Byggingarleyfisumsóknir verða rafrænar í desember

Framkvæmdir Skipulagsmál

Mælt er með því að þau sem eru að íhuga að senda inn byggingarleyfisumsókn á næstunni bíði þar til ferlið er orðið rafrænt. Arctic Images/Ragnar Th.
Loftmynd af húsum í Reykjavík við Laugardal.

Umsóknir um byggingarleyfi hjá Reykjavíkurborg verða gerðar rafrænar í byrjun desember 2022. Vakin er athygli á því að ef umsókn um byggingarleyfi er skilað inn áður en ferlið verður að fullu rafrænt verður umsóknin fullunnin á pappír.

Mælt er með því að þau sem eru að íhuga að senda inn umsókn á næstunni bíði þar til ferlið er orðið rafrænt. Þau sem eru nú þegar með byggingarleyfisumsókn í pípunum er ráðlagt að fullvinna hana fyrir desember.

Við þessi umskipti gæti starfsemi byggingarfulltrúa orðið takmörkuð í nokkra daga. Starfsfólk Reykjavíkurborgar þakkar skilninginn og hlakkar til að taka við rafrænum umsóknum.

Þess ber að geta að afgreiðslufundur byggingarfulltrúa þann 20. desember fellur niður. Fundað verður 13. desember en næsti fundur eftir hann verður ekki fyrr en á nýju ári, þriðjudaginn 10. janúar. 

Ef spurningar vakna getur starfsfólk þjónustuvers Reykjavíkurborgar veitt nánari upplýsingar í gegnum póstfangið upplysingar@reykjavik.is eða í síma 411 1111.

Áður var búið að segja frá rafrænum skráningum byggingarstjóra og iðnmeistara.

Auglýsing