Borgarráð - Fundur nr. 4655

Borgarráð

Ár 2000, þriðjudaginn. 31. október, var haldinn 4655. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð Bláfjallanefndar frá 26. október.

2. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 25. október.

3. Lagðar fram fundargerðir hafnarstjórnar frá 23. og 30. október.

4. Lögð fram fundargerð hverfisnefndar Grafarvogs frá 23. október.

5. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 25. október.

6. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 25. október.

7. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 25. október.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 30. október.

9. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 19. og 26. október.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um afgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál.

11. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um áfengismál nr. 8/2000 í máli veitingastaðarins Grand Rokk vegna áminningar, dags. 17. þ.m. Jafnframt lagt fram minnisblað fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 30. þ.m. varðandi málið. Borgarráð samþykkir að fela skrifstofu borgarstjórnar að taka upp viðræður við dómsmálaráðuneytið um þessi mál og þá hvort efni séu til endurskoðunar ákvæða áfengislaga og reglugerðar um sölu og veitingar áfengis.

12. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 27. þ.m. varðandi umsókn um staðsetningu lyfjabúðar að Austurstræti 12. Borgarráð samþykkir umsögnina.

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. vegna lóðarstækkunar að Frostaskjóli 35. Samþykkt.

14. Lögð fram ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur 1999.

15. Lagt fram bréf fulltrúa borgarstjórnar frá 30. þ.m. varðandi breytingar á reglugerð fyrir holræsagjald í Reykjavík ásamt drögum að breyttri reglugerð dags. s.d. Jafnframt lagt fram yfirlit gatnamálastjóra um kostnað vegna holræsa í Reykjavík 1995-2000, dags. s.d. Breytingum á reglugerð vísað til borgarstjórnar.

16. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 30. þ.m., þar sem lagt er til að neytt verði forkaupsréttar að landspildum nr. 7 og 8 á Skrauthólum, Kjalarnesi. Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 30. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi borgarráðs 26. f.m. um innkaup og útboð hlutafélaga í eigu borgarinnar.

18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Húsnæðisskrifstofu frá 27. þ.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 25. s.m. um breytingu á starfsreglum vegna viðbótarlána. Samþykkt.

19. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. þ.m. varðandi gerð samnings um málun gatna. Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Vegmerkingar ehf.

20. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. þ.m. um gerð samnings um uppsetningu og tengingu tækja og gufustofns vegna stækkunar rafstöðvar á Nesjavöllum. Borgarráð samþykkir að tekið verði tilboði Vélsmiðjunnar Gils ehf. og Vélsmiðjunnar Hörku ehf.

21. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. þ.m. um tilboð í lagningu Njarðargötu og Sturlugötu. Borgarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Loftorku Reykjavíkur ehf.

22. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. þ.m. um tilboð í regnvatnslagnir í Fossvogsdal. Borgarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Háfells ehf.

23. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. þ.m. um tilboð í lengingu Vogabakka. Borgarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Ísar ehf.

24. Lögð fram ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur 1999.

25. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 24. þ.m. ásamt yfirliti yfir rýmisþörf í nýjum höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur.

26. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 30. þ.m. varðandi samkomulag við ríkið vegna sölu eigna og ýmiss konar uppgjörsmála. Borgarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti. Inga Jóna Þórðardóttir vék af fundi við meðferð málsins.

27. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til borgarendurskoðanda frá 26. þ.m. varðandi kostnað vegna nýbygginga á Kringlusvæði og innréttinga í Hafnarhúsi. Jafnframt lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til eignarhaldsfélags Kringlunnar hf. varðandi kostnað vegna nýbyggingar. Þá er lögð fram greinargerð forstöðumanns byggingadeildar, borgarlögmanns, borgarverkfræðings og yfirtæknifræðings á byggingadeild um kostnað við Kringluna, Borgarleikhús, vegna tengibyggingar, bókasafns, bílastæða og torgs, dags. í dag.

Borgarráðsfulltrúar Sjálftæðisflokksins óskuðu bókað:

Viðbrögð borgarstjóra við þeirri framúrkeyrslu á byggingarframkvæmdum menningarmála sýna svo ekki verður um villst að eftirliti borgarstjóra með framkvæmdum og fjármálum er verulega áfátt. Borgarstjóri lætur að því liggja að upplýsingar í 9 mánaða uppgjöri hafi komið henni á óvart. Borgarstjóri getur ekki vikið sér undan ábyrgð í þessu máli. Kostnaður við endurbyggingu Hafnarhússins fyrir Listasafn Reykjavíkur verður væntanlega 215 mkr. hærri en upphafleg áætlun framreiknuð og verður þá komin í um 790 mkr. Þá á eftir að taka tillit til kaupa á húseigninni sem metin var á 101 mkr. árið 1994 þegar makaskiptasamningur var gerður. Hluti skýringa á framúrkeyrslunni er að hönnun var á byrjunarstigi þegar framkvæmdir hófust. Þetta vekur sérstaka athygli þegar höfð eru í huga orð borgarstjóra á árum áður um að hönnun yrði að ljúka að mestu áður en ráðist yrði í verk. Rétt er að rifja upp að þegar áætlanir um endurbyggingu Hafnarhússins lágu fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 1998 bentu sjálfstæðismenn á að kostnaðaráætlun væri ekki raunhæf. Það hefur nú komið á daginn. Auk þess er rétt að benda á, að sú krafa sem höfð var uppi af hálfu borgarstjóra fyrir kosningar 1998 að húsið yrði þá opnað til bráðabirgða hefur leitt til hærri byggingarkostnaðar. Þá eru ekki innifaldar í framkvæmdakostnaði þær tæpu tólf milljónir króna, sem opnun hússins fyrir Listahátíð í maí 1998 kostaði aukalega.

Hvað varðar framúrkeyrslu við framkvæmdakostnað við Kringlan-Borgarleikhús-tengibygging er ljóst að kostnaður hefur farið langt fram úr eðlilegum mörkum. Af öllu framansögðu er ljóst að stjórnsýsla R-listans í þessum málum almennt hefur verið afar ómarkviss. Skýringa er m.a. að leita í því að borgarstjóri virðist ekki fylgjast nægilega vel með málum.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Bókun sjálfstæðismanna ber þess vott að löngun þeirra til að koma höggi á borgarstjóra verði sanngirninni yfirsterkari. Þann 28. janúar 1997 var skipuð sérstök byggingarnefnd um Hafnarhúsið og Safnahúsið, Tryggvagötu 15. Nefndinni var falið það verkefni "að hafa umsjón með forsögn, hönnun og byggingarframkvæmdum" við þessi tvö hús. Tilnefndi R-listi tvo fulltrúa í nefndina og D-listi einn. Báðum aðilum var því gert kleift að fylgjast grannt með framkvæmdum allt frá fyrstu tíð. Í október 1997 samþykkti borgarráð jafnframt "að fela byggingadeild borgarverkfræðings í samvinnu við byggingarnefnd hússins að viðhafa stranga kostnaðargát við framkvæmdina". Svo virðist sem það hafi gengið nokkuð vel eftir þar til á lokaspretti framkvæmda á þessu ári. Fram hefur komið að hvorki byggingadeild né byggingarnefnd var ljóst hvert stefndi fyrr en komið var fram á mitt þetta ár og þar af leiðandi var hvorki borgarstjóra né borgarráði gerð grein fyrir því fyrr en við 6 mánaða uppgjör í júlí s.l. Hvað varðar nýtingu hafnarhússins fyrir Errósýningu í tengslum við Listahátíð 1998 þá var það ekki gert að sérstakri "kröfu" borgarstjóra heldur var einfaldlega talið að það væri vel til fundið að leggja húsnæðið undir þá sýningu í ljósi þess að Hafnarhúsið ætti að vera framtíðarheimili fyrir listaverkagjöf Errós til Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri hefur þegar óskað eftir því við borgarendurskoðun að farið verði yfir alla þætti málsins til að varpa ljósi á hvað veldur þeim umframkostnaði sem borgaryfirvöld standa nú andspænis. Þetta er gert vegna þess að ólíkt því sem áður var þá sætta borgaryfirvöld sig ekki við að farið sé verulega framúr fjárhagsáætlunum, hvort heldur sem um er að ræða rekstur eða framkvæmdir og til að koma í veg fyrir slíkt hafa t.d. allir verkferlar við fjárhagsáætlun verið endurskoðaðir sem skilar sér í því að áætlanir hafa aldrei haldið betur en s.l. 2 -3 ár. Það er hins vegar mikilvægt að slaka hvergi á í þeim efnum og fara sérstaklega yfir verkferla í þeim tveimur framkvæmdum sem hér hafa verið til umfjöllunar.

28. Lögð fram tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um byggð á Kjalarnesi, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. þ.m.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi breytingartillögu.

Tillagan orðist svo:

Borgarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarnefnd í samvinnu við samstarfsráð Kjalarness að vinna að undirbúningi að nýrri gerð íbúðahverfis á Kjalarnesi sem taki mið af staðháttum og því rými sem Kjalarnes hefur upp á að bjóða og þeirri framtíðarsýn sem fram kemur í tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur frá 1997 um vistvæna byggð á Kjalarnesi.

Greinargerð:

Í tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur sem unnið var í aðdraganda sameiningu Kjalarness og Reykjavíkur 1997 er horft til framtíðaruppbyggingar Kjalarness. Þar er gert ráð fyrir að byggð á Kjalarnesi verði m.a. þróuð í takt við nýjar hugmyndir um vistvæna byggð. "Með vistvænni byggð er m.a. átt við að horft sé til orkunýtingar, notkunar byggingarefna, hvernig staðið sé að sorpmálum og umferðarmálum, hver séu tengsl manns við náttúru og land, og hvernig sé háttað samskiptum manna á meðal, menntun og upplýsingamiðlun," eins og segir í tillögu samstarfsnefndarinnar. Til dæmis mætti þróa alveg nýja gerð íbúðahverfa, sem tæki mið af staðháttum og því rými sem þar er. Þannig væri hægt að skipuleggja íbúðahverfi, sem legðu mikla áherslu á tengsl við umhverfi og náttúru, þar sem lóðir væru stærri enn almennt gerist og möguleikar til ræktunar og dýrahalds væru til staðar. Þá kemur m.a. fram í tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur sú framtíðarsýn að í skólastarfi á Kjalarnesi verði lögð sérstök áhersla á umhverfisvernd og sjálfbæra þróun. Þess má geta að þegar hefur verið samþykkt að nýr leikskóli á Kjalarnesi verði ,,grænn leikskóli" eða umhverfisvænn leikskóli.

Tillagan samþykkt þannig breytt.

29. Lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. í dag, varðandi fjárframlög sveitarfélaga sem standa að svæðisskipulagi, sbr. endurskoðaða kostnaðaráætlun. Samþykkt.

30. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Heilbrigðiseftirlits frá 23. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar 19. s.m. um breytta gjaldskrá fyrir hundahald í Reykjavík. Vísað til borgarstjórnar.

31. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 30. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 25. s.m. um aðalskipulagsbreytingu vegna staðsetningar knattspyrnuhúss við Fossaleyni. Samþykkt með 4 samhlj. atkv. Sjálfstæðismenn sátu hjá og óskuðu bókað að þeir vísi til fyrri bókunnar sinnar í skipulags- og umferðarnefnd.

32. Lagt fram að nýju bréf skipulagsstjóra frá 30. maí s.l., sbr.samþykkt skipulags- og umferðarnefndar 29. s.m. um stækkun lóðar nr. 6 við Skógarhlíð og bílastæði. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 27. þ.m. um málið. Þá er lagt fram bréf starfsmanna embættis sýslumannsins í Reykjavík varðandi bílastæði. Borgarráð samþykkir afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar.

33. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að heimila borgarminjaverði að hefja undirbúning fornleifarannsókna á lóðunum Aðalstræti 14, 16 og 18 og Túngötu 2-6 með það að markmiði að fornleifarannsóknir tefji ekki fyrirhugaða uppbyggingu á lóðunum. Með fyrirvara um að samkomulag um uppbygginguna náist milli Minjaverndar hf. og Þyrpingar hf. er heimilað að ráðstafa allt að 3 mkr. af ófyrirséðu, kostnaðarstað 09205, til verkefnisins á þessu ári.

Greinargerð fylgir tillögunni. Samþykkt.

34. Rætt um fjárhagsáætlun 2001.

Fundi slitið kl. 16.45.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Inga Jóna Þórðardóttir Hrannar Björn Arnarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Sigrún Magnúsdóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Steinunn V. Óskarsdóttir