Stefán Eiríksson nýr sviðsstjóri velferðarsviðs

Velferð Atvinnumál

""

Borgarráð samþykkti í dag að ráða Stefán Eiríksson sviðsstjóra velferðarsviðs frá 1. september næstkomandi. Stefán hefur starfað sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2007.

Stefán býr yfir leiðtogahæfileikum og hefur farsæla reynslu af stjórnun hjá hinu opinbera til margra ára.  Á árunum 2002-2006 sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis og frá árinu 2007 sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Í starfi sínu sem lögreglustjóri hefur Stefán leitt farsællega sameiningu þriggja stórra lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu og komið að fjölmörgum verkefnum á sviði velferðarmála, m.a. í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.  Má þar nefna verkefni sem snúa að útgangsfólki í Reykjavík og tilraunaverkefni með Barnaverndarstofu vegna heimilisofbeldis.

Sem lögreglustjóri  höfuðborgarsvæðisins hefur hann lagt áherslu á að byggja upp og viðhalda góðum samskiptum við samstarfs- og hagsmunaaðila. Stefán hefur skýra framtíðarsýn fyrir velferðarþjónustu í Reykjavík til næstu 5 ára og leggur hann áherslu á þarfir notenda, gott samstarf, mannauðsstjórnun, opna umræðu og rafræna stjórnsýslu. 

Stefán lauk embættispróf í lögfræði (Cand.jur) frá Háskóla Íslands í febrúar 1996 og hdl. 1997.  Hann hefur sótt fjölmörg námskeið, sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi og verið fyrirlesari  á ýmsum vettvangi, m.a. í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Stefán var talinn uppfylla best allra umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra velferðarsviðs. Á sama tíma og Stefáni er óskað farsældar í starfi er öðrum umsækjendum þakkaður sýndur áhugi og óskað velfarnaðar.