Samið um parísarhjól á Miðbakka í sumar

Mannlíf Umhverfi

Parísarhjólið á myndinni er sambærilegt því sem rísa mun á Miðbakka.
parísarhjól erlendis

Parísarhjól verður sett upp á Miðbakka í sumar. Um tilraunaverkefni til eins sumars er að ræða og mun Taylors Tivoli Iceland ehf annast uppsetningu og rekstur á parísarhjólinu.

Reykjavíkurborg auglýsti í mars eftir samstarfaðila til að reka parísarhjól á Miðbakka í Reykjavíkurhöfn. Er það hugsað sem spennandi viðbót við fjölbreytt borgarlíf og skemmtilegt framhald á mikilli uppbyggingu í miðborginni. Mikill áhugi var á verkefninu og bárust fjórar umsóknir, en ákveðið var að bjóða Taylors Tivoli Iceland ehf til viðræðna. Á fyrirtækið önnur parísarhjól og hefur reynslu bæði af rekstri þeirra og af rekstri tívolís á Miðbakka. Gengið hefur verið úr skugga um að búnaðurinn þoli íslenskar aðstæður, þar með talið vindálag og jarðhræringar. Áhersla verður lögð á góða hljóðvist í kringum parísarhjólið og verða framkvæmdar hljóðmælingar á prufutímabilinu. Samkomulagið var samþykkt í borgarráði í dag.

Miðbakki í Reykjavíkurhöfn

Parísarhjólið mun rísa á Miðbakka, þar sem hjólabraut hefur verið.

Aðgengi fyrir öll

Samkvæmt samkomulagi fær Taylors Tivoli Iceland ehf afnot af Miðbakka, Geirsgötu 15, til loka september á þessu ári. Um er að ræða svæði þar sem nú er hjólabraut, en hún verður færð á Klambratún. Fyrir afnotin greiðir fyrirtækið eina milljón króna á mánuði og verður allur kostnaður vegna uppsetningar og reksturs parísarhjólsins á ábyrgð Taylors Tivoli Iceland ehf. Framlag borgarinnar til samstarfsins eru afnot af lóð Faxaflóahafna í afmarkaðan tíma. Parísarhjólið verður 32 metra hátt og hefur það 24 vagna. Flestir þeirra hafa sex sæti, en einnig er boðið upp á aðgengi fyrir hjólastóla.

Ein margra hugmynda um haftengda upplifun

Verkefnið á rætur í hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun og útivist, en settar voru fram fjölmargar hugmyndir um hvernig bæta mætti lífsgæði borgarbúa og lýðheilsu í skýrslu sem kom út síðasta haust. Kostir grænna svæða eru vel þekktir og hefur verið sýnt fram á að aðgengi að grænum svæðum bæti velferð fólks. Vaxandi umræða er um kosti þess að hafa aðgengi að vatni, eða bláum svæðum; það er hafi, ám, fossum eða vötnum. Búseta í nálægð við vatn hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðlar að bættri hamingju og vellíðan og í Evrópu hafa blá svæði í auknum mæli verið viðurkennd sem aðlaðandi eiginleiki borga með tilliti til ferðaþjónustu, afþreyingar og heilbrigðs lífsstíls. Því var farið í greiningu á möguleikum til upplifunar og útivistar á strandlengjunni í Reykjavík og var parísarhjól ein fjölmargra hugmynda sem lesa má um í skýrslunni.

Samkomulag Reykjavíkurborgar við Taylors Tivoli Iceland ehf. og önnur gögn.