
Leiðréttur launamunur kynjanna er 0% hjá Reykjavíkurborg sem þýðir að konur og karlar eru með sömu laun þegar skoðaður er munur á uppreiknuðum heildarlaunum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu á kynbundnum launamun hjá borginni fyrir árið 2024.
Í október 2024, þegar greiningin var gerð, voru alls 10.453 starfsmenn á launaskrá hjá Reykjavíkurborg. Þar af voru 7.572 konur eða 72,4%, 2.866 karlar eða 27,4% og 15 kynsegin, eða 0,1%. Kynsegin einstaklingar í starfi hjá borginni eru það fáir að þeim er sleppt í launagreiningunni til að tryggja órekjanleika.
Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaðurinn á opinberum vinnumarkaði hér á landi og hefur með markvissum aðgerðum náð markverðum árangri í átt að launajafnrétti. Borgin hlaut hlaut jafnlaunavottun árið 2019, fékk endurnýjaða vottun árið 2022 og mun endurúttekt á jafnlaunakerfi borgarinnar fara fram í vor. Jafnlaunavottunin er þess eðlis að til að vinnustaðurinn haldi vottuninni þarf hann að sýna fram á áframhaldandi árangur milli ára. Ein af kröfum staðalsins er að gerð sé greining á launum starfsfólks sem felst í kerfisbundinni úttekt á launum og kjörum í þeim tilgangi að kanna hvort kynbundinn launamunur sé til staðar. Þá þarf skipulagsheildin að móta jafnlaunastefnu, velja sér jafnlaunaviðmið og skilgreina, flokka og meta virði starfa þannig að saman flokkist sömu eða jafnverðmæt störf. Aðaláherslan er á að greiða skuli sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Enginn munur á uppreiknuðum heildarlaunum
Félagsvísindastofnun framkvæmdi greiningu á launum starfsfólks Reykjavíkurborgar fyrir októbermánuð 2024. Meðalmunur á heildarlaunum allra karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg er 1,8% konum í vil óháð fjölda unninna tíma og öðrum skýribreytum en verður 0,6% körlum í vil þegar eingöngu er tekið tillit til starfshlutfalls. Þegar að auki er tekið tillit til persónuþátta vegna menntunar, fag-/starfsreynslu, hæfnisflokka, starfaflokks, breytilegra yfirvinnutíma, fastra yfirvinnutíma, eininga vegna annarra launa og fjölda tíma í álagsvinnu/ vaktaálags þá fer munurinn niður í 0,0%.
Markvissar aðgerðir hafa skilað árangri
Dregið hefur úr kynbundnum launamun starfsfólks borgarinnar síðan mælingar á honum hófust. Myndin hér að neðan sýnir kynbundinn launamun á uppreiknuðum heildarlaunum starfsfólks í 70-100% starfi hjá Reykjavíkurborg árin 1995- 2009 þegar skýribreytur höfðu verið samræmdar, að viðbættum þeim launagreiningum sem hafa verið gerðar síðan og hafa byggt á sambærilegri aðferð.

Mikilvægt að fylgja árangrinum eftir
Markvissar aðgerðir til að vinna að launajafnrétti, svo sem innra og ytra eftirlit, rýni stjórnenda og stöðugar umbætur, leiða til þess að stöðugt er verið að bæta einstaka þætti jafnlaunakerfis borgarinnar. Þótt Reykjavíkurborg hafi náð þeim árangri að launamunur kynjanna mælist nú varla er enn sem fyrr mikilvægt að rýna kerfið og fylgja árangrinum eftir. Meðal aðgerða framundan er greining á inntaki starfslýsinga hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar til að kanna hvort þær kunni að leiða til ójöfnuðar í launasetningu með tilliti til kyns, þannig að unnt verði að bregðast við með viðeigandi lagfæringum ef svo reynist vera.
„Eins og framangreint sýnir geta markvissar aðgerðir og skýr sýn á launajafnrétti sem grundvallarþátt í launasetningunni leitt til árangurs sem um munar,“ segir Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar.
Greining Félagsvísindastofnunar á kynbundnum launamun í október 2024.
