Borgarráð - Fundur nr. 5720

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 19. október 2023, var haldinn 5720. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir: Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. október 2023:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 2.155 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,30%, í verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKG 48 1, sem eru 2.014 m.kr. að markaðsvirði og hafni tilboðum að nafnvirði 1.500 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 9,32% í óverðtryggðan grænan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKNG 40 1, sem eru 955 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 18. október 2023.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22120008

  Fylgigögn

 2. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2023, um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024, mál nr. 1/2023.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090142

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Sósíalista ítrekar nauðsyn þess að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur þannig að þeir allra auðugustu í samfélaginu komist ekki hjá því að greiða í sameiginlega sjóði til nærsamfélagsins. 

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. október 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Stekkjarbrekkna – Hallsvegar vegna lóðarinnar nr. 14 við Lambhagaveg, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23070113

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nú er SORPA að fara að opna nýja endurvinnslustöð að Lambhagavegi og er það af hinu góða. Ekki hafa fylgt neinar kostnaðartölur fyrir þessa stöð sem virðist vera mun veglegri en aðrar stöðvar sem SORPA starfrækir. Ekki kemur fram hversu miklu munar á því að byggja nýja stöð með þessu nýja lagi samanborið við þær sem eru með eldri hönnun eins og í Breiðhellu. 

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. október 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndareits vegna lóðarinnar nr. 5 við Egilsgötu, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23080131

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni tilboðum í lóðirnar Bronssléttu 1, 3 og 5 og Norðurgrafarveg 3 og að byggingarréttur á lóðunum verði seldur á föstu verði, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt. MSS23100091

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. október 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili skrifstofunni að slíta viðræðum um úthlun lóðar á Sævarhöfða 31 og að teyminu Smart Food Campus verði boðið til viðræna á grundvelli tillögu í keppninni Reinventing cities, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt. MSS23100035

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Vinasamtök pólska skólans með vísan í hjálagt minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. september 2023.

  Samþykkt.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23090177

  Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Samtökin Móðurmál og Vinasamtök pólska skólans eru rótgróin grasrótarsamtök sem í áraraðir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í menntun barna í Reykjavík. Hér er verið að renna styrkari stoð undir starfsemina og um leið verið að tryggja reykvískum börnum með annað móðurmál en íslensku gjaldfrjálsa móðurmálskennslu. Í því felst viðurkenning á náminu sem fullgildu námi og tryggir um leið að foreldrar barna með annað móðurmál en íslensku geti nú nýtt frístundastyrkinn til að greiða fyrir frístundastarf barna í stað þess að nýta hann til greiða fyrir nám. Borgarráð fagnar þessu skrefi.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hjálögð eru drög að samningi við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Vinasamtök pólska skólans sem hefur það að markmiði að gera þjónustu þeirra gjaldfrjálsa. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það sé mjög mikilvægt að börn læri móðurmál sitt og það hjálpar þeim að læra nýja málið. Nú á þjónustan að verða gjaldfrjáls. Þetta er gott skref. Foreldrar 150 barna sem ekki ná endum auðveldlega saman hafa þurft að nýta frístundakort barna sinna til að greiða íslenskukennsluna og þar með hafa börnin ekki geta notað kortið til að taka þátt í öðrum íþróttum og tómstundum.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2023, varðandi næstu skref vegna lífsgæðakjarna, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22040200

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihluti borgarráðs fagnar góðum framgangi í vinnu við þróun lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk í Reykjavík. Hér er lagt til að hefja skipulagsvinnu og samningagerð við þá aðila sem valdir voru eftir auglýsingu. Einnig er lagt til að meta tækifæri, raunhæfni og undirbúa auglýsingar á öðrum tilteknum reitum í eigu borgarinnar, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið og kalla eftir samstarfsaðilum, þar með talið einstaklingum eða hópum eldra fólks í viðkomandi hverfum sem kunna að hafa áhuga á að koma að mótun viðkomandi svæða. Afar mikilvægt er að horfa til framtíðar varðandi húsnæðisuppbyggingu fyrir eldra fólk í ljósi aldursþróunar á Íslandi.
   
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sósíalista telur mikilvægt að þessi uppbygging verði án hagnaðarsjónarmiða.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að taka næstu skref af hverfum eða svæðum sem þessum. Öll svæði eiga vissulega að vera lífsgæðasvæði/-kjarnar. Þessi hugmynd er í samræmi við tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram árið 2021 um skipulagða byggð fyrir eldra fólk víðs vegar í Reykjavík. Tillagan fékk þá engan hljómgrunn hjá meirihlutanum. Samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök hefur leitt í ljós að fjölmargir vilja einmitt að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og þeirra þarfir. Gera þarf jafnframt ráð fyrir dagdvöl og þjónustuíbúðum. Horfa þarf til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og fleira. Á svæði sem þessu er í raun ekki þörf fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla. Einblína ætti frekar á fjölbreytt úti- og innisvæði til afþreyingar og skemmtunar. Aðkoma Félags eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér ólík íbúðaform, t.d. minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði að öryggismálum í hvívetna. Þegar horft er til framkvæmdarinnar skiptir máli hverjir annast hana, hverjir byggja, hverjir eru verktakar og hvort þetta verður óhagnaðardrifið. Ætla einhverjir að græða á þessu sérstaklega?

  Fylgigögn

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki afgreiðslu velferðarráðs frá 4. október um fjölgun NPA samninga um 14 frá og með 1. nóvember 2023. Kostnaður hefur verið endurmetinn frá fyrri samþykkt velferðarráðs. Kostnaður Reykjavíkurborgar á árinu 2023 vegna fjölgunar samninga er metinn 46 m.kr. að teknu tilliti til 25% mótframlags frá ríki og tilfærslu fjárheimilda úr beingreiðslusamningum yfir í NPA. Kostnaður á árinu 2024 vegna fjölgunar samninga nemur 276,5 m.kr. að teknu tilliti til 25% mótframlags frá ríki og tilfærslu fjárheimilda úr beingreiðslusamningum yfir í NPA. Gerður er sá fyrirvari að fjárveitingar ríkisins vegna NPA-samninga verði á fjárlögum 2024 og upphæðir geti breyst með samningnum um nýja kostnaðarskiptinu ríkis og sveitarfélaga.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Rannveig Einarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Agnes Sif Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23090085

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg tekur hér mikilvægt skref í að fjölga NPA-samningum sem er ætlað að veita fólki sem þörf hefur fyrir aðstoð tækifæri til þess að lifa virku og sjálfstæðu lífi. Meirihluti borgarráðs leggur ríka áherslu á að niðurstaða náist í samræðum ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, þannig að tryggt sé að sú þjónusta sem sveitarfélögum er falið að veita lögum samkvæmt sé fjármögnuð. Enda er óheimilt að fela sveitarfélögum verkefni án þess að fjármögnun þeirra liggi fyrir. Fái þessi þjónusta sveitarfélaganna ekki fulla fjármögnun er nokkuð ljóst að erfitt muni reynast að byggja hana frekar upp og fjölga samningum sem er andstætt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Nauðsynlegt er að öll þau sem eiga rétt á NPA-samningi fái slíkt án þess að bíða til lengdar. Samningum um NPA hefur ekki fjölgað í Reykjavík frá árinu 2021 en nú er verið að fjölga þeim um 14 frá og með 1. nóvember 2023. Í Reykjavík eiga yfir 40 manneskjur samþykkta umsókn um NPA og bíða eftir að þjónusta geti hafist. Það er óásættanlegt að fólk sé látið bíða til lengdar. Mikilvægt er að ríkið taki þátt í kostnaði og að öllu fólki sé tryggð sú lögbundna þjónusta sem það á rétt á. Hér er verið að færa fjárheimildir þannig að ekki verður hægt að bæta við nýjum beingreiðslusamningum á árinu 2024 sökum tilfærslu á fjárheimildum yfir í NPA-samninga. Nauðsynlegt er að öll þau sem þurfa og eiga rétt á þjónustu og stuðningi fái slíkt. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þegar lögin um notendastýrða persónulega aðstoð voru sett grunaði engan að þau yrðu ekki fjármögnuð eins og þurfti. Þess má minnast að allir fögnuðu og glöddust að nú skyldi eiga að taka utan um fatlað fólk. Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og að hafa val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. En Adam var ekki lengi í Paradís. Fjármagn hefur ekki fylgt svo ekki er hægt að virkja alla samninga. Búið er að leggja til 14 nýja samninga en nú þegar hafa 44 manneskjur fengið samþykkta umsókn um NPA-þjónustu. Þannig að 30 einstaklingar þurfa að bíða lengur eftir þjónustu. Réttindi fatlaðs fólks eru ekki virt í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er siðlaust að samþykkja lög sem síðan verða aðeins orð á blaði. Vandinn er að þarfir öryrkja eru sjaldnast í forgangi hjá löggjafanum. Fólk sem fær þessu þjónustu er virkara í samfélaginu en áður. Það er biturt að öll umræða um NPA snúist um að fjármagna málaflokkinn.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. október 2023:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela þjónustu- og nýsköpunarsviði ábyrgð á utanumhaldi og eftirliti með rafrænni vöktun öryggismyndavéla sem settar eru upp á vegum starfsstaða Reykjavíkurborgar. Fyrir liggur að ná þarf betur utan um og staðsetja allar öryggismyndavélar á vegum Reykjavíkurborgar, útbúa verklagsreglur um notkun öryggismyndavéla í starfsemi borgarinnar ásamt því að skoða uppsetningu þeirra véla sem þegar eru til staðar m.t.t. netöryggis og persónuverndar. Þá þarf að skýra ábyrgð á, sem og eftirlit með notkun þeirra með tilliti til persónuverndar. Jafnframt þarf að skýra verklag og kröfur varðandi uppsetningu og kaup á nýjum öryggismyndavélum.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Karen María Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON21050013

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er lagt til að fela þjónustu- og nýsköpunarsviði ábyrgð á utanumhaldi og eftirliti með rafrænni vöktun öryggismyndavéla sem settar eru upp á vegum starfsstaða Reykjavíkurborgar. Fyrir liggur að ná þarf betur utan um og staðsetja allar öryggismyndavélar á vegum Reykjavíkurborgar, útbúa verklagsreglur um notkun öryggismyndavéla í starfsemi borgarinnar ásamt því að skoða uppsetningu þeirra véla sem þegar eru til staðar m.t.t. netöryggis og persónuverndar. Þá þarf að skýra ábyrgð á, sem og eftirlit með notkun þeirra með tilliti til persónuverndar. Jafnframt þarf að skýra verklag og kröfur varðandi uppsetningu og kaup á nýjum öryggismyndavélum. Mikilvægt er að slíkt sé gert en fulltrúi Sósíalista furðar sig á því að rafræn vöktun sé í gangi og hafi átt sér stað án þess að slík ofangreind vinna hafi átt sér stað. 

  Fylgigögn

 11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. október 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf samráðshóps um Sundabraut, dags. 19. október 2023.

  -    Kl. 10:15 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundi og Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti með rafrænum hætti.

  Samþykkt.
  Jafnframt er samþykkt að skipa Einar Þorsteinsson, sem verður formaður hópsins, Dóru Björt Guðjónsdóttur, Birki Ingibjartsson, Hildi Björnsdóttur og Líf Magneudóttur í hópinn. MSS23100110

  Fylgigögn

 12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2023:

  Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu um umgjörð á geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu eða aðra sértæka þjónustu fyrir fyrrum vöggustofubörn. Áætlaður kostnaður er í fyrstu um 10 m.kr. og er lagt til að kostnaðurinn verði tekinn af liðnum ófyrirséð og falli að mestu til á árinu 2024.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt. MSS23090194

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Nefnd um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofu að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins (Vöggustofunefnd) setti fram alls fjórar tillögur sem voru lagðar fyrir borgarráð 12. október sl. til frekari málsmeðferðar. Ein tillagan var um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar til að tryggja að vöggustofubörn fái geðheilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu eða, eftir atvikum, aðra sértæka aðstoð sér að kostnaðarlausu. Fulltrúi sósíalista styður slíkt heilshugar og telur mikilvægt að það verði útskýrt vel fyrirfram að miðað sé við ákveðinn fjölda tíma í þjónustu.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokkur fólksins þakkar hópnum sem óskaði eftir rannsókninni, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni. Fulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að borgarstjórn hafi sameinast um að ráðast í athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík. Nú þarf að vanda vel til framhaldsins og vinna það sem mest í samráði við þá sem málinu tengjast. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Skoða ætti einnig fleiri úrræði.

  Fylgigögn

 13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. október 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lögð er fram til kynningar áfangaskýrsla starfshóps um gerð umbótaáætlunar vegna viðhaldsstjórnunar fasteigna. Lagt er til að settur verði af stað starfshópur sem endurskoði stjórnskipulag og ábyrgð þegar kemur að eigendafyrirsvari og viðhaldi. Jafnframt er lagt til að starfshópnum verði falið að vinna viðhaldsstefnu sem styður við heildarstefnu Reykjavíkurborgar, Græna planið. Erindisbréf þess efnis yrði lagt fyrir borgarráð.

  Samþykkt. MSS23100122

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. október 2023, varðandi tilnefningu fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Fluglestarinnar þróunarfélags ehf. MSS23100102

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. október 2023, varðandi boðsbréf borgarstjóra til forseta Íslands í opinbera heimsókn til Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. MSS23100048

  Fylgigögn

 16. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 291/2022. MSS22080162

 17. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skilgreiningu á hugtakinu hagvæmt húsnæði, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. september 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2023.

  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090180

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í umsögn koma fram skilgreiningar á hagkvæmu húsnæði og vistvænu húsnæði. Ætla má að skilgreiningar séu ávallt í endurskoðun og þróun frá einum tíma til annars, allavega er sjálfsagt að skoða hvort þær geti orðið betri og nákvæmari. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að það væri gagnlegt að birta skilgreiningu samkomulagsins á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Þessi hugtök sem um ræðir eru oft notuð með frjálslegum hætti sem gerir það að verkum að gengisfelling verður jafnvel á hugtakinu og það verður merkingarlítið. Niðurstaðan er því eftirfarandi: Til hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði teljast íbúðir sem eru byggðar án hagnaðarsjónarmiða, s.s. uppbygging sem nýtur stofnframlaga, húsnæði fyrir stúdenta, tiltekna hópa eldri borgara og öryrkja. Einnig íbúðir sem byggðar eru fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur sem falla undir hlutdeildarlán. Til vistvænna og hagkvæmra íbúða teljast þær íbúðir sem ná viðmiðum um vistvæna mannvirkjagerð, s.s. með BREEAM-vottun, lágmörkun kolefnisspors og bætta orkunýtingu og/eða staðsettar eru í grennd við hágæða almenningssamgöngur eða aðra vistvæna samgönguinnviði. Til félagslegra íbúða teljast m.a. þær íbúðir sem Félagsbústaðir hafa kauprétt á samkvæmt uppbyggingarsamningum við einstaka byggingaraðila. 

  Fylgigögn

 18. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um sölu byggingarréttar, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023. MSS23050068

  Fylgigögn

 19. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 12. október 2023, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um matarsóun í mötuneytum Ráðhúss og Höfðatorgs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. ágúst 2023. MSS23050147

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Svarið sem Flokkur fólksins fær er ekki trúverðugt. Í fyrra svari var sagt að afgangi sem ekki hefur tekist að nýta væri seldur áfram til bænda sem nýta þá í fóður og að „með því er nýting aðfanga hámörkuð, og magn lífræns úrgangs lágmarkað“. Við þetta svar brá fulltrúa Flokks fólksins því það er óheimilt að senda matarafganga aftur til bænda sem fóður fyrir búfé vegna hættu á útbreiðslu sjúkdóma og hringrásar smitefnis. Í nýju svari er þetta viðurkennt en vísað í að heimilt sé að nota slík dýraprótein til að framleiða fóður fyrir loðdýr og að afgangar fari til minkabænda. Fulltrúi Flokks fólksins veit að minkar éta hvorki brauð, kökur, sósur né salöt sem búast má við að séu í leifum frá mötuneytum. Loðdýrabændur eru fáir. Í samtali við forsvarsmann þeirra kom það skýrt fram að matarleifar úr borginni koma hvergi nærri loðdýrafóðri því loðdýr eru afar viðkvæm og stífar kröfur eru gerðar til fóðurs og fóðursamsetningar fyrir minka. Niðurstaðan af þessum tveimur svörum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði er að þau er röng og afar óheiðarlegt er að spinna upp einhverja sögu til að reyna að villa um fyrir kjörnum fulltrúum Er ekki kominn tími á heiðarleika?

  Fylgigögn

 20. Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 5. og 12. október 2023. MSS23010005

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 10. október 2023. MSS23010027

  Fylgigögn

 22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. október 2023. MSS23010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

  Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að Kjalnesingar hafa barist fyrir því lengi að koma skotvöllunum í burtu vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Mikil óánægja hefur ríkt með að skotíþrótt skuli vera stunduð svo nærri byggð og viðkvæmu fjörulífríki svo ekki sé minnst á neikvæð umhverfisáhrif s.s. ónæði vegna hávaða og mengun af völdum blýhagla. Skotvellir eru starfsemi sem er mengandi skv. reglugerð 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit. Reyna á að draga úr áhrifum með mótvægisaðgerðum en ekki hefur verið skilgreint hver eigi að bera kostnað af þeim. Reykjavík hefur kostað uppbyggingu á skotveiðisvæðinu. Segir í gögnum að finna þurfi efni til að binda mengun. Er verið að ýja að því að borgin greiði fyrir að leysa mengunarvandamál vegna blýhagla?

  Fylgigögn

 23. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. október 2023.
  12. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á að snjóhreinsun í húsagötum verði stórbætt og að ekki sé rutt upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga híbýla. Ljóst er að aukin og betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Búið er að kostnaðarmeta tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir, er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stóreflt. Ráða á starfsmenn í eftirlit með vetrarþjónustu til að tryggja framkvæmd hennar, fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að hún skili fullnægjandi þjónustu. Kostnaður við þennan þátt er vissulega hár en vera kann að svo mikið eftirlit sé ekki nauðsynlegt til frambúðar. Þess er vænst að eftir ákveðinn reynslutíma á framkvæmd tillagna vetrarþjónustuhóps megi kannski draga úr eftirliti enda á ekki að þurfa að vera eitthvað sérstakt eftirlit ef hægt er að treysta þeim sem hafa þessi verk með höndum. Klárt er að þessi mál verða að vera í lagi. 

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 11. október 2023. MSS23010025

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

  Einsemd eldra fólks var rædd undir þessum lið á fundi öldungaráðs. Það er ekki ásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins að Ísland sé að koma vel út í alþjóðlegum samanburði þegar um 5% telja sig einmana. Gera má ráð fyrir að þeir séu margfalt fleiri. Kannanir ná ekki til allra. Þeir sem eru einmana eru þeir sem ekki eiga fjölskyldu, þeir sem búa einir og þeir sem eru á hjúkrunarheimili. Það er sárlega vöntun á félagsskap fyrir þá sem komnir eru á hjúkrunarheimili. Starfsfólk er undir álagi og getur ekki varið tíma í að spjalla við fólkið. Það er áfall fyrir marga að vera komnir á hjúkrunarheimili og verður enn erfiðara ef einmanaleiki sest að. Það er átakanlegt að vita að inni á hjúkrunarheimilum eru allt of margir sem eru einmana. Meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og tala hana jafnvel takmarkað auk þess sem það er undir miklu vinnuálagi. Flokkur fólksins lagði til í febrúar 2023 í annað sinn að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Tillagan var felld. Ekkert jafnast á við samtal, nálægð og snertingu. Það er ekki nóg að auka eingöngu velferðartækni.

  Fylgigögn

 25. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS23100001

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins: 

  Finna má í færslulista embættisafgreiðslna verklagsreglur íbúaráða. Þær hafa þann tilgang að tryggja skipulögð og samræmd vinnubrögð og jafnræði í meðferð mála íbúaráða Reykjavíkurborgar. Í þeim má finna ýmislegt um hvernig ráðsmönnum er ætlað að bera sig að og hvað þeir mega gera og ekki gera. Færri orð eru um starfsmenn ráðanna. Gera má ráð fyrir að reglurnar hafi verið endurskoðaðar eftir leiðinlega uppgötvun sem átti sér stað á fundi íbúaráðs Laugardals þegar ráðsmenn heyrðu tal starfsmanna sem þeim var ekki ætlað að heyra. Á tali starfsmanna mátti heyra að þeir voru að reyna að villa um fyrir íbúaráðinu. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti.
   

  Fylgigögn

 26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23100002

  Fylgigögn

 27. Lagðar fram styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
  Öllum styrkumsóknum er hafnað. MSS23050047
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fylgigögn

 28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að farið verði hið fyrsta í allsherjarátak við að hreinsa veggjakrot í borginni sem hefur stóraukist að undanförnu. Jafnframt verði leitað eftir samstarfi við m.a. við ungmennaráð, íbúasamtök, skóla, frístundamiðstöðvar, félagasamtök og rekstraraðila í þeirri viðleitni að draga úr veggjakroti. MSS23100175

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  Fylgigögn

 29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Nú hefur veggjakrot aukist og er til mikillar óprýði í miðbæ Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar starfshópur sem hefur það hlutverk að leggjast yfir þetta vandamál og koma með tillögur um hvað hægt er að gera til að sporna við veggjakroti og hvernig skuli bregðast við þessum vaxandi vanda. MSS23100176

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  Fylgigögn

 30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í ljósi frétta um ofbeldi meðal barna þar sem notuð eru eiturefni óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um viðbrögð skóla- og frístundasviðs og Barnaverndar Reykjavíkur. Nú eiga flest stálpuð börn síma og hafa aðgang að internetinu. Á netinu er að finna mikinn fróðleik en einnig skaðlegt efni, þ.m.t. myndefni. Þar er ekki aðeins að finna gróft klámefni heldur einnig upplýsingar um hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi. Hægt er sem dæmi að finna leiðbeiningar um hvernig búa á til sprengjur og fleiri skaðleg drápstól. MSS23100167

  Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
  Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og Barnaverndarþjónustu Reykjavíkur.

  Fylgigögn

 31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort stefnt sé að gjaldtöku í fyrirhuguðum Vetrargarði í Jafnaseli. Borið hefur á umræðu þar sem það er jafnvel fullyrt að taka eigi gjald af þeim sem hyggjast njóta Vetrargarðsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur ef þetta verður raunin því gjaldtaka mun útiloka börn frá efnaminni og fátækum foreldrum. Gjaldtaka mun þannig stuðla að aðskilnaði barna í hverfinu, þ.e. þau sem geta heimsótt Vetrargarðinn og þau sem geta það ekki. Utanumhald á slíku fyrirkomulagi sem gjaldtaka er er auk þess kostnaðarsöm. MSS23100161

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um skýrslu starfshóps um greiningu á stöðu Laugarnesskóla. Starfshópurinn átti að skila af sér 1. júní og svo hefur ekkert frést frekar. Hver er staðan á þessari skýrslu? Af hverju hefur henni seinkað? Hvenær verður hún opinber? MSS23020033

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað talið er að margir búi í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði og standist því mögulega ekki öryggismat, Nýlega lést einstaklingur af sárum sínum í kjölfar bruna sem varð í atvinnuhúsnæði. Brunar í ósamþykktu húsnæði hafa færst í aukana síðustu misseri. Þessi mál hafa oft verið rædd í borgarstjórn sérstaklega eftir mannskæðan bruna á Bræðraborgarstíg. MSS23100165

  Vísað til umsagnar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

 34. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Í ljósi þeirra hörmulegu átaka og mannúðarkrísu sem ríkir á Gaza samþykkir borgarráð að styrkja neyðaraðstoð við palestínsk börn sem nemur um 100 krónum fyrir hvert reykvískt barn á aldrinum 0-18 ára. MSS23100166

  Frestað. 

Fundi slitið kl. 11:25

Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Hildur Björnsdóttir Kristinn Jón Ólafsson

Marta Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 19.10.2023