„Veggjalist vekur gleði“- Vel á annað hundrað verk í borginni komin á kort
Mannlíf Menning og listir
Veggjalist blómstrar í Reykjavík sem aldrei fyrr. Sífellt fæðast ný verk og við höfum tekið yfir 160 vegglistaverk saman á kort svo auðveldara sé að finna verkin og njóta þeirra.
Veggjalist á sér langa sögu og Reykjavík nútímans er rík af fallegum vegglistaverkum. Þessi fjölbreyttu og spennandi listaverk eru allt í kringum okkur en þau eru misáberandi og leynast jafnvel á óvæntum stöðum; leyndar perlur sem lífga upp á hversdaginn okkar. Veggjalist í borginni hefur verið safnað saman á kort um nokkurt skeið og eru nú rúmlega 160 verk á kortinu. Um er að ræða vegglistaverk utandyra innan borgarmarka Reykjavíkur en vert er að taka fram að listinn er alls ekki tæmandi og kortið er í sífelldri uppfærslu enda er landslag veggjalistarinnar síbreytilegt, verk hverfa og ný bætast við.
Adam Flint Taylor og Natka Klimowicz hafa velt veggjalist mikið fyrir sér og þekkja vel til. Hún er myndlistarkona sem hannar til dæmis plaköt fyrir menningarviðburði og ýmis samfélagsleg málefni en hefur einnig skapað veggjalist, meðal annars í Reykjavík. Adam er fagstjóri í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands og hefur komið að mörgum sýningum og verkefnum sem tengjast list í almannarými. Þau eru sammála um að veggjalist í Reykjavík sé í miklum blóma. „Senan er mjög virk,“ segir Natka. „Oft er þetta sama fólkið eða hóparnir á bakvið verkin en við fáum líka gesti sem skapa verk hér á landi.“
"Verkin geta í raun breytt hverfisanda og skapað nýja stemmningu"
Aðgengilegt og ókeypis en ekki ætlað að endast að eilífu
Segja má að veggjalist í almannarými hafi ákveðna sérstöðu. „Þessi list er til dæmis aðgengileg öllum og ókeypis,“ segir Adam. „Þú þarft ekkert að borga til að fá að njóta veggjalistar og þetta held ég að sé mikilvægt, að fólk hafi tækifæri til að upplifa list sem kostar ekki peninga.“
„Þetta er list sem við njótum í daglega lífinu. Þetta verður hluti af landslagi borgarinnar og hluti af okkar eigin persónulega landslagi því við sjáum þetta alla daga þegar við erum á ferðinni,“ segir Natka. „Annað sem er sérstakt við þessi listaverk er að þau hafa óþekktan líftíma. Þú málar verkið en veist ekki hvenær verður málað yfir það, það verður skemmt eða byggingin rifin, sem dæmi. Þessu er aldrei ætlað að endast að eilífu.“
Adam tekur undir og bætir við. „Snjór getur jafnvel hulið verkið um tíma, regn getur eyðilagt málninguna og svo framvegis.“
Listafólk sem skapar veggjalist hefur líka nefnt sem kost að verkin séu ekki tekin niður á ákveðnum tíma, eins og tíðkast ef verk eru til dæmis hengd upp á listasöfnum eða í galleríum. Sum vegglistaverk lifa jafnvel kynslóð fram af kynslóð, eins og verkið „Flatus lifir“, sem stendur við Esjurætur og hefur gengið í endurnýjun lífdaga með nýjum kynslóðum listafólks.
Verkið "Flatus lifir" er áberandi þegar keyrt er um Vesturlandsveg við Esjurætur. Edda Karólína Ævarsdóttir á þetta verk.
Þau segja að með veggjalist hafi listafólk líka tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi verkanna og jafnvel koma skilaboðum á framfæri. Adam nefnir sem dæmi verk sem Natka gerði í samstarfi við Amnesty International á húsnæði Kaffihúss Vesturbæjar.
Verkið sem Natka gerði með Amnesty á Kaffihús Vesturbæjar.
„Verk geta breytt upplifun okkar á umhverfinu. Ef verk fjallar til dæmis um hælisleitendur þá fær umhverfi þess ákveðinn kraft og ef ég sjálfur er hælisleitandi get ég upplifað öryggistilfinningu í grennd við þetta tiltekna listaverk. Verkin geta í raun breytt hverfisanda og skapað nýja stemmningu,“ segir Adam.
Gaman að sjá eitthvað nýtt og spennandi verða til
Sumum finnst mörkin milli veggjalistar og veggjakrots eða skemmdarverka stundum óljós. Natka segir að því aðgengilegri sem listin sé, því fleiri kunni að meta hana. Hún segir þó sjaldgæft að fólk rugli þessu saman og að sjálf hafi hún aðeins mætt góðvild og jákvæðni þegar hún skapi veggjalist. „Upplifun mín af því að mála í miðbæ Reykjavíkur er til dæmis frábær. Yndislegt fólk kíkti jafnvel á mig alla daga til að sjá hvernig gengi enda hefur fólk gaman af því að sjá verkin fæðast, sjá eitthvað nýtt og spennandi verða til. Þú sérð á bakvið tjöldin á meðan listamaðurinn vinnur vinnuna sína,“ segir hún og nefnir sem dæmi um velvild sem hún hefur mætt að þegar hún skapaði verk í nágrenni Vitabars fékk hún mat frá staðnum á hverjum degi. „Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð en ég veit að sumir vina minna hafa upplifað annars konar viðbrögð og auðvitað mun það alltaf gerast. Það er aldrei hægt að geðjast öllum en almennt held ég að veggjalist veki gleði og ánægju hjá fólki.“
Natka og Adam hafa velt fyrir sér hvort og þá hvernig megi flokka vegglistaverk borgarinnar eftir ólíku innihaldi þeirra. Niðurstaðan er að flokka megi mörg verkanna eftir því hvort þau séu sköpuð fyrir heimafólk til að njóta, eða hvort þeim sé frekar ætlað að höfða til þeirra sem ferðast til Íslands. „Þá eigum við við að sum verkin hafa einhvers konar markaðslega skírskotun, eru ekki endilega auglýsingar en er ætlað að ýta undir ímynd gesta af því hvað og hvernig Ísland er, frekar en að verkin hafi raunverulega tengingu við íslenska sögu eða menningu,“ segir Natka. „Áherslan á að viðhalda íslenskri tungu er mikil en mér finnst eins og minna sé lagt upp úr því að varðveita íslenska menningar- og listahefð. Ég væri til í að sjá fleiri verk með fókus á það sem er þegar til staðar, mér finnst þetta mikilvægt enda segir listin okkur sögu staðarins.“
Þau nefna verk Stefáns Óla (Mottan) á Vitastíg sem dæmi um skemmtilegt verk með beina tengingu við íslenska sögu, en um er að ræða verkið „Þvottahúsið“ sem sýnir þvottakonur sem gengu í heitu laugarnar í Laugardal til að þvo þar þvott. Verkið er unnið eftir gamalli ljósmynd, í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Mörg verk í uppáhaldi
Spurð um uppháhaldsverkin þeirra í borginni stendur ekki á svörum. „Ég bjó á Bergþórugötunni, beint á móti verki sem Natka gerði með Krot og Krass á hús Andrýmis,“ segir Adam. „Það verk er í uppáhaldi hjá mér enda er Andrými staður þar sem öll eru velkomin og verkið, sem sýnir hendur sem fléttast saman, tekur utan um fólkið inni í húsinu.“ Verkið má sjá hér efst í fréttinni.
Adam nefnir einnig verk eftir Arnar Ásgeirsson, við Óðinstorg. „Verkið er fallegt og hjálpar til við að ramma inn þetta skemmtilega samverusvæði utandyra. Um leið gæti það allt eins verið fallegt verk heima í stofu hjá einhverjum,“ segir hann og þau eru sammála um að verkið hafi einnig ákveðna skírskotun í íslenska list fyrri alda.
Verk Arnars Ásgeirssonar við Óðinstorg.
Natka kveðst halda upp á verk eftir Narfa við Veghúsastíg og annað sem stendur við Bjargarstíg, eftir Dabsmyla & Kems.
Verk Qwick (Narfa) við Veghúsastíg.
Verk Dabsmyla og Kems við Bjargarstíg.
„Mörg skemmtileg verk nýta líka vel umhverfi sitt eða arkitektúrinn í kringum sig,“ segir Adam og nefnir sem dæmi verk Söru Riel á Njálsgötu, þar sem op á vegg er nýtt sem upphafspunktur myndverksins.
Verk Söru Riel á Njálsgötu.
Þá nefnir Natka stórt verk af fuglum við Sundahöfn, eftir Arnór Kára og Stefán Óla (Mottan), sem hér hefur áður verið fjallað um. „Það verk kallast svo skemmtilega á við umhverfi sitt. Verkið er litríkt og fíngert en er staðsett í miðju iðnaðarhverfi, mér finnst þetta skemmtilegar andstæður.“
Risastórt verk Arnórs Kára og Stefáns Óla við Sundahöfn.
Loks minnast þau á skemmtileg verk sem staðsett eru í Hamraborg, enda má benda á að gróska hefur verið í veggjalist í Kópavogi.
"Það er aldrei hægt að geðjast öllum en almennt held ég að veggjalist veki gleði og ánægju hjá fólki"
Langar að sjá veggjalist í öllum hverfum
Adam bendir að lokum á að Reykjavík hafi í gegnum söguna skartað mjög litríkum byggingum, til dæmis litsterkum húsum með öðrum sterkum lit á þakinu. „Á sumum svæðum eru mörg verk en í öðrum hverfum nánast engin og ég myndi vilja sjá fjölbreytta veggjalist í anda litríkrar sögu borgarinnar, í öllum hverfum. Við eigum að ýta undir þetta listform og skapa fleiri tækifæri fyrir fólk til að sjá list sem ekki þarf að borga fyrir.“
Eins og áður sagði er vegglistaverkakortið uppfært reglulega enda bætast sífellt við ný listaverk í borginni og önnur hverfa á braut. Ábendingum er tekið fagnandi á netfangið mailto:veggjalist@gmail.com.