Dýraþjálfun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Eva dýraþjálfari að gefa hesti lyf
Eva dýraþjálfari að gefa hesti lyf

Sænski dýraatferlisfræðingurinn Eva Bertilsson hefur verið við störf í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þessa vikuna. Hún hefur margra ára reynslu af því að vinna með og þjálfa dýr. Í dag getur almenningur heimsótt garðinn og fylgst með störfum Evu.

Eva Bertilsson hefur ferðast víða til þess að sinna kennslu og veita ráðgjöf um dýraþjálfun til fagfólks sem vinnur með dýr og hefur jafnframt sinnt fræðslu til almennings. Hún notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir með það að leiðarljósi að auka lífsgæði dýranna.

Eva hefur verið að miðla kunnáttu sinni til starfsfólks í húsdýragarðinum í heimsókn sinni til Íslands. Fyrstu þrjá dagana var hún með námskeið fyrir starfsfólk garðsins og kenndi ýmsar leiðir til að þjálfa dýr. Eva segir að þjálfun dýra komi að góðum notum fyrir þá sem vinna með dýr, "þjálfun dýra getur hjálpað starfsfólki að efla tengsl við dýrin og gert þeim kleift að þjálfa þau á jákvæðan hátt fyrir t.d. dýralæknaskoðanir og fleira". 

Vigtun refanna í húsdýragarðinum
Eva kennir starsmanni að lokka ref í Húsdýragarðinum á vigtina

Eva er með Youtube rás þar sem hún sýnir fjölbreyttar þjálfunaraðferðir á alls konar dýrum. Sem dæmi um þjálfun Evu, þá þurfti að gefa gíraffa í dýragarði í Kristansand í Noregi augndropa vegna augnsýkingar. Það gefur auga leið að slík lyfjagjöf getur verið vandkvæðum bundin þegar um svona stór og hávaxin dýr er að ræða. Með þjálfun tókst að fá gíraffann til að beygja sig fram svo hægt væri að gefa honum augnsmyrslið. 

Starfsfólk garðsins var mjög áhugasamt fyrir þjálfuninni og aðferðum Evu sem koma til með að bæta við nýrri kunnáttu í vinnu þeirra með dýrin í garðinum.

Unnið með sauðfé í húsdýragarðinum
Þjálfun sauðfés í Húsdýragarðinum.

Námskeið fyrir almenning

Í gær var haldið námskeið fyrir dýralækna og aðra sem vinna með dýr í störfum sínum. Í dag föstudaginn 14. mars verður almenningi gefinn kostur á að skyggnast bak við tjöldin í þjálfuninni.

Takmarkaður fjöldi kemst að og er fólk beðið um að skrá sig.

Dagskrá 14. mars. Almenningur (10 ára aldurstakmark)

  • 15:00 til 17:30 Þátttakendur fylgja Evu og starfsfólki garðsins til dýranna og fá innsýn og ítarlegar upplýsingar um það sem starfsfólk garðsins hefur lært hjá Evu.
  • Léttar veitingar í boði í lokin og spjall um þjálfunina.
  • Verð: 6.000 krónur og áhugasöm skrá sig og/eða fá frekari upplýsingar með því að senda póst á namskeid@husdyragardur.is.