Borgarráð samþykki 29. júní tillögu að breytingum á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar. Tillagan er tvíþætt annars vegar breyting á gjaldskrá og hins vegar breyting á gjaldskyldutíma. Tilgangurinn er meðal annars að sem flestir hafi aðgang að bílastæðum í miðborginni því gjaldskyldan stuðlar að stöðugri færslu bifreiða á svæðinu.
- Á gjaldsvæði P1 hækkar gjald í 600 kr/klst, en gjaldið var áður 430 kr/klst. Þar verður nú einungis heimilt að leggja í þrjár klukkustundir í senn.
- Gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verður lengdur til klukkan níu á kvöldin, bæði á virkum dögum og á laugardögum.
- Að auki verður tekin upp gjaldskylda á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnanna og níu á kvöldi á sunnudögum.
- Gjaldskylda verður ekki á gjaldsvæði P3 á laugardögum.
Annað er óbreytt frá gildandi tilhögun gjaldskrár og gjaldskyldu.
Handhafar stæðiskorts hreyfihamlaðra leggja gjaldfrjálst í bílastæði hvort sem þau eru merkt hreyfihömluðum eða ekki og gildir hámarkstími á gjaldsvæði P1 ekki fyrir þá.
Styður við þjónustuaðila, gesti og íbúa
Gjaldskylda á bílastæðum Reykjavíkur hefur þann tilgang að framfylgja markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur og stuðla að fjölbreyttri notkun bílastæða í borgarlandi með því að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og styðja þannig við þjónustuaðila, gesti og íbúa. Tillagan er byggð á talningum sem fóru fram haustið 2022 og í samræmi við verklagsreglur en tvennum verklagsreglum er fylgt við mat á þörf á breytingum á gjaldskyldu. Annars vegar um verðbreytingar gjaldsvæða, og hins vegar um innleiðingu nýrra gjaldsvæða. Tilgangurinn þeirra er að tryggja að gagnsætt og opið verklag sé viðhaft við skilgreiningu nýrra gjaldsvæða fyrir bílastæði á borgarlandi Reykjavíkur.
Mikil og stöðug nýting á flestum gjaldsvæðum
Niðurstöður talninga sýna sem fyrr mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á flestum gjaldsvæðum og mikla nýtingu utan gjaldskyldutíma. Nokkur hluti gatna innan P1 mælist enn með yfir 85% nýtingu og gefa niðurstöður talninga því tilefni til að breyta gjaldskrá til þess að geta betur stýrt eftirspurn eftir bílastæðum, í samræmi við fyrrgreindar verklagsreglur. Tillagan sem samþykkt var felur því í sér hækkun gjaldskrár á svæði P1 upp í kr. 600,- auk innleiðingar hámarkstíma á gjaldsvæðinu, eða tímatakmörk á hversu lengi má leggja ökutæki innan gjaldsvæðis P1.
Niðurstöður talninganna nú, sem og árin 2019 og 2021, sýna að bílastæði við götukanta á gjaldsvæðum P1 og P2 eru að jafnaði fullnýtt á kvöldin á meðan nægilegt framboð er af bílastæðum í bílahúsum borgarinnar. Nýting var talin við lok gjaldskyldu kl. 18 og svo aftur kl. 20 og sýndi talning að nýtingin jókst eftir því sem leið á kvöldið. Í samræmi við niðurstöður talninga felur tillagan því í sér lengingu á gjaldskyldutíma til kl. 21 á gjaldsvæðum P1 og P2.
Þar er um að ræða svæði þar sem finna má mestan þéttleika af starfsemi sem er opin á kvöldin og götur nálægt bílahúsum, en með gjaldskyldu aukast líkurnar að sama skapi á því að ökumenn kjósi að leggja í bílahúsum borgarinnar og þar með líklegra að íbúar fái stæði við heimili sín.
Nýting bílastæða meiri á sunnudögum en laugardögum
Bílastæðanýting um helgar hefur verið talin undanfarin ár, með áherslu á svæði við verslun og þjónustu. Niðurstöður talninganna hafa stöðugt sýnt að bílastæðanýting mælist ávallt hærri á sunnudögum en laugardögum á öllum töldum svæðum og yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt verklagsreglum. Tillagan felur því í sér innleiðingu gjaldskyldu á sunnudögum. Innleiðing gjaldskyldu styður betri stýring á nýtingu bílastæða, sem jafnframt stuðlar að betri nýtingu bílahúsa, eins og áður greinir, og eykur líkur íbúa á að finna stæði í nálægð við heimili. Samhliða þessum breytingum felur tillagan í sér að gjaldskylda falli niður á gjaldsvæði P3 á laugardögum í samræmi við niðurstöður talninga.
Breytingarnar taka gildi eftir auglýsingu tillögunnar í stjórnartíðindum og uppfærslu búnaðar og merkinga. Ætla má að það verði á þessu ári.