Viðsnúningur umfram áætlanir hjá Reykjavíkurborg

Fjármál

Vesturbær í átt að miðborginni og Furumelur hægra megin við miðja mynd.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2024 gerir ráð fyrir batnandi afkomu A- og B-hluta og að rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað betri árangri en áætlanir gerðu ráð fyrir á yfirstandandi ári.  

Rekstrarumhverfi Reykjavíkurborgar síðastliðin ár hefur einkennst af sviptingum á vinnumarkaði, mikilli eftirspurn eftir þjónustu og þrálátri verðbólgu.  

Aðgerðir sem skila árangri 

Haustið 2022 voru samþykktar aðgerðir í borgarráði til að takast á við halla og áhrif annarra erfiðra skilyrða í ytra umhverfi borgarinnar. Þannig voru fjárfestingaráform lækkuð frá fyrri áætlunum, settar fram samræmdar ráðningarreglur og lögð fram aðgerðaáætlun sem byggð er á fjármálastefnu borgarinnar.  

Rekstrarniðurstaða A-hluta síðustu ár hefur litast af óstöðugleika í efnahagsumhverfinu og vanfjármögnun ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks. Útkomuspá yfirstandandi árs gerir ráð fyrir 10,8 milljarða króna jákvæðum viðsnúningi frá árinu 2022 og að niðurstaðan verði halli sem nemur 4,8 milljörðum króna sem er rúmum milljarði betra en áætlun. Árið 2024 er gert ráð fyrir tæplega 600 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu sem fer síðan batnandi út áætlunartímabilið til samræmis við markmið fjármálastefnu. 

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar, súlurit

Batnandi rekstrarafkomu má meðal annars rekja til árangurs af aðgerðaáætlun borgarinnar til að mæta hallarekstri og öflugum vexti borgarinnar. Í áætlun næsta árs er gætt aðhalds þótt áfram verði passað upp á fulla fjármögnun framlínuþjónustu. Dregið er saman í fjárfestingaáætlun A-hluta borgarinnar en áhersla lögð á viðhald mannvirkja og uppbyggingu innviða í vaxandi borg. 

 

Til að tryggja sjálfbærni til framtíðar er hins vegar mikilvægt að gengið sé frá samningum milli ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks.  

Batnandi afkoma næstu fimm ár 

Fjárhagsáætlun ársins 2024 sem lögð er fyrir borgarstjórn í dag gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta verði jákvæð um 7,6 milljarða króna.  Á árunum 2025-2028 er gert ráð fyrir batnandi afkomu A- og B- hluta. Gert er ráð fyrir að í lok árs 2024 nemi eignir samtals 969 milljörðum og aukist um 58,4 milljarða á árinu. Þá er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 46,8% og hækki um 0,7%. Fjárhags- og fimm ára áætlun gerir ráð fyrir að þriggja ára jafnvægisviðmið sveitarstjórnarlaga verði jákvætt allt áætlunartímabilið. Þá gerir áætlunin ráð fyrir að skuldaviðmið verði yfir viðmiði árin 2024 til 2026, en haldi frá og með árinu 2027. 

Ábyrg forysta 

Reykjavíkurborg er í forystuhlutverki í uppbyggingu þróttmikils samfélags sem höfuðborg Íslands og framsækin og góð þjónusta við íbúa er áfram í forgangi. 

Uppbygging húsnæðis 

Þann 5. janúar 2023 gerðu innviðaráðuneytið fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) með sér samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á tímabilinu 2023-2032 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis. Forgangsröðun fjárfestinga Reykjavíkurborgar miðar að því að undirbúa og gera lóðir byggingarhæfar fyrir uppbyggingu nýrra íbúða til að markmið um húsnæðisuppbyggingu nái fram að ganga. Þá hefur borgin frá árinu 2016 veitt stofnframlög til byggingar 2.123 hagkvæmra íbúða eða um 63% allra íbúða sem úthlutað hefur verið til á þeim vettvangi. 

Velferðarþjónusta 

Mikilvægt er að draga fram stöðuna í málaflokki fatlaðs fólks. Halli í rekstri málaflokksins hefur farið vaxandi á síðustu árum og reyndist vanfjármögnun hans 9,3 milljarðar króna árið 2022. Þessi staða ein og sér hefur mikil áhrif á rekstur borgarinnar og fjárhagslega getu hennar til áframhaldandi þróunar og vaxtar, en auk rekstrarhalla af núverandi þjónustu eru biðlistar eftir búsetuíbúðum og nýjum NPA samningum ófjármagnaðir. Reykjavíkurborg hefur engu að síður sýnt mikið frumkvæði er varðar uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk þrátt fyrir að fjármagn hafi ekki fylgt, en helmingur þeirra sem njóta búsetuúrræða og heyra undir málaflokk fatlaðs fólks býr í Reykjavík, þótt hlutfall Reykjavíkur í tekjum til jöfnunar sé aðeins um 35%.  

Viðhald og endurnýjun fasteigna 

Viðhald fasteigna er eitt af þeim stóru viðfangsefnum sem við blasa, en Reykjavíkurborg hefur sett af stað áætlun til næstu 7 til 10 ára vegna uppsafnaðrar þarfar einkum í grunnskólum og leikskólum. Vandamál vegna rakaskemmda hafa verið viðvarandi síðustu árin og þörfin brýn. Fjárfestingaáætlun borgarinnar ber þess skýr merki.  

Menntamál 

Stefnumörkun Reykjavíkurborgar á sviði leikskólamála er skýr. Í því felst að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með nýjum leikskóladeildum. Verkefnið er viðamikið og fjárfrekt og ber áætlun borgarinnar þess jafnframt skýr merki. Þá er Reykjavíkurborg með metnaðarfulla stefnu í menntamálum þar sem markmiðið er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. 

Loftslagsmál 

B-hluta fyrirtæki borgarinnar skipa stóran sess þegar kemur að því að framfylgja ábyrgri stefnumörkun í loftslagsmálum. Má þar nefna SORPU bs. sem er leiðandi í úrgangsmálum. Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar, GAJU, er liður í ábyrgri stjórn úrgangsmála. Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur undir forystu öflugs starfsfólks og í samvinnu við  vísindafólk í Háskóla Íslands og víðar, þróað aðferðir til að fanga koltvísýring úr andrúmslofti og leiða í berg. Þá gegnir Strætó bs. leiðandi hlutverki á sviði almenningssamgangna og eflingar þeirra ásamt nýrri Borgarlínu. 

Grunnrekstur stöðugur 

Grunnrekstur A- og B-hluta (EBITDA) er sterkur þrátt fyrir óstöðugleika í efnahagsumhverfinu. Áætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að EBITDA nemi 56,1 milljarði króna og að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð sem nemur 7,6 milljörðum króna. 

Afgang ársins 2024 má einkum rekja til Orkuveitu Reykjavíkur sem áætlar að afgangur af rekstri nemi 8,6 milljörðum króna. Árin 2025-2028 er gert ráð fyrir batnandi afkomu A- og B-hluta.

EBITDA og rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B-hluta, súlurit

Tilkynning til Kauphallar Íslands.

Kynning á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024.