Borgarráð - Fundur nr. 4663

Ár 2000, þriðjudaginn 12. desember var haldinn 4663. fundur
borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl.
12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra Hrannar Björn Arnarsson,
Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir,
Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 6. desember.

2. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 4. desember.

3. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 1. desember.

4. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 6. desember.

5. Lögð fram fundargerð samstarfsráðs Kjalarness frá 4. desember.

6. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6.
desember.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 11.
desember.

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 30.
nóvember.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um
afgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál.

10. Lagt fram bréf umhverfisráðneytis frá 11. þ.m. ásamt úrskurði
ráðuneytisins vegna kæru íbúa við Lækjarhjalla í Kópavogi vegna
mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut við Mjódd.

11. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í
dag, varðandi leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn Hús
málarans, Bankastræti 7a.
Borgarráð samþykkir umsögnina.

12. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í
dag, varðandi leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn Keltneska
krossinn, Hverfisgötu 26.
Borgarráð samþykkir umsögnina.

13. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 7.
þ.m. um stofnstyrk til einkarekins leikskóla að Bræðraborgarstíg 1.
Samþykkt.

14. Lagðir fram dómar Hæstarétttar nr. 208/2000 og 209/2000.

15. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 11. þ.m. varðandi kaup á
eignarhluta í fasteigninni Borgartúni 1.
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf lögreglustjóra frá 6. þ.m. varðandi ákvarðanir um
hámarkshraða á nokkrum götum í Reykjavík.
Vísað til samgöngunefndar.

17. Lagt fram bréf stjórnar veitustofnana frá 6. þ.m., sbr. samþykkt
stjórnarinnar 4. s.m. um að Orkuveita Reykjavíkur nýti forkaupsrétt
vegna aukningar hlutafjár hjá Línu.Neti hf.
Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla ákvörðun meirihluta
borgarráðs að auka hlutafé Orkuveitu Reykjavíkur í Línu.Net hf. með
greiðslu rétt um 100 mkr. viðbótarframlags til fyrirtækisins. Það var
almennur skilningur þegar Orkuveita Reykjavíkur stofnaði Línu.Net hf.
með tvöhundruð milljón króna framlagi að ekki yrði um
viðbótargreiðslur að ræða af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur heldur yrði
staðið þannig að verki að nýtt fjármagn kæmi frá aðilum á markaði. Sú
hefur ekki orðið raunin og nú neyðist Orkuveitan að setja nýtt
fjármagn inn í fyrirtækið til að treysta greiðslustöðu þess. Með þessari
hlutafjáraukningu er verið að auka greiðslur Orkuveitu Reykjavíkur til
fyrirtækisins um 50% og þar með eru þær orðnar 300 mkr.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Frá stofnun Línu.Nets ehf. hefur verðmæti fyrirtækisins ríflega tífaldast
og sannað þannig mikilvægi sitt á liðnum árum. Vegna mikilla
fjárfestinga á næstunni og útrásar á markaði er talið mikilvægt að auka
hlutafé fyrirtækisins um 100 milljónir að nafnverði, þar sem hluthöfum
væri boðið um 15 mkr. af þeirri aukningu. Á þessum tímapunkti er
talið mikilvægt að Orkuveita Reykjavíkur nýti sér forkaupsrétt að
hlutafé að nafnverði 9.5 mkr. og eigi þannig áfram meirihluta í
fyrirtækinu, hvað sem síðar verður. Óhætt er að fullyrða að þeir
fjármunir sem Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt til Línu.Net hf. hafa
margfalt skilað sér í verðmæti fyrirtækisins, bættri þjónustu og lægri
verðum fyrir Reykvíkinga og er engin ástæða til að ætla að breyting
verði þar á.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:

Engin rök hafa verið færð fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur haldi
meirihluta í Línu.Net hf. enda er þátttaka borgarinnar í fyrirtækinu
hreinlega andstæð hlutverki sveitarfélags. Ekki hefur reynt á
raunverulegt gengi hlutabréfa í fyrirtækinu og því betra að bíða með að
hrósa happi vegna þess. Nú er ágætt tækifæri til þess að láta reyna á
gengi fyrirtækisins á hlutabréfamarkaði.

18. Lagt fram bréf stjórnar veitustofnana frá 11 þ.m., sbr. samþykkt
stjórnarinnar 4. s.m. um verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur.
Vísað til borgarstjórnar.

19. Lagt fram bréf framtalsnefndar, dags. í desember 2000, varðandi
fjárhæðir til viðmiðunar vegna lækkunar fasteignaskatts og
holræsagjalds elli- og örorkulífseyrisþega árið 2001.
Frestað.

20. Lagður fram að nýju 16. liður fundargerðar stjórnar
Innkaupastofnunar frá 4. þ.m. og samningur við Fornleifafræðistofnun
Íslands varðandi fornleifauppgröft við Aðalstræti, sbr 40. lið
fundargerðar borgarráðs frá 5. þ.m.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi
tillögu:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að þeim þremur aðilum
sem tóku þátt í forvali vegna fornleifauppgröftar við Aðalstræti og
Túngötu verði gefinn kostur á að taka þátt í lokuðu útboði vegna
þessa verkefnis. Heildarkostnaður er áætlaður u.þ.b. 50 mkr.

Tillagan felld með 4 atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Það er í verkahring stjórnar Innkaupastofnunar að velja þá
aðferðarfræði sem viðhöfð er við kaup á þjónustu af þessu tagi. Það
var mat stjórnarinnar að einungis einn aðili hefði þann mannafla og
burði sem þyrfti til að vinna verkið innan þeirra þröngu tímamarka sem
því eru sett. Á það sjónarmið er fallist en tekið skal fram að í því felst
enginn dómur um faglega hæfni annarra sem gáfu sig fram til verksins.

21. Lagt fram bréf verkefnisstjórnar Menningarnætur, ódags.,
varðandi tímasetningu vetrarhátíðar í Reykjavík.
Borgarráð samþykkir að hátíðin verði haldin í febrúar 2002.

- Kl. 14.40 vék Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Helgi
Hjörvar tók þar sæti.

22. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. í dag, ásamt samningi við
stjórn Leikfélags Reykjavíkur um fjármál, eignarhluta félagsins í
Borgarleikhúsinu og framtíðarrekstur.
Frestað.

23. Lagðar fram að nýju tillögur sérfræðihóps frá 5. þ.m. til
undirbúnings almennrar atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu
Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir 1. og 2. lið í framkomnum tillögum
"sérfræðihóps til undirbúnings almennrar atkvæðagreiðslu um
framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar"
þ.e. að stefnt verði að því að atkvæðagreiðsla fari fram 3. febrúar
2001 og að skipuð verði sérstök kjörstjórn til að annast framkvæmd
atkvæðagreiðslunnar.

Borgarráð samþykkir ennfremur önnur atriði í tillögum hópsins í öllum
meginatriðum en gerir þó þann áskilnað varðandi 6. lið tillagnanna að
þeir kostir sem greidd verði atkvæði um komi til sérstakrar skoðunar
þegar skýrsla hópsins liggur endanlega fyrir sem og niðurstaða úr þeirri
vinnu sem unnin hefur verið á vegum samvinnunefndar um
svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Þróunarsviði
Reykjavíkurborgar verði falið að annast frekari útfærslu, undirbúning
og skipulagningu undir stjórn stýrihóps sem skipaður verði formanni
sérfræðihópsins, Stefáni Ólafssyni, aðstoðarkonu borgarstjóra,
Kristínu A. Árnadóttur, borgarritara Helgu Jónsdóttur og Jóni
Björnssyni, framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs.
Borgarverkfræðingsembættið, Borgarskipulag og aðrir veiti aðstoð
eftir því sem þörf krefur við undirbúning og framkvæmd
atkvæðagreiðslunnar.

Samþykkt með 4 samhlj. atkv.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá með tilvísun til bókunar
borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi borgarstjórnar 16. september
s.l.

24. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Yfirkjörstjórn starfar skv. lögum nr. 5/1998 um kosningar til
sveitarstjórna, eftir því sem við á, og sér um undirbúning og
framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Hún gerir tillögur til borgarráðs um
frávik frá kosningalögum, s.s. um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og
um rafræna kosningu, verði um slíkt að ræða að einhverju eða öllu
leyti.

Lagt er til að yfirkjörstjórn skipi:

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri borgarstjórnar
Eygló Halldórsdóttir, dómsmálaráðuneyti
Eiríkur Svavarsson, fulltrúi borgarlögmanns

Til vara:

Hjörtur Aðalsteinsson, héraðsdómari
Fjóla Pétursdóttir, lögfræðingur

Samþykkt.

25. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra þróunar- og
fjölskyldusviðs frá 4. þ.m. um húsdýrahald í Viðey, ásamt
fylgiskjölum. Jafnframt lögð fram eftirtalin gögn:
Bréf framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs, dags. í dag.
Umsögn borgarlögmanns, dags. í dag. Umsögn staðarhaldara í Viðey,
dags. 11. þ.m. Umsögn borgarminjavarðar, dags. 11. s.m.
Frestað.

26. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m. varðandi undanþágu
frá bílastæðareglum vegna Skúlagötu 17.
Samþykkt.

- Kl. 15.15 tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir sæti á fundinum og Helgi
Hjörvar vék af fundi.
- Kl. 15.40 viku Sigrún Magnúsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vihjálmsson af
fundi.

27. Lagt fram bréf Borgarskipulags, dags. í dag, sbr. samþykkt
skipulags- og byggingarnefndar 29. f.m. varðandi skipulagshugmyndir
Skuggahverfis.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi
tillögu:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gera að tillögu sinni að
fyrirliggjandi tillaga deiliskipulagshöfunda Skuggahverfis verði sendar
til kynningar þannig að byggingar við Skúlagötu skv. tillögum verði
ekki lækkaðar.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Ég legg til að tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks verði vísað frá
enda kom engin breytingartillaga fram í fagnefndinni, skipulags- og
byggingarnefnd, við afgreiðslu málsins þar, en bæði Inga Jóna
Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson eiga sæti þar og hefðu átt að
undirbúa málið á þeim vettvangi.

Frávísunartillagan samþykkt með 3 atkv. gegn 2.
Tillaga skipulags- og byggingarnefndar samþykkt með 3. atkv. gegn 2.

28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi
tillögu:

Borgarráð samþykkir að hefja nú þegar undirbúning að sölu allra
hlutabréfa Orkuveitu Reykjavíkur í Línu.Net hf.

Borgarritara og borgarlögmanni er falið að skila tillögum um meðferð
málsins, söluaðferðir og tímasetningu, sem lagðar verði fyrir borgarráð
eigi síðar en 23. janúar 2001.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Frestað.

Fundi slitið kl. 15.50.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Hrannar Björn Arnarsson Inga Jóna Þórðardóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson