Opnað fyrir umsóknir um matjurtagarða

Garðyrkja Umhverfi

Ræktaðu regnboga í matjurtagörðum Reykjavíkurborgar í sumar. Mynd/Unsplash - Philippe Collard
Litríkt grænmeti

Opnað verður fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða í borginni þriðjudaginn 15. mars. Um 600 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar, þar af eru 200 í Skammadal. Matjurtagarðarnir eru í boði í Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal, Árbæ, Grafarvogi og Kjalarnesi við Fólkvang, sem bættist við í fyrra. Matjurtagarðarnir verða opnaðir 1. maí.

Garðarnir verða merktir. Vatn er aðgengilegt á öllum svæðum. Garðáhöld, plöntur og útsæði fylgja ekki með görðunum. Fyrir byrjendur má geta þess að algengast er að fólk rækti kartöflur og allskonar kál og rófur. Einnig er gott að hafa í huga að hægt er að nálgast forræktað grænmeti í allflestum gróðrastöðvum.

Leigugjöld ársins 2022 eru 6.000 kr. fyrir garðland í Skammadal (u.þ.b. 100 fermetrar) og 5.000 kr. fyrir garð (u.þ.b. 20 fermetrar). Kassar í Grafarvogi, Árbæ og Kjalarnesi verða á kr. 4.000 kr. kassinn (8 fermetrar). Úthlutun garða verður afturkölluð hafi greiðsla ekki borist á eindaga.

Umsóknir sendist á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is en nánari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu matjurtagarða.

Ókeypis fræðsla um matjurtaræktun hjá Reykjavíkurborg

Í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal verður í sumar boðið upp á ýmsa fræðslu sem tengist matjurtaræktun og hentar því vel þeim sem langar að leigja matjurtagarð í borginni. Áhugasamir ættu að merkja við þriðjudaginn 7. júní í dagatalinu en þá verður boðið uppá „Hollráð í matjurtagarðinum“. Þar býðst þátttakendum að fræðast um sáningu, útplöntun og umhirðu krydd- og matjurta. Auk þess verður hægt að læra um smádýrin í matjurtagarðinum, safnhaugagerð, moltugerð í eldhúsinu með ánamöðkum og sýringu matarleifa með Bokashi-tunnu. Hægt verður að koma við í Grasagarðinum hvenær sem er á milli kl. 17-18.30 í Grasagarðinum þennan dag og fá góð ráð.

Hádegisgöngurnar verða einnig á sínum stað alla föstudaga í sumar en hægt er að fylgjast með dagskránni þegar nær dregur á vef Grasagarðsins eða á Facebook.