Hvernig starfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er háttað

Heilbrigðiseftirlit

Loftmynd

Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur: Verkefni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru í umræðunni um þessar mundir meðal annars um verklag matvælaeftirlits og því teljum við ástæðu til að árétta eftirfarandi.

Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur verður vart við óheilnæm matvæli, eins og í Sóltúni haustið 2023, er ávallt brugðist skjótt við og tryggt að matvælaöryggi sé ekki ógnað og öryggi neytenda sé tryggt, í samræmi við lög og reglur. Alvarleg mál eru kærð til lögreglu ef ástæða er til, eins og gert var í því tilviki. 

Eftirlit með matvælafyrirtækjum er því skilvirkt og alltaf gripið til viðeigandi aðgerða og matvæli gerð upptæk, eða því fylgt eftir að starfsemi sé takmörkuð eða stöðvuð eftir því sem ástæða er til, með öryggi neytenda að leiðarljósi. 

Ef matvælafyrirtæki fá slæma niðurstöðu úr eftirliti, eins og 1 eða 2, er ljóst að þau starfa ekki áfram nema að loknum úrbótum sem samþykktar eru af heilbrigðisfulltrúa í eftirliti.

Upplýsingar um niðurstöður eftirlita eru aðgengilegar á vef heilbrigðiseftirlitsins, þar sem skýrar upplýsingar má fá um þau atriði sem ábótavant er og hægt að kalla eftir viðkomandi eftirlitsskýrslum. Aðgengi neytenda að þessum upplýsingum er því afar gott. 

Heilbrigðisfulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru sérfræðingar á sínu sviði sem vinna af fagmennsku að erfiðum málum.

Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið saman nokkur grunnatriði til að draga úr líkum á misskilningi og veita frekari upplýsingar um starfsemina.