Fyrsti sjálfkeyrandi bíllinn á Snjallborgarráðstefnu | Reykjavíkurborg

Fyrsti sjálfkeyrandi bíllinn á Snjallborgarráðstefnu

miðvikudagur, 2. maí 2018

Reykjavíkurborg stendur fyrir Snjallborgarráðstefnu í Hörpu á morgun fimmtudaginn 3. maí. Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga í snjallvæðingu borga munu deila þekkingu sinni og fara yfir hvaða áhrif lausnir eins og deilibílar, deilihjól, flæðisteljarar og snjallir ljósastaurar munu hafa á líf borgarbúa og ferðamanna sem að heimsækja Reykjavík.

  • Sjálfkeyrandi bifreið
    Reykjavíkurborg stendur fyrir Snjallborgarráðstefnu í Hörpu á morgun fimmtudaginn 3. maí. Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga í snjallvæðingu borga munu deila þekkingu sinni og fara yfir hvaða áhrif lausnir eins og deilibílar, deilihjól, flæðisteljarar og snjallir ljósastaurar munu hafa á líf borgarbúa og ferðamanna sem að heimsækja Reykjavík.

,,Nýsköpunarborgin Reykjavík hefur hafið snjallvæðingu sína enda kalla tækninýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar á uppbyggingu innviða með framtíðina í huga. Á Snjallborgarsráðstefnunni verður bæði farið yfir hvaða nýjungar eru framundan í innviðum og þjónustu borgarinnar, ásamt því að skyggnst verður inn í framtíðina. Farið verður yfir m.a. hvað felst í snjöllum ljósastaur, snjalltunnu og deilihjólastæði," segir Kristinn Jón Ólafsson, verkefnastjóri Snjallborgar hjá Reykjavík.

 Á Snjallborgarráðstefnunni verður boðið upp á fyrsta sjálfkeyrandi bílinn á Íslandi. Navya er 4. stigs sjálfakandi vagn sem ráðstefnugestum stendur til boða að fara á rúntinn með fyrir utan Hörpu að lokinni ráðstefnu. Á sýningarsvæðinu fyrir utan Hörpu munu ráðstefnugestir einnig geta skoðað deilihagkerfis og rafsamgönguflotann sem er að spretta upp víðsvegar um borgina.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni má nefna Robin Chase, stofnandi ZipCar og höfundur bókarinnar Peers Inc, Terry Wei, stjórnandi hjá Waze, Kristian Agerbo, frá Uber á Norðurlöndunum, og Christian Sorgenfrei, forstjóri Autonomus Mobility. Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis. Hægt er að skrá sig á snjallborgin.is.

Borgarhakk fór fram í Ráðhúsinu um síðustu helgi í tengslum við Snjallborgarráðstefnuna. Þar unnu þátttakendur í verkefnastofu og tókust á við krefjandi áskoranir Reykjavíkurborgar með það að markmiði að koma með skapandi lausnir að framtíð borgarinnar undir leiðsögn sérfræðinga.  Sigurliðið í Borgarhakkinu, sem á bestu hugmyndina að mati dómnefndar, verður kynnt á Snjallborgarráðstefnunni en það fær eina milljón króna í sigurlaun," segir Kristinn Jón ennfremur.

www.snjallborgin.is

 Snjallborgin á Facebook