Ný teymi Barnaverndar hafi sannað gildi sitt

Í skýrslunni má til að mynda kynna sér undirteymin fimm sem starfa í Barnavernd og glöggva sig á því hvað þau gera.
Barn við Ráðhús Reykjavíkur.

Árið 2022 bárust Barnavernd Reykjavíkur 4953 tilkynningar. Það er sambærilegur fjöldi og árið á undan. Þetta er meðal þess sem má lesa úr ársskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur sem var kynnt á fundi velferðarráðs í vikunni. 

Tilkynningum um vanrækslu fjölgaði á milli ára um 3,7%, tilkynningum um ofbeldi fækkaði um 9,6% og tilkynningum um áhættuhegðun fjölgaði um 4%. Þar spilar inn í fjölgun á tilkynningum um neyslu barns en þær voru 145 árið 2021 en 190 árið 2022. Tilkynningar um að barn stefni eigin heilsu og þroska í hættu standa í stað milli ára, tilkynningum um afbrot barns fækkar um 14% og tilkynningum um að barn beiti ofbeldi fjölgar um 5%.

Tilkynningum um ofbeldi fækkar

Tilkynningar um ofbeldi, sem á við þar sem barn er beitt ofbeldi, skiptast í kynferðisofbeldi, líkamlegt ofbeldi, tilfinningalegt og sálrænt ofbeldi. Þar undir fellur heimilisofbeldi sem barn verður vitni af. Í heildina fækkar tilkynningum um ofbeldi um 9,6% og munar þar mestu um flokkinn tilfinningalegt og sálrænt ofbeldi en þar fækkar tilkynningum um 23%. Tilkynningum um kynferðisofbeldi heldur áfram að fjölga og fjölgar milli ára um 15%. Tilkynningar um líkamlegt ofbeldi standa nokkurn veginn í stað milli ára.

Leggja áherslu á upplýsingagjöf til að byggja upp traust

Þetta er í annað sinn sem Barnavernd Reykjavíkur gefur út ítarlega ársskýrslu. Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar, segir skýrsluna nýtast vel í innra starfi en ekki síður til að deila upplýsingum út á við um starfsemina. Í skýrslunni má til að mynda kynna sér undirteymin fimm sem starfa í Barnavernd og glöggva sig á því hvað þau gera. „Við viljum hafa góða samantekt um starfsemina aðgengilega öllum. Við viljum að það sé auðvelt að nálgast upplýsingar um okkur, við viljum vera aðgengileg og að fólk finni að það er auðvelt að leita til okkar.“

Ný teymi sanna gildi sitt

Elísa segir að ný teymi Barnaverndar hafi sannað gildi sitt á árinu. Þannig hafi til að mynda könnunar- og meðferðarteymi barna og fjölskyldna af erlendum uppruna reynst afar mikilvægt. „Þarna höfum við verið að byggja upp nauðsynlega sérhæfingu, því starfsfólk þarf að vera meðvitað um menningarmun og möguleg áhrif hans. Í teyminu eru fimm ráðgjafar sem hafa viðað að sér mikilli þekkingu og vita til að mynda hvernig börn eru alin upp á ólíkan máta á milli landa. Teymið hefur jafnframt sérhæft sig í því að taka viðtöl í gegnum túlk. Að mynda meðferðarsamband með þriðja aðila viðstaddan er nefnilega mikil kúnst. Þessi mál eru mörg hver að farnast mjög vel sem við rekjum meðal annars til þessarar sérhæfingar.“

Hún segir bráða- og viðbragðsteymið sem sett var á fót fyrir fjórum árum einnig afar mikilvægt.  Skólar, leikskólar, lögreglan og fleiri stofnanir geta leitað til teymisins þegar upp koma atvik sem þarf að bregðast við strax. „Við erum með símavakt og tvo starfsmenn á vakt sem geta hlaupið til þegar þörfin kallar. Teymið fór í 439 útköll á síðasta ári. Við finnum fyrir ánægju í kerfunum í kringum okkur með að við getum tekið svona skjót viðbrögð.“

Allir helstu samstarfsaðilar Barnaverndar séu með beinan síma hjá teyminu. Aðrir sem vilja ná sambandi við það geti haft beint samband við Barnavernd eða fengið tengingu í gegnum þjónustuver Reykjavíkurborgar.

Í stöðugri leit að stuðningsfjölskyldum

Í ársskýrslunni má einnig sjá að í lok árs 2022 voru í heild 149 börn vistuð í varanlegu fóstri, 45 voru vistuð í tímabundnu fóstri, 10 í styrktu fóstri og 80 börn voru vistuð tímabundið í skammtímavistun. Í langflestum tilvikum fór sú vistun fram hjá ættingjum eða í 75% tilvika. Elísa segir að undanfarið hafi verið settur aukinn kraftur í að leita að fólki sem tilbúið er að taka að sér það hlutverk að vera stuðningsfjölskyldur. Meðal annars sé starfsmaður hjá Barnavernd sem hafi gagngert það hlutverk að leita þeirra. „Okkur vantar alltaf góðar stuðningsfjölskyldur svo ég hvet fólk til að hafa samband við okkur ef það er tilbúið að skoða það.“