Heimagisting (hámark 90 dagar á hverju almanaksári)

Einstaklingur sem vill reka heimagistingu, sbr. lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1277/2016, þarf að skrá starfsemina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og hafa starfsleyfi útgefið af heilbrigðisnefnd sem er eitt af skilyrðum til að fá skráningu/skráningarnúmer hjá sýslumanni.  Einstaklingur sem ætlar að reka heimagistingu í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur þarf einnig að hafa starfsleyfi útgefið af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.  Umsóknareyðublað um starfsleyfi.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að svo hægt sé að samþykkja starfsleyfi fyrir gististað, þ.m.t. heimagistingu, þarf að liggja fyrir samþykkt skipulag vegna starfseminnar og samþykki byggingaryfirvalda. Vegna gististaða af tegundinni heimagisting er einungis heimilt að leigja út húsnæði sem samþykkt er sem íbúðarhúsnæði. 
Vakin er athygli á að rekstraraðili heimagistingar þarf að greiða fyrir útgáfu starfsleyfis og einnig fyrir heilbrigðiseftirlit/úttekt (flokkur 1) á staðnum skv. gildandi gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Gjaldið fyrir starfsleyfi fyrir heimagistingu er kr. 34.500 og þessu til viðbótar þarf að greiða fyrir eftirlit heilbrigðiseftirlitsins (kr. 34.500) eins og gjaldskráin er nú.  Í heimabanka umsækjanda munu því birtast tveir reikningar með sömu upphæðinni - annars vegar fyrir útgáfu starfsleyfis og hins vegar fyrir eftirliti.  Þurfi heilbrigðiseftirlitið að koma í eftirfylgniferðir er einnig gjaldfært fyrir það samkvæmt gjaldskrá.

Umsóknarferill – Starfsleyfi v. heimagistingar

• Starfsleyfisumsókn má finna á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  Samþykktar teikningar af húsnæði má finna í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, eða á teikningavef borgarinnar.  Upplýsingar um fastanúmer fasteigna eru á vef Þjóðskrár.  Í umsókn um starfsleyfi þarf að tilgreina gestafjölda.  Vakin er athygli á að heimagisting er gististaður án framleiðslu matvæla eða veitinga og að gæludýr eru óheimil á gististöðum.
• Útfyllta starfsleyfisumsókn er hægt að skila í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14 eða senda á netfangið heilbrigdiseftirlit(hjá)reykjavik.is
Á starfsleyfisumsókn skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um reksturinn, þ.á.m. hvort um samþykkt íbúðarhúsnæði er að ræða, fastanúmer fasteignar, fjöldi herbergja sem leigja á út, áætlaður hámarks gestafjöldi og annað sem umsækjandi vill taka fram.
• Starfsleyfisumsóknin er tekin til meðferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og eftirlit og úttekt á staðnum er boðað séu ofangreind skilyrði fyrir hendi. 
• Vafaatriðum varðandi húsnæði skal beint til skipulags- og byggingarfulltrúa Reykjavíkur.  Ef skipulags- og byggingarfulltrúi gefa neikvæða umsögn t.d. að ekki sé um samþykkt íbúðarhúsnæði/-rými að ræða er starfsleyfisumsókn hafnað.  Umsækjanda er leiðbeint að leita til byggingarfulltrúa varðandi mögulegar breytingar á notkun húsnæðis.
• Að öðru leiti þarf heimagisting að standast kröfur skv. ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum og reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, með síðari breytingum.  Hér er aðallega um að ræða að húsnæðið standist heilbrigðiskröfur er varðar hreinlæti, umgengni, viðhald, loftræsingu, ónæði og hávaða, öryggismál og slíkt. 
• Ef engin frávik koma í ljós við heilbrigðiseftirlit er starfsleyfisumsókn lögð fyrir afgreiðslufund Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til samþykktar.  Afgreiðslufundir eru haldnir á þriðjudögum fyrir hádegi.
• Bréf er sent til rekstraraðila fyrirhugaðrar heimagistingar þar sem tilkynnt er um afgreiðslu umsóknarinnar auk greiðsluseðils vegna starfsleyfisins sem einnig birtist í heimabanka viðkomandi.  Skilyrði fyrir að starfsleyfi taki gildi er að greitt hafi verið fyrir leyfið og einnig að skráning hjá sýslumanni hafi gengið í gegn, þ.e. skráningarnúmer fengið.  Athugið að sérstaklega er gjaldfært fyrir heilbrigðiseftirlitið/úttekt á staðnum.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 2 =