Borgarráð - Fundur nr. 5707

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 15. júní, var haldinn 5707. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. júní 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hólalands á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. USK23030388
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 8. júní 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. júní 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. SN220294
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samræmi við samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna er hér verið að skipuleggja íbúðalóðir á Kjalarnesi. Um er að ræða tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús ásamt tveggja hæða parhúsum, alls 81 íbúð. Með þessu er verið að fjölga búsetuvalkostum í borginni og styrkja um leið byggðina í Grundahverfi á Kjalarnesi, styrkja grundvöll undir þjónustu á svæðinu og nýta betur núverandi innviði.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að uppbygging sé að hefjast á Kjalarnesi þannig að mikilli þörf fyrir húsnæði þar sé mætt. Mikilvægt er þegar unnið er að nýju skipulagi að gott samráð sé við íbúa og ný byggð sé í samræmi við þá byggð sem fyrir er. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista tekur undir sjónarhorn íbúa um mikilvægi þess að hverfið í heild sinni verði skipulagt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á fullnægjandi samráð við íbúa Kjalarness. Það er sérlega mikilvægt þegar umfangsmikil uppbygging er að fara að eiga sér stað.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2023, sbr. afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. apríl 2023 á skýrslu um endurskoðun vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. júní 2023. USK22090079
    Samþykkt.
    Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir og Karl Eðvaldsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lokið hefur verið við metnaðarfulla endurskoðun á vetrarþjónustu Reykjavíkur til að tryggja gott aðgengi um borgina fyrir alla samgöngumáta þegar snjóar. Í skýrslu stýrihópsins er að finna 16 tillögur og um 40 aðgerðir sem taka fyrir allt frá því að auka þjónustustig húsagatna, biðstöðva almenningssamgangna, göngustíga sem og hjólastíga yfir í að bæta upplýsingaflæði og innleiða óveðursviðbúnað. Snjómokstur er mikilvægur hluti grunnþjónustu borgarinnar og bundnar eru miklar vonir við að þær breytingar sem hér er verið að samþykkja muni þjóna íbúum vel um ókomin ár.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarna vetur hafa Reykvíkingar kynnst getuleysi pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar gagnvart þeirri grunnskyldu að tryggja að götur séu sæmilega færar og að fólk komist til og frá heimilum sínum. Tugþúsundir lentu í miklum vandræðum vegna ófærðar í húsagötum á meðan götur voru almennt orðnar greiðfærar í nágrannasveitarfélögunum. Tekið skal fram að starfsmenn borgarinnar og verktakar, sem sinntu snjómokstri stóðu sig vel. Hins vegar sannaðist ítrekað að pólitískt skipulag og verkstjórn snjóruðnings er óviðunandi. Ástandið var slæmt í flestum hverfum borgarinnar en verst í eystri hverfum. Enda bendir fjármála- og áhættustýringarsvið á að vetrarþjónustan hafi verið vanfjármögnuð og mikilvægt sé að fjármagna núverandi þjónustu að fullu áður en þjónustustigið er aukið. Þá bendir fjármála- og áhættustýringarsvið á að ekki hefur verið gert ráð fyrir viðbótarkostnaði umfram núverandi fjárheimildir í gildandi fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar. Verði tillagan samþykkt er mikilvægt að gerð verði kostnaðar- og ábatagreining. Í skýrslu stýrihóps um vetrarþjónustu er miklu rými varið til upptalningar á sjálfsögðum atriðum, sem eflaust er full þörf á miðað við sleifarlag pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar í málaflokknum. Er skýrslan því ágæt viðbót við gildandi þjónustuhandbók vetrarþjónustunnar frá 2020. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er ýmislegt sjálfsagt og gott lagt til en fulltrúi Sósíalista telur að borgin ætti að sjá um verkið innanhús og vekur athygli á flækjustiginu sem myndast hefur vegna aukinnar útvistunar í snjómokstri og vetrarþjónustu. Verktökum hefur verið falið að ryðja snjó í borginni en því fylgir mikil skriffinnska og eftirlit. Reglulega þarf að uppfæra staðla og reglugerðir svo að verktakar sinni verkum eftir væntingum. Nú er m.a. lögð til hreinsun í húsagötum þegar snjór er við 10cm. Í stað þess að treysta verkviti starfsfólks og stjórnenda borgarinnar til að lesa í stöðuna eftir veðrum og vindum, eru settir upp staðlar um það hversu mikla sentímetra þurfi að snjóa áður en mokstur hefst. Vegna þess að snjómokstur er í höndum verktaka, þarf að setja ströng skilyrði (eins og nákvæmar sentímetramælingar), með tilheyrandi kostnaði. Áætlaður kostnaðarauki vegna fjölgunar eftirlitsmanna er um 50 milljónir á ári. Kostnaðaraukinn er m.a. vegna eftirlits með verktökum. Það er aftur á móti ánægjuefni að Reykjavíkurborg ætli að fjölga snjómoksturstækjum en betur má ef duga skal. Snjómokstur í Reykjavík ætti að fara fram milliliðalaust. Í því samhengi má benda á að tæki og beinráðið starfsfólk á vegum borgarinnar gæti sinnt fleiri verkum en einungis snjómokstri.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á að snjóhreinsun í húsagötum verði stórbætt og að ekki sé rutt upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga fólks í híbýli sín. Ljóst er að aukin og betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Fyrir borgarráði liggur umsögn skrifstofu fjármála- og áhættustýringar sem hefur kostnaðarmetið tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stóreflt. Ráða á starfsmenn í eftirlit með vetrarþjónustu til að tryggja framkvæmd hennar, fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að hún skili fullnægjandi þjónustu. Kostnaður við þennan þátt er vissulega hár en vera kann að svo mikið eftirlit sé ekki nauðsynlegt til frambúðar. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðbótarfjárheimild vegna launakostnaðar nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2023. USK23060109
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Guðmundur B Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja miður að ekki hafi verið búið að ákveða laun nemenda í Vinnuskólanum áður en nemendur hófu þar störf nú í júní. Þá er það jafnframt óásættanlegt að launin haldist óbreytt milli ára og að um engar verðbætur eða kjarabætur sé að ræða. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Nú ríkir blússandi verðbólga. Skoða átti launamál nemenda skólans áður er skólinn hófst en þau hafa ekki hækkað í samræmi við aðrar launahækkanir. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir ári síðan bókuðum við Vinstri græn á þessa leið í borgarráði: „Það er ánægjulegt að laun nemenda í Vinnuskólanum séu að hækka aftur enda var það löngu orðið tímabært að leiðrétta kjör þeirra en það var fyrst gert í formannstíð Vinstri grænna í umhverfis- og heilbrigðisráði árið 2021. Framvegis þarf að gæta þess að tengja laun þeirra ákveðnum fasta launa svo þau fylgi öðrum hækkunum og launavísitölu og eins þarf að gera ráð fyrir þessum hækkunum við gerð fjárhagsáætlunar og úthlutunarramma. Eins mætti skoða leiðir til að afnema aldurstengingu launanna enda samræmist það ekki mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að mismuna fólki vegna aldurs.“ Þessi bókun á enn við og brýnir borgarfulltrúi Vinstri grænna borgarráð í að ráðast í að koma þessu í ásættanlegan farveg með hagsmuni nemenda Vinnuskólans í fyrirrúmi. Nú er lag til að ráðast í betrumbætur á Vinnuskóla Reykjavíkur. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna þjónustu- og verslunarhúsnæðislóðar við Álfabakka 2a, ásamt fylgiskjölum. MSS22010247
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að framlengja tímabundið útrunna lóðarleigusamninga vegna Ártúnshöfða, ásamt fylgiskjölum. MSS23060064
    Samþykkt.

    Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að starfsemi þeirra fyrirtækja sem starfa á svæðinu sé tryggð með því að framlengja lóðarleigusamninga þar til önnur svæði innan borgarlandsins eru tiltæk fyrir þá mikilvægu þjónustu sem finna er á Ártúnshöfðanum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og skipulagið lítur út núna varðandi endurnýjun lóðaleigusamninga virkar þetta sem hálfgert bútasaumsteppi. Líklega liggja að baki þessum ákvörðunum djúpar „pælingar.“ Umfram allt skiptir máli að mati fulltrúa Flokks fólksins að lóðaleiguhafar hafi rými og tíma til að skipuleggja sig í samræmi við samninga og séu vel upplýstir. Á Ártúnshöfða er rekin mikilvæg þjónusta.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 9. júní 2023, varðandi stjórnsýsluúttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS23060077

    Ingunn Ólafsdóttir og Kristján Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í samræmi við innri endurskoðunaráætlun A-hluta Reykjavíkurborgar er hér lögð fram stjórnsýsluúttekt á viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar. Markmið úttektarinnar var að draga upp heildarmynd af viðhaldsstjórnun fasteigna Reykjavíkurborgar og finna umbótatækifæri. Í skýrslunni eru settar fram 13 ábendingar sem starfshópur sem hér er skipaður mun yfirfara og setja í formlegt umbótaferli.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kjarna má niðurstöðu innri endurskoðanda þannig að vegna þess að ábyrgðin á verkefnunum liggur á víð og dreif um stjórnsýsluna féllu mikilvæg verkefni og upplýsingar ítrekað í gegnum sprungurnar með þeim afleiðingum að yfirsýnin var mjög takmörkuð. Því hefur viðhaldsstjórnun verið mjög ábótavant og einkennst af sveltistefnu á fjármagni til viðhalds. Líkt og borgarbúar hafa reynt á eigin skinni og sumir hverjir goldið fyrir með heilsu sinni. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja hrósa og þakka innri endurskoðun fyrir sín góðu störf, og munu gera sitt til að ganga á eftir því að ábendingar innri endurskoðunar séu sannarlega innleiddar í þágu betri viðhaldsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er við lestur skýrslunnar sem hér er lögð fram að viðhaldsstjórnun má bæta og eru gerðar tillögur um það. Umsýslu með fasteignum (eignastjórnun) A-hluta Reykjavíkurborgar er skipt upp milli fjármála- og áhættustýringarsviðs (eignaskrifstofa) og umhverfis- og skipulagssviðs. Það er óheppilegt og eru nefnd mörg dæmi um galla þess kerfis. Borgarráð/borgarstjórn, sem útdeilir fjármunum til viðhalds, hefur ekki haft fullnægjandi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir um fjármagn til viðhalds. Bent er á að bæta má skipulagið, endurskoða þarf stjórnskipulag sem styður við skilvirka eigna- og viðhaldsstjórnun hjá Reykjavíkurborg og draga úr hættu á að skipting ábyrgðar milli leigusala og leigutaka leiði til aukins viðhalds og meiri viðhaldskostnaðar. Þessi skýrsla sýnir að mikið verk er hér óunnið. Fram hefur komið áður að viðhaldi á mörgum byggingum borgarinnar var of lítið sinnt og það rökstutt með ýmsum atriðum, svo sem vegna áherslubreytingar í COVID-aðstæðum. Vanræksla viðhalds húsa nær aftur um fjöldamörg ár. En hér sést að viðhald húsa er viðvarandi vandamál sem hafa þarf góða stjórn á ef einhvern tíma á að ná meira utan um það.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12. júní 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um gerð umbótaáætlunar vegna stjórnsýsluúttektar innri endurskoðunar og ráðgjafar á viðhaldsstjórnun fasteigna eru send borgarráði til kynningar. MSS23060070

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf stýrihóps um aðgerðaráætlun loftgæða. Óskað er eftir að borgarráð staðfesti skipun þriggja fulltrúa meirihluta og tilnefni tvo fulltrúa minnihluta. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti þann 12. apríl síðastliðinn tillögu Vinstri grænna um að stofna stýrihóp fyrir aðgerðir á gulum og gráum dögum og fellur sú skoðun vel að verkefnalýsingu þessa stýrihóps sem hér er stofnaður. Hlutverk stýrihópsins er m.a. að marka langtímastefnu um loftgæði og uppfæra aðgerða- og viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar um loftgæði. MSS23060058

    Samþykkt. 
    Jafnframt er samþykkt að skipa Mörtu Guðjónsdóttur og Elínu Björk Jónasdóttur í stýrihópinn.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heilnæmt andrúmsloft er mikilvæg auðlind og undirstaða góðrar heilsu og velferðar. Reykjavíkurborg hefur vaktað loftgæði frá árinu 1990 en hér er stýrihóp falið að marka langtímastefnu Reykjavíkurborgar um loftgæði og uppfæra aðgerða- og viðbragðsáætlun borgarinnar.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 13. júní 2023, að viðauka við fjárhagsáætlun 2023. Greinargerð fylgir tillögunni. FAS23010019
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur að úrræðum vegna dagforeldramála í hjálögðu minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2023. SFS23060023

    Samþykkt.
    Helgi Grímsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í Reykjavík hefur lagt mikla vinnu í að brúa bilið með fjölbreyttum leiðum. Mikilvægur liður í því er að efla dagforeldrakerfið og laða að nýja dagforeldra. Hér er verið með fjölmörgum tillögum að bæta starfsaðstæður dagforeldra, auka niðurgreiðslu og létta undir með barnafjölskyldum. Reykjavíkurborg ætlar að setja af stað átak til þess að finna húsnæði fyrir dagforeldra bæði með eigin húsnæði en einnig frá einkaaðilum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutaflokkarnir hafa undanfarin ár sýnt mikið andvaraleysi gagnvart uppbyggingu dagforeldrakerfisins í stað þess að hlúa að kerfinu til að mæta brýnni þörf fyrir dagvistarúrræði. Þetta endurspeglast í því að dagforeldrum fækkaði úr 206 í 78 á tæpum áratug. Árið 2014 voru 689 börn í vistun hjá dagforeldrum en fóru í 371 í fyrra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að efla og styðja betur við dagforeldrakerfið m.a. á fundum skóla- og frístundaráðs, í borgarráði og borgarstjórn. Nú síðast var tillaga þess efnis lögð fram í skóla- og frístundaráði 8. maí s.l. að samþykkja stefnu fyrir dagforeldrakerfið sem fælist m.a. í því að borgin útvegi leiguhúsnæði svo að dagforeldrar eigi auðveldara með að starfa tveir saman, niðurgreiðslur til dagforeldra hækki verulega, aðstöðu- og stofnstyrkir verði hækkaðir og aukinn faglegur stuðningur við dagforeldra. Það vekur furðu að þessari tillögu Sjálfstæðismanna var vísað frá og örfáum vikur síðar leggja meirihlutaflokkarnir fram sams konar tillögu í borgarráði. Meirihlutinn virðist gleyma því oft að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald og á erfitt með að samþykkja tillögur minnihlutans en ljóst er að meirihlutanum hefur litist vel á þær lausnir sem Sjálfstæðismenn hafa bent á og er það jákvætt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hækkun niðurgreiðslu með hverju barni eigi að miðast við 12 mánaða þegar að fæðingarorlofi lýkur. Búið var að lofa börnum frá 12 mánaða aldri leikskólaplássi í Reykjavík. Að setja þak á niðurgreiðslu barna eldri en 18 mánaða þýðir að dagforeldrar þurfa að lækka gjaldið. Það gæti orðið til þess að börnum verði frekar sagt upp við 18 mánaða. Eins er sanngirnisatriði að stofnstyrkur greiðist til allra dagforeldra sem skrifa undir þjónustusamning við borgina burtséð frá starfsaldri. Að sniðganga starfandi dagforeldra veldur aðeins óánægju innan stéttarinnar og eykur brottfall þeirra. Margir dagforeldrar hafa lagt óheyrilegan kostnað til að halda starfinu gangandi eins og t.d. í COVID. Hlúa þarf að þeim sem starfað hafa sem dagforeldrar árum saman. Ef litið er til húsaleigu ætti hún að vera jöfn á alla dagforeldra, sama upphæð per fermetra. Sem dæmi, þá er gæsluvöllur í Breiðholti leigður út á um 60 þúsund krónur en minni gæsluvöllur í Vesturbæ á um 220 þúsund krónur. Skoða ætti í alvöru að húsaleiga greiddist aðeins 11 mánuði á ári vegna 4 vikna leyfis. Skynsamlegt væri að frysta húsaleigu um nokkurn tíma enda hækkar leiga hratt vegna skorts á framboði á húsnæði. 

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. júní 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur vegna ráðninga í leikskóla Reykjavíkurborgar í hjálögðu minnisblaði sviðstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 4. apríl 2023. Tillögurnar verði fjármagnaðar af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. Mikilvægt er að verkefnið sé árangursmetið, enda sé það fjármagnað tímabundið með hliðsjón af árangri. Verkefnið verði fjármagnað á þessu ári í hlutfalli af því sem fellur til á árinu. Við gerð fjárhagsáætlunar 2024 verði farið yfir fjármögnun verkefnisins. MSS23060087

    Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 3. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

    Helgi Grímsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Enn og aftur líta dagsins ljós tillögur frá meirihlutanum sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram áður og hafa ekki hlotið hljómgrunn. Í ljósi þess að leikskólar hafa glímt lengi við manneklu hefði átt að samþykkja tillögu okkar Sjálfstæðismanna um bakvarðasveit sem lögð var fyrst fram á síðasta kjörtímaabili og svo aftur fyrir tæpu ári síðan í upphafi nýs kjörtímabils. En tillagan sem hér liggur fyrir er samhljóða þeim tillögum um að koma á bakvarðasveit til að mæta manneklunni á leikskólum en betra seint en aldrei að meirihlutinn viðurkenni vandann og gott að þyrnirós sé vöknuð. Meginástæða þess að meirihlutinn hafnaði ítrekað tillögu okkar Sjálfstæðismanna um bakvarðasveit var sú að verið væri að vinna að þessu verkefni á Afleysingastofu með öflugu fólki. Í ljósi þess er það undarlegt að bæta þurfi við þremur og hálfu stöðugildi núna til að sinna verkefninu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að nýta ætti frekar þann mannauð og sérfræðinga sem til staðar eru á skóla- og frístundasviði en þar eru nú þegar átta mannauðsráðgjafar að störfum.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samtök vinnandi fólks hafa lýst mikilli andstöðu við þá tegund samninga sem liggja til grundvallar ráðningum Afleysingastofu, svokallaðra núll-samninga. Reykjavíkurborg á ekki að gerast virkur þátttakandi í niðurbroti á réttindum láglaunafólks til starfsöryggis hér á landi til þess eins að bregðast við vandamáli sem borgaryfirvöld hafa sjálf skapað með sinnuleysi og niðurskurði í rekstri leikskólanna. Fjárhagslegt óöryggi láglaunafólks hefur farið hríðversnandi og opinberir aðilar eiga ekki að ýta undir versnandi stöðu þeirra með aðgerðum sínum. Það að ætla að auka umsvif Afleysingastofu án samráðs við þau stéttarfélög sem eru málsvarar fólksins sem þar sækir um störf og núverandi starfsfólk leikskólanna, og heildarsamtök þeirra, er ekki skynsamlegt eða tímabært. Málið þarfnast ítarlegri umræðu sem á meira heima í borgarstjórn og á opinberum vettvangi. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Löngu tímabært er að taka á alvöru á mönnunarvanda leikskólanna. Þetta vandamál hefur verið árum saman og lagt þungar byrðar á foreldra og starfsmenn. Segir í minnisblaðinu sem hér er lagt fram að margar leiðir hafi verið farnar til að laða að umsækjendur til starfa á leikskólum Reykjavíkur. En hvaða leiðir eru það og af hverju hafa þær ekki skilað árangri? Á það er ekkert minnst. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sent inn tugi bókana um mannekluvandann sem og tillögur og fyrirspurnir hvort ekki eigi að fara að bretta upp ermar. Vandann má rekja að mestu til tveggja þátta, lágra launa og álags í starfi en aðstæður í sumum leikskólum eru bágbornar. Þrengsli eru víða og ekki bætti úr skák þegar hvert myglu- og rakamálið rak annað. Lítið er í rauninni komið inn á þessa þætti í tillögunum sem hér eru lagðar fram. Ein tillagan er að ráða mannauðsstjóra, nýtt stöðugildi. Þetta skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Afleysingastofa hefur verið virk um nokkurt skeið og að sjálfsögðu hefði átt að nýta hana frá byrjun. Það hefði létt mikið á leikskólastjórum að þurfa ekki að sinna því hlutverki.

    Fylgigögn

  13. Fram fer kynning á hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ehf. MSS23010191

    Elín Smáradóttir, Sævar Freyr Þráinsson, Erling Freyr Guðmundsson, Gylfi Magnússon, Skúli Helgason, Halldóra Káradóttir og Erik Tryggvi Striz Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
    Helga Lára Hauksdóttir, Þórður Ólafur Þórðarson og Þorsteinn Helgi Valsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram bókanir sem færðar eru í trúnaðarbók.

    -    Kl. 13:01 tekur Alexandra Briem sæti og Pawel Bartoszek víkur af fundi.

  14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. júní 2023 á tillögu um breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð, ásamt fylgiskjölum. VEL23050025
    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Þórdís Linda Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti Borgarráðs leggur ríka áherslu á að niðurstaða náist í samræðum ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, með þeim hætti að tryggt sé að sú þjónusta sem sveitarfélögum er falið að veita í lögum sé fullfjármögnuð.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð. Breytingin snýr að því að innleiðingartímabil verði framlengt út árið 2024 og að gildistími reglnanna verði framlengdur til 31. desember 2024. Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess. Í tillögunni er einnig fjallað um það að kostnaður vegna tillögunnar rúmist innan fjárhagsramma velferðarsviðs að því gefnu að ríkið haldi áfram greiðsluþátttöku með sama hætti og verið hefur. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að öll sem eigi rétt á NPA fái slíkt enda er um að ræða þjónustuform sem manneskjur eiga rétt á og ekki er hægt að takmarka það við ákveðið fjármagn eða fjárhagsramma. Þá er einnig mikilvægt að manneskjur sem eiga rétt á NPA upplifi sig ekki sem fasta á milli samningsviðræðna ríkis við sveitarfélög um fjármögnun. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Því er fagnað að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafi ákveðið að fjölga NPA samningum um 56 og framlengja innleiðingartímabilið út árið 2024. Það er leitt að enn skuli vera settar fjöldatakmarkanir af hálfu ríkisins á þjónustu sem skilgreind er í lögum sem réttindi. Fjölmörgum er haldið í óþolandi óvissu. Fái þessi þjónusta sveitarfélaganna ekki fulla fjármögnun er nokkuð ljóst að erfitt reynist að byggja hana frekar upp og fjölga samningum.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er metnaðarlaust og vont að Reykjavíkurborg sé ekki að gera nýja samninga við fatlað fólk um NPA aðstoð og fari þannig á svig við þær lögbundnu skyldur sem sveitarfélögum er sannarlega sett. Þær samningaviðræður sem nú fara fram milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga ekki að standa í vegi fyrir því að Reykjavíkurborg geri nýja samninga við fatlað fólk um þennan mikilvæga stuðning og virði mannréttindi þess.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. júní 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. júní 2023 á tillögu um nýjar reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. VEL23020070
    Samþykkt.

    Dís Sigurgeirsdóttir og Þórdís Linda Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í umsögn aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks var tekið jákvætt í breytingarnar og þær taldar vera til góðs enda yrðu reglurnar skýrari og umsóknarferlið einfaldara. Flokkur fólksins tekur undir gagnrýni eða ábendingu sem fram kom á fundi öldungaráðs þann 12. apríl 2023 um að tvívegis þurfi að skila inn tilteknum gögnum, annars vegar þegar sótt er um P-kort hjá sýslumanni og svo aftur þegar sótt er um sérmerkt bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun. Vonandi verður ráðin bót á þessu hið fyrsta. Velferðarsvið getur haft frumkvæði að samtali við sýslumann um að einfalda gagnaöflun eins og gert hefur verið í öðrum málum. Flokkur fólksins fagnar því að gert sé ráð fyrir samráði við aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Það vekur von um að ráðið verði í það embætti fljótlega.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. júní 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda þeirra sem eru í vanskilum við Reykjavíkurborg, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023. MSS23020114

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurnin var lögð fram til að sjá hvort lokað væri á þjónustu hjá borgarbúum vegna vanskila. Samkvæmt svarbréfi höfðu 78 uppsagnir vegna vanskila frístundaheimilisgjalda verið sendar út á skólaárinu 2022/2023. Til viðbótar voru 7 uppsagnir sem áttu að taka gildi 31. maí 2023 ef ekkert yrði að gert. Alls höfðu 84 uppsagnir vegna vanskila leikskólagjalda verið sendar út á skólaárinu 2022/2023. Til viðbótar voru 2 uppsagnir sem áttu að taka gildi 1. júní 2023 yrði ekkert að gert. Verkferlar eru til staðar sem eiga að tryggja að börn verði ekki af þjónustu vegna fjárhagsvanda foreldra en það er grafalvarlegt að börnum geti verið sagt upp þjónustu vegna þess. Vanskilamerking var á 15 umsóknum um leikskólavist, þ.e. nýjum umsóknum og flutningsumsóknum, af þeim eru 6 börn á leikskólaaldri sem voru komin með boð um leikskólavistun þar sem greiðandi var í vanskilum og börnin gátu ekki hafið vistun nema búið væri að gera upp skuld eða semja um hana. Vanskil voru skráð hjá 58 greiðendum vegna skráninga barna í sumarfrístundanámskeið sem hefst í júní. Til að börnin geti mætt í sumarfrístundanámskeið verður að vera búið að greiða skuld eða semja um hana. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að börn verði ekki af þjónustu vegna fjárhagserfiðleika foreldra. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að hugsa til þess að smáar sem stórar skuldir fólks sem á ekki mikið milli handanna séu sendar í innheimtu hjá lögfræðifyrirtækjum. Á vanskilalista leikskólanna eru 63 mál í löginnheimtu og 428 gjalddaga í svokallaðri milliinnheimtu. Á vanskilalista frístundaheimilanna eru 16 mál í löginnheimtu og 736 gjalddaga í milliinnheimtu. Þetta þýðir að viðkomandi getur ekki fengið þjónustu sé hann ekki þá þegar með þjónustu. Sé hann í þjónustu er honum meinuð hún ef liðnir eru 110 dagar eða meira frá gjalddaga skuldar. Hér erum við að tala um börn sem eru þjónustuþegar. Börnum fátækra foreldra er þannig eins konar refsað fyrir fátækt foreldra sinna. Þetta er ólíðandi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að ekki eigi að meina börnum þjónustu þótt foreldrar geti ekki greitt fyrir hana. Það leikur sér engin að því að skulda og með því að setja skuldina í innheimtu lögfræðinga verður enn erfiðara að greiða hana.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 12. júní 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um lóðamörk og stækkun lóða, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2023. MSS23020015

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 27. mars 2023, við framhaldsfyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag vegna innheimtu hjá B-hluta fyrirtækjum borgarinnar, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023. MSS22080174

    Fylgigögn

  19. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um minnisblað borgarlögmanns varðandi gjaldtöku í bílastæðahúsum, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022. Einnig lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 27. mars 2023. MSS22070132
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að minnisblað borgarlögmanns, þar sem fram kemur sú niðurstaða hans að Bílastæðasjóði hafi verið óheimilt að taka gjald af handhöfum P-korta, verði gert opinbert almenningi. Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum. Það er aldrei góður bragur á því þegar gögnum er haldið leyndum hjá borginni og er þá ekki átt við gögn sem fela í sér trúnaðarupplýsingar um einstaklinga eða viðkvæma fjármálaupplýsingar. Síðasti og þessi meirihluti hefur í orði lagt áherslu á gegnsæi en þarf einnig að gera það á borði. Kannski var minnisblaðinu haldið leyndu vegna afgerandi afstöðu borgarlögmanns í málinu um að óheimilt sé að taka gjald af öryrkjum með stæðiskort þegar ekki á að gera það. Þannig var búið að takmarka þau réttindi sem handhafar stæðiskorta njóta. Málið hefur verið leiðrétt en þó ekki afturvirkt.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðhorfskönnun í Laugardal um þjóðarhöll, sbr. 36. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023. MSS23050069
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg kanni viðhorf meðal íbúa og skólasamfélagsins í Laugardal til Þjóðarhallar. Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum Áhyggjur eru af því íþróttafélögin og skólarnir verða áfram víkjandi notendur húsanna sem er óásættanlegt fyrir samfélagið í Laugardal þegar Þjóðarhöll er risin í Laugardal. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að foreldrar og börn fái rödd í þessu máli. Það mun verða þeim mikið áfall ef sérsambönd og útleiga verði í forgangi í aðstöðunni en börnin í Laugadal sett aftar í forgangsröðuninni. Búið er að lofa ítrekað að aðstaðan fyrir íþróttafélög og skólana í Laugardal verði færð í ásættanlegt horf til framtíðar. Íþróttafélögin hafa sama og ekkert fengið að koma að undirbúningsvinnunni, aðeins fengið stutt samtal við undirnefnd framkvæmdanefndarinnar (líklega kölluð ráðgjafanefnd í svarinu). Forsvarsfólk íþróttafélaganna virðist vera úti í kuldanum í þessari vinnu þótt öðru sé haldið fram. Kalla þarf fram viðhorf íbúa, foreldra og barnanna í Laugardal áður en lengra er haldið í skipulagningu á notkun. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað frá enda málið í skýru ferli til að koma til móts við þarfagreiningu þar sem haft var mikið samráð við íþróttafélögin í hverfinu. Haft verður samráð við íbúa í kjölfarið á réttu stigi ferilsins þegar allar upplýsingar liggja fyrir. Þá er kominn grundvöllur fyrir upplýst samtal og samráð um verkefnið. Rétt er að nefna að við vinnslu nýrrar íþróttastefnu Reykjavíkur til ársins 2030 var haft víðtækt samráð við hagaðila og stefnan sjálf fór í opið samráðsferli. Í kjölfar var ráðiðst í vinnu við forgangsröðun íþróttamannvirkja þar sem við inniaðstaða í Laugardal raðaðist í 2. sæti. Sú forgangsröðun var sameiginleg einróma niðurstaða Reykjavíkurborgar og íþróttahreyfingarinnar í borginni.

    Fylgigögn

  21. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í stýrihópi um Evrópusamstarf um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030 í stað Hildar Björnsdóttur. 
    Samþykkt. MSS21120238

  22. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 8. júní 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. júní 2023. MSS23010012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst það alltaf jafn hjákátlegt að lesa greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við afgreiðslu umsóknar skóla um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólann. Að þessu sinni kemur umsókn frá Brúarskóla. Skilyrðin fyrir stuttum heimsóknum hunda í skólann eru ævintýraleg. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan þrifin hátt og lágt eftir heimsóknina og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Heilbrigðiseftirlitið ætti að beita sér fyrir breyttri reglugerð og í það minnsta endurskoða orðalag sitt í greinargerð sem þessari. Öll vitum við hvað hundar gera mikið fyrir mannfólkið og ekki síst börnin. 

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. júní 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 7. júní 2023. MSS23010028

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. júní 2023. MSS23010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur heilshugar undir bókun íbúaráðs Grafarvogs vegna nýs flokkunarkerfis. Bókunin lítur m.a. að aðgengi að ólíkum sorptunnum sem auðveldar íbúum Grafarvogs að flokka heima hjá sér. Þannig þarf það að vera í öllum hverfum, gott aðgengi. Flokki fólksins er einnig umhugað að öllum sé gert kleift að flokka og koma sorpi í réttar tunnur án tillits til líkamlegs atgervis. Finna þarf leiðir og fjarlægja hindranir þar sem þær eru. Tekið er undir mikilvægi gagnkvæms trausts í þessu sambandi milli íbúa og borgaryfirvalda. Eins og segir í bókuninni: „Eftir að innleiðingarferli lýkur verða íbúar að geta treyst því að allt ferlið sé skipulagt og unnið samkvæmt gildandi lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi 1. janúar 2023.“

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 6. júní 2023. MSS23010032

    Fylgigögn

  28. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 5. og 19. maí 2023. MSS23010015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 5. maí:

    Miklar áhyggjur eru af þessum málum í ljósi vaxandi húsnæðisskorts í borginni. Fyrir liggja umsagnir SHS, ASÍ og Grímsnes- og Grafningshrepps um tillögur starfshóps um úrbætur á brunavörnum í atvinnuhúsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Tekið er undir fjölmargt í athugasemdum s.s. að leita þurfi leiða til að takmarka óeðlilega fjöldaskráningu í húsnæði með eða án heimildar eigenda. Formfesta þarf mögulega búsetu í atvinnuhúsnæði eins og segir í umsögn SHS. Einnig að hægt sé að skrá tímabundið aðsetur í atvinnuhúsnæði en núverandi löggjöf býður aðeins upp á að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði eða vera ótilgreindur í hús í sveitarfélagi. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þessar umsagnir og alvarleg staða þessara mála verði til þess að breytingar verði á reglum um skráningu lögheimilis. Fyrir ári bókaði fulltrúi Flokks fólksins í tengslum við skýrslu starfshóps á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ASÍ og SHS sem vann að kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir formerkjum átaksins „Örugg búseta fyrir alla“. Í henni kom fram að 1.868 einstaklingar bjuggu þá í atvinnuhúsnæði og þar af voru nítján börn. Áhyggjur beinast að því að aðeins helmingur bjó í húsnæði með ásættanlegum brunavörnum.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. júní 2023. MSS23010011
    11. liður fundargerðarinnar er samþykktur. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins spurði um hvort fylgst sé með aksturslagi strætóbílstjóra. Spurt var vegna þess að „farþegar“ hafa haft samband og sagt frá tilfellum glæfraaksturs sem lán var að olli ekki meiðslum farþega. Fram kemur í svari að í grunn- og nýliðaþjálfun vagnstjóra sé aksturslag og mikilvægi þjónustulundar ítarlega rætt við vagnstjóra. Flestir vagnstjórar sýna farþegum án efa kurteisi og þjónustulund en komi hins vegar kvörtun þarf Strætó að bregðast strax við og setja sig í samband við hlutaðeiganda. Ef fólk er hunsað með kvörtun leita mál gjarnan á samfélagsmiðla og í fréttir sem verður til þess að öll stéttin verður kannski dæmd. Spurt var einnig um tölfræði kvartana. Leitt er að sjá að fjöldi kvartana vegna aksturslags hefur aukist frá því fyrir COVID. Árið 2018 voru þær 317 en árið 2022 voru þær komnar í 352. Kvörtunum vegna framkomu hefur fjölgað mikið en árið 2918 voru þær 321 en árið 2022 hafði þeim fjölgað í 560. Hér er sterk vísbending um að eitthvað sé ekki í lagi.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. MSS23050183

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23060006

    Fylgigögn

  32. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um hvort tunnuskatturinn svokallaði þ.e. 15 metra gjaldið verði áfram við lýði eftir að nýtt fyrirkomulag sorphirðu tekur gildi. Ef svo er þá er óskað rökstuðnings fyrir því. MSS23060094

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  33. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óljóst er af umræðunni um Keldnaland hvort Reykjavíkurborg eða Betri samgöngur fari með skipulagsvald á svæðinu. Með hliðsjón af því óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir skriflegum svörum um hvort Reykjavíkurborg hyggst útvista skipulagsvaldinu sínu til Betri samgangna og ef svo er hvernig verði staðið að skipulagsferlinu? MSS23060095

  34. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nú segir framkvæmdastjóri Betri samgangna í viðtali við Morgunblaðið að þeir ætli sér að fá helmingi meira út úr byggingarréttargjaldinu á Keldnalandi en til stóð í upphafi. Það var metið á 15 milljarða í upphafi en nú hyggjast Betri samgöngur hámarka arðsemi af lóðasölu þannig að a.m.k. 30 milljarða hagnaður gæti verið af landinu. Það mun leiða til hærra íbúðaverðs á svæði sem ætlað var til uppbyggingar hagkvæms húsnæðis sem sárlega er skortur á í borgarlandinu. Í lífskjarasamningunum 2019 var þetta eitt af megináhersluatriðunum. Óskað er eftir upplýsingum um hversu mikið magn af hagkvæmu húsnæði var lofað á Keldnasvæðinu í tengslum við lífskjarasamningana svokölluðu. MSS23060096

  35. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um kostnað vegna sérfræðiráðgjafar EFLU vegna skýrslu stýrihóps um endurskoðun á vetrarþjónustu.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. USK22090079

  36. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um þær lóðir sem eru til reiðu hjá Reykjavíkurborg fyrir einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús og hvar þær eru í borgarlandinu. Óskað er eftir að svarið liggi fyrir á næsta reglulega fundi borgarráðs. MSS23060097

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  37. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að fjölga sumarstörfum fyrir ungmenni. Undanfarin tvö sumur hefur borgin boðið upp á störf fyrir 17 ára og eldri og er lagt til að slíkt verði einnig gert í ár. Á síðasta ári var áætlaður heildarkostnaður vegna ráðninga í 200 störf í sex vikur áætlaður á 127 milljónir króna. MSS23060092

    Frestað.

Fundi slitið kl. 13:31

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Dóra Björt Guðjónsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Marta Guðjónsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs frá 15. júní 2023 - prentvæn útgáfa