33 tillögur til að bæta starfsumhverfi og fjölga leikskólakennurum

Skóli og frístund

""

Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík kynnti í dag tillögur sínar fyrir fulltrúum í skóla- og frístundaráði.

Tillögurnar eru alls 33 og snúa að fjórum meginflokkum; aðgerðum til að bæta starfsumhverfi í leikskólum, efla stuðning við leikskólakennara í starfi, fjölga leikskólakennurum og breyttu skipulagi náms í leikskólakennarafræðum.

Meðal tillagna starfshópsins sem miða að því að bæta starfsumhverfi er að vinnuvika leikskólakennara verði stytt í 35 stundir til samræmis við vinnutíma kennara á öðrum skólastigum. Einnig að unnið verði að því að auka rými barna í leikskólum, fjölgað verði stöðugildum í leikskólum vegna fjögurra og fimm ára barna, undirbúningstími deildarstjóra og leikskólakennara verði lengdur og að lokað verði í leikskólum á aðfangadag og gamlársdag. Þá er lagt til að farið verði í aðgerðir til að tryggja að húsnæði og umhverfi henti starfsemi leikskóla.

Til að styðja við leikskólakennara í starfi er lagt til að efla móttöku nýliða, að nýir leikskólakennarar fái mentor og aukinn stuðning  og að öðrum leikskólakennurum bjóðist handleiðsla í starfi. Þá er lagt til að farið verði í sértækar aðgerðir til að tryggja stöðugleika í starfsmannahópnum.

Tillögur sem miða að því að fjölga leikskólakennurum ganga út á gera laun þeirra sambærileg við aðra sérfræðinga, efla ímynd leikskólakennarastarfsins og efna til heildrænnar kynningar á námi í leikskólakennarafræðum. Einnig að fara í kynningarátak meðal starfsmanna leikskóla um námsleiðir í átt að leikskólakennarafræðum, og búa til fjárhagslega hvata til að starfsmenn ljúki slíku námi. Þá er lagt til að farið verði í sértækar aðgerðir til að fjölga karlkyns leikskólakennurum. 

Að lokum leggur starfshópurinn til að áfangar í leikskólakennaranáminu leiði til viðurkenningar í starfi og launasetningu og að leikskólakennurum bjóðist fleiri tækifæri til starfsþróunar. Lagt er til að farið verði í sértækar aðgerðir fyrir starfsmenn leikskóla sem ekki hafa lokið formlegu námi til að öðlast leikskólaréttindi og auka tengingu námsins við vettvanginn. 

Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík hefur starfað í rúmt ár og var skipaður kjörnum fulltrúum og fulltrúum Félags leikskólakennara, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasviðs HÍ, Félags stjórnenda í leikskólum, fulltrúum foreldra og sérfræðingum á skóla- og frístundasviði. Formaður hópsins var Hermann Valsson, sem jafnframt er varaformaður í skóla- og frístundaráði. 

Á fundi sínum í dag fól skóla- og frístundaráð sviðsstjóra að vinna áætlun um innleiðingu á tillögum starfshópsins með kostnaðarmati og áfangaskiptingu og verði hún kynnt innan mánaðar.

Sjá skýrslu starfshópsins og tillögur með frekari rökstuðningi fyrir hverri og einni.