Borgarráð - Fundur nr. 4640

Borgarráð

Ár 2000, þriðjudaginn 25. júlí, var haldinn 4640. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru Sigrún Magnúsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Helgi Pétursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 24. júlí.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar veitustofnana frá 19. júlí.

3. Lagt fram bréf fulltrúa borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál.

4. Lögð fram að nýju áætlun embættis gatnamálastjóra um gatna- og holræsaframkvæmdir.

5. Lagt fram bréf gatnamálastjóra frá 24. þ.m. varðandi fjárveitingu vegna lokunar Álands.

6. Lögð fram svör gatnamálastjóra og garðyrkjustjóra frá 24. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 18. s.m. um eyðingu vargfugls, hreinsun Tjarnarinnar og fóðrun fugla.

Borgarráð samþykkir eftirfarandi:

Borgarráð leggur áherslu á að leitað verði leiða til þess að tryggja jafnvægi fuglalífs Tjarnarinnar. Borgarráð felur embætti borgarverkfræðings, gatnamálastjóra og garðyrkjustjóra, að höfðu samráði við sérfræðinga, framkvæmd málsins.

7. Lagt fram sex mánaða uppgjör á rekstri og framkvæmdum ásamt greinargerð fjármáladeildar um rekstur og framkvæmdir borgarsjóðs 1. janúar 2000 til 30. júní 2000. Jafnframt lögð fram útskrift úr gerðarbók stjórnar veitustofnana frá 19. þ.m. ásamt yfirliti yfir rekstur og sjóðstreymi Orkuveitu Reykjavíkur tímabilið janúar-júní 2000 ásamt breytingu á fjárhagsáætlun pr. 17. júlí 2000. Borgarráð samþykkir með 4 samhlj. atkv. tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun 2000 sem fram koma í greinargerð. Jafnframt samþykkir borgarráð með 7 samhlj. atkv. tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur sem fram koma í lið 5-9 og hugbúnaðarvinnu í lið 14 í skýringum vegna breytinga á fjárhagsáætlun pr. 17. júlí 2000.

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 19. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar veitustofnana s.d. um lagningu hitaveitu í Grímsnesi og Grafningi. Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 19. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar veitustofnana s.d. um undirbúning að stækkun virkjunarinnar á Nesjavöllum í 90 MW rafmagns. Samþykkt.

10. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 24. þ.m. varðandi bráðabirgðaleyfi fyrir staðsetningu olíuþróa neðanjarðar við spenniviðgerðarturn á lóð Rafstöðvarinnar við Rafstöðvarveg nr. 6-14. Vísað til síðari umræðu.

11. Lagt fram yfirlit frá Orkuveitu Reykjavíkur, dags. í dag, yfir laxveiði í Elliðaánum.

12. Lagt fram að nýju bréf skipulagsstjóra f.h. skipulags- og umferðarnefndar 30. mars s.l. ásamt bréfi byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar frá 26. nóvember 1999 og bréfi Íþróttafélags Reykjavíkur, dags. 15. s.m., um hvort heimilt sé að rífa eða flytja íþróttahús félagsins við Túngötu. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs, dags. í dag, ásamt kostnaðaráætlun.

- Kl. 14.25 viku Alfreð Þorsteinsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir af fundi.

Frestað.

13. Lagt fram bréf Laugavegssamtakanna frá 14. þ.m. varðandi framkvæmd við lokun fyrir bílaumferð um miðborgina á laugardögum í sumar. Jafnframt lagt fram minnisblað formanns og framkvæmdastjóra Þróunarfélags miðborgarinnar, dags. í dag. Ennfremur lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra miðborgar, dags. í dag. Borgarráð samþykkir að falla frá þeirri tilraun sem samþykkt var 4. júlí s.l.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Samþykkt borgarráðs 4. júlí sl. um að veita gangandi umferð forgang í miðborginni á laugardögum í júlí og ágúst var gerð að höfðu víðtæku samráði við hagsmunaaðila á svæðinu. Við útfærslu þessarar tilraunar var tekið mið af óskum þeirra og sjónarmiðum og var ákveðið að undanskilja efri hluta Laugavegar. Í minnisblaði framkvæmdastjóra miðborgarstjórnar er gerð grein fyrir fjölmörgum fundum og samráði við hagsmunaaðila á vettvangi Þróunarfélags miðborgarinnar og víðar. Vekja ber athygli á því að í stjórn Þróunarfélags miðborgarinnar sem var hlynnt tilrauninni sitja tveir fulltrúar sem einnig eiga sæti í stjórn Laugavegssamtakanna. Sú umræða sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarið um lokun Laugavegar á laugardögum fyrir bílaumferð og málflutningur talsmanns Laugavegssamtakanna er ekki til þess fallinn að styrkja Laugaveginn sem verslunargötu. Neikvæð umfjöllun vinnur gegn hagsmunum Laugavegar og miðborgarinnar allrar. Í ljósi þessa og með vísan í minnisblöð framkvæmdastjóra miðborgarstjórnar og formanns og framkvæmdastjóra Þróunarfélags miðborgar leggur meirihluti borgarráðs til að fallið verði frá þeirri tilraun sem samþykkt var 4. júlí sl.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson óskuðu bókað:

Lýst er yfir fullum stuðningi og skilningi við aðgerðir hagsmunaaðila á Laugavegi vegna lokunar hluta götunnar og vísað á bug ásökunum borgarráðsfulltrúa R-listans í garð talsmanns Laugavegssamtakanna. Í ljósi reynslunnar er hins vegar sjálfgert að hætta tímabundið við lokunartilraun á Laugavegi. Ef hagsmunaaðilar óska sjálfir eftir slíkum aðgerðum er eðlilegt að borgaryfirvöld verði við slíkum óskum. Á fundi borgarráðs 4. júlí sl. hvöttu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks til góðs samstarfs um þessa framkvæmd og á fundi borgarráðs í síðustu viku bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks að mikilvægt væri að borgaryfirvöld hefðu betra samráð við íbúa og þjónustuaðila á Laugavegssvæðinu um á hvern hátt staðið yrði að framhaldinu. Greinilega var ekki orðið við þessari kröfu sjálfstæðismanna og þrátt fyrir að nær allir hagsmunaaðilar á Laugavegi milli Klapparstígs og Bankastrætis legðust gegn lokun sl. laugardag var því haldið til streitu af hálfu borgaryfirvalda. Málið lenti í algjöru klúðri og uppákoman á Laugaveginum sl. laugardag skrifast á ábyrgð borgaryfirvalda. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hvetja til þess að þessu "hernaðarástandi" linni og eðlilegt og gott samráð eigi sér stað framvegis á milli borgaryfirvalda og hagsmunaðila á svæðinu.

14. Lögð fram umsögn fulltrúa borgarstjórnar, dags. í dag, og umsagnir Gunnars Þorlákssonar frá 24. þ.m. um leyfi til áfengisveitinga fyrir eftirtalda staði:

Ruby Tuesday, Skipholti 19 Grandakaffi, Grandagarði Vínbarinn, Kirkjutorgi 4

Borgarráð samþykkir umsagnirnar.

15. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og umferðarnefndar 10. s.m. um deiliskipulag og breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 að Grafarlæk-Stekkjarmóum og Djúpadal og auglýsingu þar um. Samþykkt.

16. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 24. þ.m. ásamt bréfi lóðarhafa við Maríubaug 13-19 og 21-29 í Grafarholti um tilfærslu byggingarreita á húsunum nr. 21 og 23. Borgarráð samþykkir erindið.

17. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og umferðarnefndar 10. s.m. varðandi Grandaveg 38, breytingu á deiliskipulagi. Samþykkt.

18. Lagt fram bréf Borgarskipulags frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og umferðarnefndar 10. s.m. um endurskoðun deiliskipulags að reit 1.264 og 1.265, Suðurlandsbraut og Ármúla og auglýsingu þar um. Samþykkt.

19. Lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 17. þ.m. varðandi uppsetningu umferðarljósa á fjórum gatnamótum. Jafnframt lögð fram greinargerð, dags. 21. þ.m. og arðsemismat á uppsetningu umferðarljósa árið 2000. Samþykkt.

20. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar um áfengismál frá 18. þ.m. varðandi kæru Mörtu Kristínar Sigurjónsdóttur og Forum ehf. á ákvörðun borgarráðs frá 30. nóvember 1999 um að hafna umsókn um aukinn vínveitingatíma fyrir veitingastaðinn Jóa Risa, Jafnaseli 6.

21. Lagður fram úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 19. þ.m. vegna endurvinnslu álgjalls í Reykjavík eða Þorlákshöfn.

- Kl. 15.30 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

22. Lagt fram minnisblað fulltrúa borgarstjórnar frá 24. þ.m. varðandi takmarkanir á staðsetningu og starfsemi næturklúbba (nektarstaða). Borgarráð samþykkir þá tillögu sem fram kemur í minnisblaðinu.

23. Lögð fram ársskýrsla Vatnsveitu Reykjavíkur 1999.

24. Lagt fram bréf Þórodds Bjarnasonar, ódags., þar sem óskað er eftir leyfi til að staðsetja vinnulyftu á mótum Laugavegs og Rauðarárstígs, en lyftan er hluti af myndlistarsýningunni Besti Hlemmur í heimi. Jafnframt lögð fram umsögn borgarverkfræðings frá 25. s.m. um erindið. Borgarráð samþykkir umsögnina.

25. Lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 21. þ.m., þar sem lagt er til að Þórhallur Einarsson verði lóðarhafi lóðanna nr. 1-3 (ójöfn nr.) við Básbryggju og Naustabryggju nr. 2-4 (jöfn nr.) með sömu skilmálum og gilda gagnvart Björgun ehf. að því er þessar lóðir varðar.

Samþykkt.

26. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

Stjórn Veitustofnana Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 5. júlí s.l. að fela forstjóra að kanna möguleika Orkuveitunnar til að afla viðskiptavinum sínum bestu kjara á margvíslegri vöru og þjónustu. Ennfremur að kanna hvort í sama tilgangi megi beita útboðum til að ná hagkvæmustu kjörum á vöru og þjónustu við viðskiptavini OR, s.s. á sviði fjarskipta og nýta þannig markaðsstöðu og innheimtukerfi OR til að auðvelda nýjum og smærri fyrirtækjum aðgang að markaðnum, eins og segir í tillögunni. Af þessu tilefni er þess óskað að borgarlögmaður veiti svar við eftirfarandi spurningu:

Eru þau nýju viðfangsefni, sem tillagan og greinargerðin gerir ráð fyrir að Orkuveitan sinni, í samræmi við reglugerð fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samkeppnislög?

27. Helgi Pétursson lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að kanna möguleika á því að láta gera átján holu golfvöll í Viðey.

Greinargerð fylgir tillögunni. Samþykkt.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskaði bókað:

Ég leggst ekki gegn því að þessi möguleiki verði athugaður en óska jafnframt eftir því að stofnkostnaður og rekstrargrundvöllur verði kannaður auk áhrifa slíkrar starfsemi á almenna útivist borgarbúa í Viðey.

Fundi slitið kl. 16.00.

Sigrún Magnúsdóttir

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Steinunn V. Óskarsdóttir
Helgi Pétursson