Afsláttur tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignagjöldum

Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Er sveitarfélögum skylt að setja sér reglur um beitingu heimildarinnar.

Þá veitir Reykjavíkurborg einnig afslátt af fráveitugjaldi sem greitt er til Orkuveitu Reykjavíkur á grundvelli 4. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Lækkun á fasteignaskatti og fráveitugjaldi er byggð á reglum sem borgarstjórn setur, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ákvarðanir á grundvelli reglnanna eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 innan þriggja mánaða frá ákvörðuninni.

Fjármálaskrifstofa framkvæmir breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi eftir yfirferð skattframtala elli- og örorkulífeyrisþega. Það þarf því ekki að sækja sérstaklega um lækkun eða niðurfellingu þessara gjalda.

Athygli er vakin á því að afsláttarþegar sem eiga von á endurgreiðslu geta skráð upplýsingar um bankareikning í Rafrænni Reykjavík.

Reglur um afslátt af fasteignargjöldum

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar ákvarðar breytingar á fasteignaskatti og fráveitugjaldi elli- og örorkulífeyrisþega eftir yfirferð skattframtala.
 

Skilyrði lækkunar eru að:

  • viðkomandi sé elli- eða örorkulífeyrisþegi,
  • viðkomandi eigi lögheimili í eigninni,
  • viðkomandi sé þinglýstur eigandi að eigninni,
  • viðkomandi geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt.
  • Einungis er veitt lækkun vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
  • Borgarráð ákvað að tekjumörk vegna lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds á árinu 2017 séu eftirfarandi:
 
100% lækkun
- Einstaklingar með tekjur allt að 3.910.000 kr.
- Samskattaðir aðilar með tekjur allt að 5.450.000 kr.
 
80% lækkun

- Einstaklingar með tekjur á bilinu 3.910.000 kr. til 4.480.000 kr.

- Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 5.450.000 kr. til 6.060.000 kr.
 
50% lækkun
- Einstaklingar með tekjur á bilinu 4.480.000 kr. til 5.210.000 kr.
- Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 6.060.000 kr. til 7.240.000 kr.

Við álagningu fasteignagjalda í janúar 2018 er afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða það sama og það var í árslok 2017. Þegar álagning vegna tekna ársins 2017 liggur fyrir í júní á þessu ári, verður afslátturinn endanlega ákvarðaður og verða þá allar breytingar tilkynntar bréflega. 

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar veitir upplýsingar um álagningu fasteignagjalda og breytingar á þeim í síma 4 11 11 11 og í netfanginu fasteignagjold@reykjavik.is. Athygli er vakin á því að afsláttarþegar sem eiga von á endurgreiðslu geta skráð upplýsingar um bankareikning í Rafrænni Reykjavík.
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

5 + 0 =