„Við gerum þetta fyrir okkur sjálfa… og alla hina!“

Umhverfi Menning og listir

""

Undanfarin ár hefur vegglistaverkum fjölgað mikið í Reykjavík og æ fleiri sækjast eftir því að hafa list af þessu tagi í sínu nánasta umhverfi. Stefán Óli og Arnór Kári eru listamennirnir á bak við ýmis verk í borginni og þeir voru að klára stóra mynd við Sundahöfn.

Vinnuaðstæður Stefáns og Arnórs eru óhefðbundnar. Höfundur þessa viðtals mætti í kjól og með hliðartösku til fundar við þá um miðjan september, til að skoða vegginn sem þeir hugðust glæða lífi.  Um er að ræða hátt í 500 fermetra vegg, sem nær upp í um 45 metra hæð og til að komast að honum þarf að príla upp nokkra stiga, sem verða brattari eftir því sem ofar dregur. Hliðartöskunni var því skellt á bakið, kjóllinn togaður upp… og svo var klifrað. Þegar að sjálfum veggnum var komið tók við vinnulyfta sem hífði listamennina upp í rétta hæð; ekki beint skrifstofuumhverfið sem ritari viðtalsins er vön en afar hressandi. Það má síðan ímynda sér hvernig er að vinna við þessar aðstæður í fjörlegu íslensku haustveðri, þar sem gular viðvaranir kallast á við fagrar hauststillur.

Hluti af starfinu að bjarga sér
Nokkrum vikum síðar hittumst við aftur. Í fyrra sinnið var verkið varla hafið, aðeins komnar dálítlar útlínur og viðmiðunarmyndir sem listamennirnir nota fyrir staðsetningu og stærðarhlutföll. Í seinna skiptið var hins vegar komið litríkt, fullskapað listaverk sem gleður augað langar leiðir. Þeir félagar segja verk á borð við þetta taka um tvær vikur í vinnslu ef veður er alltaf gott og þá er miðað við langa vinnudaga.
„Svo vorum við miklu lengur að hanna vegginn og skipuleggja hann,“ segir Stefán. „Mesta vinnan var að koma öllu á staðinn. Þetta eru oft krefjandi aðstæður og hér var ekki hægt að mæta bara með skotbómulyftu á staðinn og byrja. Við þurftum að koma öllu draslinu hingað upp, finna út hvernig við gætum hengt festingar fyrir lyftuna upp á þakið, hagræða alls konar köplum og svo framvegis.“

Spurðir um hvort þeir séu almennt laghentir og bjargi sér sjálfir, hlær Arnór og bendir á Stefán. „Já já, maður reddar hlutunum,“ segir hann. „Það er dálítill hluti af þessu, að fara í málin. Ég pantaði kranabíl til að hífa lyftuna hingað upp og svo settum við hana saman sjálfir. Við fengum síðan fagmann með okkur sem var með öryggisatriðin í lagi.“
Þeir félagar segjast aldrei hafa slasað sig við vinnuna en þekkja til listamanna sem hafa dottið niður af vinnupöllum. Hvað með lofthræðslu?
„Hún er til staðar, en maður þarf bara að horfa á vegginn og ekki út fyrir lyftuna,“ segir Stefán.

Verðlaun eftir allt harkið
Haustið bauð upp á býsna djúpar haustlægðir og aðspurðir hvernig vinnan við verkið hafi gengið svarar Stefán glottandi að þetta hafi gengið eins og í sögu.
„Já bókstaflega, eins og í ævintýrasögu,“ bætir Arnór við. „Það gekk á ýmsu og var rok og rigning nánast allan mánuðinn en þetta hafðist með þrautseigju.“
Oft urðu þeir frá að hverfa vegna veðurs og einn daginn komu þeir þrisvar á staðinn til að reyna að koma einhverju í verk en þurftu alltaf að hætta við, enda getur vindur ýtt hressilega við vinnulyftu í svo mikilli hæð.
„Einn af fyrstu dögunum kom bongóblíða og við vorum fáklæddir að mála en næsta dag vorum við í snjógöllum,“ segir Stefán.
„Svo einn morguninn þegar við mættum hafði allt fokið burt,“ segir Arnór. „Við höfðum troðið dótinu okkar undir lyftuna en það hafði samt náð að fjúka undan og dreifast yfir höfnina hérna fyrir neðan. Þá hafði komið stormur.“

Að sinna listsköpun utandyra á Íslandi er kannski ekki það auðveldasta en þeir félagar segja það ágætt yfir sumartímann. Erfiðast sé þegar óvissa um veður sé mikil enda kosti sem dæmi mikið að leigja lyftu.
„Þessu tiltekna verkefni hér lýsi ég eins og fjallgöngu," segir Arnór. "Maður veit eiginlega ekkert; kemur upp á einhverja hæð og heldur að maður sé að ná toppnum en svo er fjallið miklu hærra og þannig heldur það áfram. Maður verður að taka eitt skref í einu. Taka til dæmis veðrinu eins og það er. Þetta er þolinmæðisverk.“
Hvað er erfiðast við þessa vinnu?
„Að bíða,“segir Stefán.
„Já, það er gott svar,“ segir Arnór. „En þótt veðrið hafi aðeins strítt okkur var nú fallegt af alheiminum að á síðasta klukkutímanum sem við vorum að mála, þá fengum við geggjað sólsetur sem lýsti upp vegginn svo allt varð hlýtt og notalegt eftir allt harkið.“

Fjallgangan er viðeigandi myndlíking því um líkamlega erfiðisvinnu er að ræða.
„Við tökum jógaæfingar og teygjur uppi á lyftunni, teygjum á bakinu og svona,“ segir Arnór.  „En ég hef alltaf gaman af því sem er líkamlega krefjandi, svo fyrir mér er veggjalist fullkomin blanda af líkamsrækt og listsköpun.“
„Þetta er líka mjög skemmtilegt þegar veðrið er gott,“ nefnir Stefán. „Og svo er gaman þegar verkin fá að njóta sín og standa í einhvern tíma. Ég hef ekki verið mikið fyrir að halda listasýningar þar sem maður setur upp myndir en þarf að taka þær strax niður aftur.“

Banka upp á og biðja um að fá að mála
Stefán og Arnór hófu samstarf sitt nú í sumar þegar þeir tóku að sér að vinna nokkur verk á vegum verkefnis Reykjavíkurborgar, Torg í biðstöðu og verkið í Sundahöfn er samstarf við borgina. Þeir hafa báðir verið lengi í bransanum.
„Ég er búinn að krota á veggi síðan ég var krakki en það var ekki meðvituð ákvörðun að verða listamaður,“ segir Stefán.
„Nei, þetta er bara eitthvað sem maður er að gera og heldur því svo áfram af því manni finnst það ganga vel,“ bætir Arnór við. „Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum í myndlist, en ég var svo sem ekkert að læra þetta þar.“

Þeir segja misjafnt hvernig verkin verði til. Stundum leiti fólk til þeirra en oft hafi þeir sjálfir frumkvæði að því að fá að mála á veggi sem henta vel til þess.
„Þegar við bönkum upp á hjá fólki hefur það oft ekki áttað sig á að það sé með fínan vegg til að mála á en þegar maður bendir á það finnst fólki það geggjuð hugmynd,“ segir Arnór.
„Við spyrjum fyrst hvort við megum mála og síðan reynum við að finna einhverjar leiðir til að fjármagna það,“ segir Stefán. „Þegar við byrjuðum á þessum vegg var ekki víst að hann yrði styrktur. Við gerum þetta fyrir okkur sjálfa… og alla hina!“

Jákvæð viðbrögð
Verkið í Sundahöfn blasir við langt að og breytir ásýnd svæðisins mikið. Fólk sem vinnur í nágrenninu hefur þakkað Stefáni og Arnóri fyrir en einnig hafa þeir fengið viðbrögð til dæmis á samfélagsmiðlum og í heita pottinum í sundlauginni, þar sem þeir láta oft líða úr sér eftir annasama daga. En hvernig finnst þeim sjálfum hafa tekist til?
„Við erum alla vega búnir að gera eitthvað fyrir hverfið og fólk virðist njóta þess,“ segir Stefán hógvær. „Þetta umbreytir svæðinu, sem var markmiðið.“
Arnór tekur undir. „Þetta hefur verið dálítið falinn blettur í borginni. Fólk er ekkert mikið að þvælast um á gámasvæðinu en þetta gefur mikið líf og sést langt að.“

Vinirnir hafa fengist við veggjalist í rúman áratug, skyldu viðbrögð fólks hafa breyst á þessum tíma?
„Já, í dag eru eiginlega allir spenntir fyrir þessu,“ segir Stefán.
„Eftir því sem fleiri vegglistaverk eru máluð, því betur áttar fólk sig á því hversu notalegt er að hafa myndlist í umhverfinu,“ segir Arnór. „Auðvitað vill einn og einn hafa allt hvítt og grátt en ég sé þetta þannig að þótt einhver máli mynd sem ég er kannski ekkert hrifinn af persónulega, út frá einhverri listrænni skoðun, þá finnst mér samt betra að hafa mynd en bara hvítan vegg. Svo er líka alltaf hægt að mála nýtt.“