Afsláttur lífeyrisþega af fasteignagjöldum
Reykjavíkurborg er heimilt að lækka eða fella niður fasteignagjöld hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum. Þá veitir Reykjavíkurborg einnig afslátt af fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur.
Hvað eru fasteignagjöld?
Fasteignagjöld eru árlega lögð á allar fasteignir, nema þær séu undanþegnar með lögum, og ber eigandi ábyrgð á greiðslu þeirra. Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva.
Hvernig virkar afslátturinn?
Sveitarfélögin ákveða hvaða reglur gilda um niðurfellingu fasteignagjalda.
Fjármála- og áhættustýringarsvið sér svo um að afgreiða afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð á skattframtölum elli- og örorkulífeyrisþega.
Athugið að ekki er veittur afsláttur af lóðaleigu, sorphirðugjöldum og vatnsgjöldum.
Hef ég rétt á afslætti?
Til að hafa rétt á afslættinum þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Vera elli- eða örorkulífeyrisþegi.
- Vera með skráð lögheimili í eigninni.
- Vera búsett/ur í eigninni.
- Vera þinglýstur eigandi eignarinnar.
- Vera með rétt á vaxtabótum vegna eignarinnar.
Hver eru tekjumörkin?
Tekjumörk vegna lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds á árinu 2025 eru:
- Réttur til 100% lækkunar
Einstaklingur með tekjur allt að 5.750.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 8.020.000 kr.
- Réttur til 80% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.750.001 til 6.580.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.020.001 til 8.890.000 kr.
- Réttur til 50% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.580.001 til 7.650.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.890.001 til 10.620.000 kr.
Við álagningu fasteignagjalda í janúar 2025 er hlutfall afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða það sama og það var í árslok 2024. Álagning vegna tekna ársins 2024 liggur fyrir í júní 2025, stuttu síðar hefst vinna við útreikning afsláttar og verða allar breytingar tilkynntar bréflega í lok október 2025.
Þarf ég að gera eitthvað?
Það þarf ekki að sækja sérstaklega um afslátt vegna þessara gjalda. Fjármála- og áhættustýringarsvið sér um að framkvæma breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð á skattframtölum elli- og örorkulífeyrisþega.
Afsláttarþegar sem eiga von á endurgreiðslu geta skráð upplýsingar um bankareikning á Mínum síðum. Einnig er hægt að óska eftir skráningu upplýsinga um bankareikninga í síma 411 1111 og í netfanginu upplysingar@reykjavik.is.
Hægt er að senda inn erindi vegna fasteignagjalda í gegnum Mínar síður.
Hvaða lög og reglugerðir gilda um afsláttinn?
Sveitarfélögum er heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélögum er skylt að setja sér reglur um beitingu heimildarinnar. Reykjavíkurborg veitir einnig afslátt af fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur á grundvelli 4. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Lækkun á fasteignaskatti og fráveitugjaldi er byggð á reglum sem borgarstjórn setur, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Reglur um vaxtabætur vegna eignar styðjast við B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt. Ákvarðanir vegna þessara reglna eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins innan þriggja mánaða frá ákvörðuninni á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fyrirspurnir
Þjónustuver veitir upplýsingar um álagningu fasteignagjalda og breytingar á þeim í síma 411 1111, í gegnum netspjall og netfangið upplysingar@reykjavik.is.