Borgarstjórn - Borgarstjórn 23.1.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 23. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf og Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um þjóðarhöll. MSS22080037

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er afar mikið fagnaðarefni að þjóðarhöll skuli verða að veruleika. Með henni er allt í senn komið til móts við þarfir barna og ungmenna í Laugardal, landsliða og annars keppnisfólks og mun lyfta verulega upp öllu íþróttastarfi. Um er að ræða mikilvæga uppbyggingu til framtíðar sem jafnframt eykur samkeppnishæfni Reykjavíkur á alþjóðavísu. Skýr ákvæði varðandi skiptingu æfingatíma munu tryggja stöðugleika í íþróttastarfi fyrir börn og ungmenni í hverfinu.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að náðst hafi löngu tímabærir samningar um uppbyggingu þjóðarhallar í Reykjavík. Fulltrúarnir lýsa þó áhyggjum af því hvernig Reykjavíkurborg hyggst greiða sinn hluta samkomulagsins í ljósi þess hvernig fjárhag borgarinnar er fyrir komið. Jafnframt leggja fulltrúarnir ríka áherslu á að aðstöðumál Þróttar og Ármanns verði leyst farsællega, sem og íþróttaaðstöðumál grunnskólanna í Laugardal.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður að byggð verði þjóðarhöll enda er þörf á slíku mannvirki. Ekki er þó fram hjá því litið að áhyggjur eru af nýtingu þjóðarhallar og Laugardalshallar í framtíðinni. Ekki hefur verið sýnt fram á að aðstöðumál Þróttar og Ármanns verði leyst farsællega sem og íþróttaaðstöðumál grunnskólanna í Laugardal. Liðin og skólarnir hafa ekki aðstöðu sem hægt er að ganga að vísri heldur eru þau víkjandi notendur húsanna sem er óásættanlegt fyrir samfélagið í Laugardal. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að foreldrar og börn fái rödd í þessu máli. Það mun verða þeim mikið áfall ef sérsambönd og útleiga verða í forgangi í aðstöðunni en börnin í Laugardal sett aftar og jafnvel aftast í forgangsröðuninni. Búið er að lofa ítrekað að aðstaðan fyrir íþróttafélög og skólana í Laugardal verði færð í ásættanlegt horf til framtíðar. Íþróttafélögin og foreldrar hafa aðeins fengið stutt samtal við undirnefnd framkvæmdanefndarinnar (líklega kölluð ráðgjafanefnd í svarinu). Forsvarsfólk íþróttafélaganna virðist vera úti í kuldanum í þessari vinnu þótt öðru sé haldið fram. Kalla þarf fram viðhorf íbúa, foreldra og barnanna í Laugardal áður en lengra er haldið í skipulagningu á notkun hallarinnar. Íbúaráð Laugardals hefur bókað um áhyggjur sínar.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna fagnar því að málefni þjóðarhallar séu loksins komin á rekspöl undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Með þeirri áætlun sem nú hefur verið samþykkt er í fyrsta sinn viðurkennt að ríkið skuli bera ábyrgð á að sjá landsliðum Íslands fyrir æfingartímum. Það er einnig jákvætt að við útreikninga á rekstrarforsendum hússins sé fyrst og fremst horft til mikillar og stöðugrar nýtingar þess fyrir skólakennslu og almennt íþróttastarf barna og ungmenna í stað óljósra loftkastala um sértekjur vegna sýninga- og veisluhalda. Íþróttastarf barna og unglinga á að vera í brennidepli Reykjavíkurborgar og yfirvöld eiga að leggja sig öll fram um það að enginn þurfi að hverfa frá því sem raunhæft má telja að viðkomandi gæti haft gagn og gleði af vegna fátæktar, fötlunar eða annars.

    -    kl. 12:43 víkur Helgi Áss Grétarsson af fundinum og Hildur Björnsdóttir tekur þar sæti.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að hafinn verði undirbúningur rekstrarútboðs sorphirðu í Reykjavík.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24010169

    -    Kl. 15:00 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur þar sæti.

    Samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að málið fái frekari skoðun innan borgarráðs en telja þó að betur hefði farið á því að taka pólitíska afstöðu til útvistunar sorphirðu á vettvangi borgarstjórnar strax í dag. Nýtt flokkunarkerfi sorphirðu var innleitt á síðastliðnu ári og hefur sorphirða í Reykjavík gengið brösuglega í kjölfarið. Sorphirða hefur víða verið fleiri vikum á eftir áætlun og losun grenndargáma verið illa sinnt. Sorphirða er boðin út í öllum nágrannasveitarfélögum og hefur innleiðing nýs kerfis gengið töluvert betur á öllu höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Jafnframt hefur komið í ljós að gjaldskrár sorphirðu eru töluvert hagstæðari fyrir íbúa í nágrannasveitarfélögum heldur en í Reykjavík þar sem sorphirðugjöld eru langhæst. Þá minna fulltrúarnir á tillögu sína sem lögð var fram í borgarráði síðastliðið haust, þess efnis að borgin endurgreiddi borgarbúum hluta sorphirðugjalda vegna þjónustudráttar, en tillagan var felld af meirihlutanum.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skilvirk og hagkvæm sorphirða er eitt af kjarnaverkefnum Reykjavíkurborgar. Reykjavík kemur afar vel út í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að verði og gæðum þjónustu. Ávallt þarf að hafa vakandi auga fyrir bættum rekstri og bættri þjónustu og því er sjálfsagt mál að vísa tillögunni til borgarráðs til meðferðar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar greiða atkvæði gegn því að vísa tillögunni til borgarráðs til frekari meðferðar enda standa Sósíalistar gegn því að útvista kjarnaverkefnum borgarinnar. Ef nokkur sparnaður fæst af slíkri útvistun er hann fenginn úr launaumslagi verkafólks, verri þjónustu, eða hvoru tveggja.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú tillaga sem hér er lögð fram er í takt við tillögu Flokks fólksins sem lögð hefur verið fram í tvígang. Flokkur fólksins lagði til að boðin yrði út sorphirða í einu póstnúmeri innan Reykjavíkur ásamt því að kanna hagkvæmni á útboði vegna þjónustu við djúpgáma. Sjálfsagt væri að byrja aðeins á einu póstnúmer til að sjá hvernig útkoman er, kosti og ókosti þess að verkið sé í höndum annarra en hins opinbera. Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og hefur það reynst vel. Gjaldskrár sorphirðu í Reykjavík eru langhæstar. Gjaldskrár eru t.d. 45% hærri í Reykjavík en Kópavogi. Það er ekki ásættanlegt. Ekki hefur verið kannað hvort hagkvæmara er að bjóða út einstök verk eða verkefni eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert. Þetta gagnrýnir fulltrúi Flokks fólksins. Það er skylda sveitarfélags að fara vel með fjármagn, útsvar borgarbúa, og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Einkavæðing hirðunnar í Reykjavík er síður en svo töfralausnin sem bætir þjónustustig og lækkar um leið gjöldin. Það er skoðun borgarfulltrúa Vinstri grænna að Reykjavíkurborg eigi áfram að þjónusta heimili, stofnanir og fyrirtæki í borginni. Hins vegar mætti hugsa sér að í náinni framtíð gæti höfuðborgarsvæðið sameinast um að færa alla hirðu til SORPU bs. Því næst væri það rökrétt skref að skoða sameiningu við suðvesturlandið um meðhöndlun úrgangs og samnýta innviði og úrræði sem sveitarfélögin á þessu svæði hafa yfir um að ráða. Í framhaldinu mætti gera áætlanir um stórfellda fjárfestingu í innviðauppbyggingu í úrgangsstjórnun svo innleiðing hringrásarhagkerfisins gangi hratt og örugglega fyrir sig.

    Fylgigögn

  3. Umræðu um Kvosina og Austurstræti sem heildstætt göngusvæði er frestað. USK23020228

  4. Fram fer umræða um vaxandi fátækt og ójöfnuð í Reykjavík. MSS24010170

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins var stofnaður til að að berjast gegn fátækt. Það er bláköld staðreynd að fátækt og ójöfnuður hefur aukist í Reykjavík á vakt þessa og síðasta meirihluta. Erfiðara er að ná endum saman og eru leigjendur í hópi þeirra verst settu. Færri áttu fyrir jólunum nú en áður. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Fátækt bitnar mest á börnum og viðkvæmum hópum. Þó við sjáum ekki börn betlandi á götuhornum fyrir mat er talið að mörg þúsund börn í Reykjavík búi við fátækt og bætist hratt í hópinn. Aðeins brot af þeim fjölskyldum sem búa fátækt eru á fjárhagsaðstoð. Farið er fram á að meirihlutinn í borgarstjórn kynni aðgerðir til að spyrna megi fótum við þessari neikvæðu þróun á lífskjörum stækkandi hóps. Flokkur fólksins skorar á meirihlutann og nýjan borgarstjóra að marka skýrari stefnu og gera raunhæfa áætlun um að uppræta fátækt í Reykjavík. Ganga þarf í þetta verkefni af meiri skörungsskap en gert hefur verið fram til þessa. Fátækt er brot á mannréttindum barna. Fátækt rænir börn tækifærum, vonum og draumum. Fátækt mismunar börnum um lífsins gæði, heilsu og menntun. Barn sem elst upp við fátækt er jafnframt líklegra til að búa við fátækt sem fullorðinn einstaklingur.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn samþykkir að vinna gegn útvistun opinberra starfa hjá borginni og fyrirtækjum í eigu hennar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24010171

    Tillagan er felld með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Sósíalistaflokks um að vinna gegn útvistun opinberra starfa hjá borginni og fyrirtækjum í eigu hennar er felld þar sem núverandi fyrirkomulag virkar vel og ekki er talin þörf á stefnubreytingu enda ekki fjallað um slíkt í núverandi meirihlutasamkomulagi. Ávallt er kannað hvað er fjárhagslega og verkefnalega hagstætt innan Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar. Í sumum tilfellum er hagkvæmara og skilvirkara að bjóða verkefnin út en öðrum ekki. Það veltur á eðli, umfangi og tímaramma verkefna hverju sinni. Að mati meirihlutans væru mistök að festa sig í því að önnur hvor aðferðin sé í öllum tilfellum æskilegri.

    Borgarfulltrúi Flokks flokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú tillaga sem hér er lögð fram af Sósíalistaflokki Íslands snýst um að vinna gegn útvistun starfa. Flokkur fólksins telur að útvistun sé ekki góður kostur þegar kemur að beinni þjónustu við fólkið. Sum störf hentar að bjóða út en önnur ekki og sérstaklega þarf að skoða hvort útvistun sé góður kostur þegar um er að ræða þjónustu við viðkvæma hópa. Nefna á í þessu sambandi rekstur Strætó. Ekki er víst að útboðsleiðin henti þeirri tegund þjónustu. Hætta er á að þjónusta versni. Skerðingar á þjónustu Strætó gætu orðið enn meiri væri reksturinn boðinn út. Ef horft er til reynslu er hætta á lækkun launa og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Ef reksturinn verður boðinn út er útilokað að borgin hafi þann kost að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Enginn býður í rekstur nema hann eða hún ætli að græða á honum. Á hinn bóginn gæti sorphirða verðið þjónusta sem hentar vel til útboðs. Hvort útvista eigi verkefnum eða störfum hlýtur ávallt að þurfa að meta hverju sinni og horfa þá á hagkvæmni og hvers lags þjónustu um er að ræða, lögbundna eða aðra.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna tekur undir þau markmið sem fram koma í tillögu Sósíalistaflokksins um útvistun starfa. Útvistun er yfirleitt réttlætt með vísun til sparnaðarsjónarmiða en reynslan sýnir að í mörgum tilvikum leiðir hún einungis til þess að auðga milliliði og rýra þjónustu, m.a. með því að skerða stofnanaminni og færa ábyrgðina á framkvæmd þjónustunnar fjær notendum hennar.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Lagt til að borgarstjórn samþykki að haldin verði samkeppni um minnisvarða um #MeToo, fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis, áreitni og nauðgana, sem komið verði fyrir í landi Reykjavíkur. MSS24010173

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með því að ávarpa kynferðislegt ofbeldi í opinberum rýmum erum við að krefjast þess af þeim sem eiga leið hjá og virða fyrir sér verk eða minnisvarða að velta fyrir sér því kerfislega kynferðisofbeldi sem á sér stað í samfélaginu okkar. Þannig getur hafist gagnrýnið samtal um þá normalíseringu sem fyrirfinnst á kynferðislegu ofbeldi, nauðgunum og áreitni í samtímanum. Í gegnum söguna hefur þetta sífellt verið þaggað niður og enn finnum við fyrir þögguninni í dag. Allt í kringum okkur, bæði hér heima og erlendis, eru styttur af merkilegum körlum. Hundruð þúsunda minnisvarða víða um heim eru tileinkuð körlum sem hafa lagt eitthvað til mannkynssögunnar. Sjaldan er konu eða konum og veruleika þeirra lyft upp í almannarýminu. Reynsluheimur kvenna hefur lengi verið ósýnilegur og enn eru öfl allt í kringum okkur sem vilja halda því þannig. Með því að búa til minnisvarða, listaverk eða minnisrými tileinkað þolendum kynferðislegs ofbeldis sendir Reykjavík skýr skilaboð: Reykjavíkurborg líður ekki kynferðislegt ofbeldi og áreitni og stendur með öllum þeim sem hafa þurft að þola það. Sterkast hefði verið að samþykkja tillögu Vinstri grænna í borgarstjórn frekar en að vísa henni til fagráðs þar sem afdrif hennar verða óljós.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kynbundið ofbeldi og áreitni er samfélagsmein sem mikilvægt er að vinna gegn með markvissum hætti. Meirihluti borgarstjórnar tekur það verkefni alvarlega og mun gera áfram. Sú hugmynd að reisa minnisvarða til að minnast samstöðu kvenna gegn ofbeldi er góðra gjalda verð og því er samþykkt að senda hana til afgreiðslu í mannréttinda- ofbeldisvarnarráði þar sem kallað verður eftir umsögnum og samráði við hagsmunaaðila.

    Fylgigögn

  7. Umræðu um álit innviðaráðuneytisins varðandi rétt borgarfulltrúa til að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnar er frestað. MSS23010066

  8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 11. janúar. MSS24010001

    20. liður fundargerðarinnar frá 11. janúar; viðauki við fjárhagsáætlun, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS23010019

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. og 28. lið fundargerðarinnar:

    21. liður: Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur aftur séð þörf á að senda borgarráði brýningu og viðvörun. Í bréfinu eru talin upp þrjú atriði í fjármálum A-hluta á árinu 2022 þar sem staðan er metin óásættanleg. Framlegð; veltufé frá rekstri og rekstrarniðurstaða er allt neikvætt. Reksturinn skilar minna en engu fjármagni til að greiða afborgarnir lána og standa undir fjárfestingum. Með slíkum rekstri er ekki hægt að halda uppi þjónustu sem gjaldendur næstu áratuga munu þurfa að greiða. 28. liður: Skýrsla innri endurskoðunar um umfang vinnu vegna stafrænna kennslulausna í skólastarfi er lögð fram. Stafræn mál skóla- og frístundasviðs eru í ólestri. Í ljósi þess að um 20 milljarðar hefur farið til þjónustu- og nýsköpunarsviðs á fáum árum er alvarlegt að svið eins og skóla- og frístundasvið skuli hafa verið skilið eftir út í kuldanum. Í minnisblaði frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs segir að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri á þessu ábyrgð enda upplýsingatækni og gagnastjórnun ásamt tæknilegum umbótum og þjónustu á því sviði. Sama tón má lesa úr bréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem er á þá leið að borgin sé einangruð í stafrænni vegferð sinni og að önnur sveitarfélög og Reykjavík nái ekki að vinna nógu skilvirkt saman.

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 19. janúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 11. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. og 12. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar, umhverfis- og skipulagsráð frá 10. og 17. janúar og velferðarráðs frá 17. janúar. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. janúar:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skóla- og frístundasvið ætlar að bregðast við nýjustu niðurstöðum PISA. Í svari kemur að mestu það sama fram og heyrst hefur árum saman frá skóla og frístundasviði:  „Fá fólk til að greina og meta og koma með tillögur til framtíðar“. Þetta svar segir nákvæmlega ekki neitt. Það er upplifun Flokks fólksins að skóla- og frístundasvið sé ekki að taka þessi mál alvarlega. Allt of mikið kraðak hefur ríkt í þessum málum árum saman. Vissulega þarf að rýna en ekki láta síðan þar við sitja. Vandinn er margþættur en á rætur að rekja til þess að það skortir miðlæga stýringu og samræmt mat á lestrarkennslu. Þessi mál eru stefnulaus, þau skortir pólitíska ákvörðun sem leiðir til þess að hver og einn skóli er að reyna að fóta sig sem best hann getur með því að gera sitt lítið af hverju, hljóðaaðferð að hluta og byrjendalæsi að hluta sem ekki er gagnreynd aðferð. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að innleiða Kveikjum neistann sem er eina heildstæða rannsóknarverkefnið í gangi í dag sem skilað hefur marktækum árangri. Það sætti því undrun þegar fram kom í svari frá skóla- og frístundasviði að enginn skóli í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 17:21

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 23.1.2024 - Prentvæn útgáfa