Upplýsingar frá Sorphirðu Reykjavíkur um tafir

Sorphirða

Tunna

Sorphirða Reykjavíkur hefur ekki getað annað hirðu á pappír og plasti nægjanlega hratt í Laugardal, Háaleiti og Bústöðum og Breiðholti. Úrgangur var mikill eftir hátíðirnar og færð verið erfið undanfarna daga. Losun á tunnum við heimili fer nú fram í Hlíðum og Holtum og er farið austur eftir.   

Sorphirðufólk verður að störfum á laugardag 6. janúar og mun lengja vinnudaginn við hirðu í næstu viku, en það tekur tíma að vinna upp tafirnar orðið hafa, en þær stafa meðal annars af bilun á sorphirðubílum. Vegna tafa hefur úrgangur víða safnast upp sem gerir hirðuna þyngri og tefur enn frekar. Því má búast við að nokkurn tíma taki að vinna upp tafirnar þrátt fyrir aukna vinnu hirðufólks.

Hirða á gráum/brúnum tunnum er aftur á móti á áætlun í öllum hverfum. 

Áhersla verður lögð á að losa grenndargáma í áðurnefndum hverfum vegna tafanna og íbúar hvattir til að nýta þá. Íbúar eru jafnframt hvattir til að brjóta umbúðir vel saman svo sorptunnur nýtist sem best en ganga vel frá umframsorpi sem ekki rúmast í tunnunum þannig að auðvelt verði að hirða það, helst í stóra sorppoka.  

Hálka og söndun 

Undanfarna daga hefur víða myndast mikil hálka og gengur sorphirða því einnig hægar en venjulega af þeim sökum. Sorphirðan biðlar til íbúa að moka, sanda og salta gönguleiðir, passa lýsingu og að fara með umfram sorp á endurvinnslustöðvar SORPU. Komist íbúar ekki með umfram sorp á endurvinnslustöðvar er hægt að skilja umfram sorp vel samanbrotið í pokum við sorptunnur. Góður frágangur léttir hirðuna.

Þar sem að ekki er búið að salta og sanda gönguleiðir að sorptunnum getur þurft að sleppa því að tæma þær 

Tafir á losun grenndargáma 

Að jafnaði eru tveir bílar á vegum verktakans sem losar grenndargáma höfuðborgarsvæðisins en um áramótin biluðu báðir bílarnir.  Því hafa verið tafir á losun grenndargáma en áhersla er lögð losun gáma í hverfum þar sem tafir eru á hirðu við heimili. 

Til þess að draga úr áhrifunum hefur Sorphirða Reykjavíkur lánað einn af sínum sorphirðubílum til að losa grenndargáma á kvöldin. 

Við þökkum íbúum skilninginn.