar, dags. 21. september 2023 ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. október 2023. Einnig er lögð fram verkefnalýsing skipulagsgerðar og umhverfismats, dags. september 2023. HER23010001

    Fylgigögn

  7. Lögð fram umsagnarbeiðni nefnda- og greiningasviðs Alþingis, dags. 29. september 2023 um frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um frumvarp til laga um tóbaksvarnir, dags. 12. október 2023. HER23010001

    Fylgigögn

  8. Samþykkt að taka umræðu um geymslu á úrgangi á Sævarhöfða 6-10 á dagskrá. HER23010001

  9. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 10. október 2023, 11. október 2023, 13. október 2023, 17. október 2023, 19. október 2023, 24. október 2023, 30. október 2023 og 2. nóvember 2023. HER21120009

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:33

Aðalsteinn Haukur Sverrisson Birna Hafstein

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir Ólafur Hvanndal Jónsson

Sandra Hlíf Ocares

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð heilbrigðisnefndar 9. nóvember 2023