Nýjar stúdentaíbúðir rísa og Vísindagarðar stækka

Umhverfi Skipulagsmál

""
Nýjar stúdentaíbúðir og stækkun Vísindagarða Háskóla Íslands er hluti af  samkomulagi sem Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Visindagarðar gerðu með sér í dag. Samkomulagið tryggir Félagsstofnun stúdenta (FS) byggingalóðir á háskólasvæðinu og Vísindagarðar fá aukinn byggingarrétt og stækkun á sínu svæði.   
 
Samkomulagið felur í sér byggingarrétt fyrir um 240 – 300 stúdentaíbúðir en endanlegur fjöldi íbúða fæst við staðfestingu deiliskipulags, sem unnið verður fyrir svæðið. Í deiliskipulagsvinnu er gert ráð fyrir að unnið verði sameiginlega að því að afmarka aðra byggingarreiti fyrir stúdentaíbúðir á háskólasvæðinu, samtals allt að 400 íbúðir.

Gamli Garður mætir nýrri þörf

Félagsstofnun stúdenta á og leigir út um 1.100 stúdentaíbúðir og er því veruleg fjölgun íbúða í pípunum.  Eftirspurn stúdenta eftir íbúðum hefur verið mikil, einkum á háskólasvæðinu sjálfu þar sem nýju íbúðirnar munu rísa.
 
Hluti nýju íbúðanna verður við Gamla Garð, elsta stúdentagarð Háskólans sem opnaður var fyrir rúmum 80 árum.  Starfsemi á háskólasvæðinu hefur breyst mikið á undanförnum árum samfara auknu alþjóðlegu samstarfi Háskóla Íslands og einskorðast ekki lengur við vetrartímann. Gamli Garður hefur verið leigður út til stúdentar yfir vetrartímann en verið nýttur sem hótel á sumrin. Með tengingu nýrra stúdentaíbúða við Gamla Garð verður betur hægt að sinna erlendum stúdentum og fræðimönnum sem þurfa á skammtímahúsnæði á viðráðanlegu verði að halda á meðan þeir stunda hér rannsóknir og nám á sumrin.  Verður þá bæði hægt að sækja um dvöl á Gamla Garði í lengri og skemmri tíma.
 
Flestar íbúðanna, sem samkomulagið tekur til, verða aftur á móti  á reit Vísindagarða  Háskóla Íslands á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu í nágrenni við aðra stúdentagarða.  Áætlað er að þar rísi á bilinu 200-230 stúdentaíbúðir.

Óvissu eytt og tónninn gefinn fyrir aukið samstarf

Samkomulagið sem undirritað var í dag tekur einnig til Eggertsgötu 35 en lóðinni, sem er 6.300 fermetrar, verður ráðstafað til Vísindagarða Háskóla Íslands. Hverfastöð Reykjavíkurborgar, sem hefur þar sitt aðsetur, verður fundinn nýr staður og er það hluti af endurskoðun á fyrirkomulagi hverfastöðva. 
 
Skipting kostnaðar vegna reksturs á Vísindagarðsreit verður endurskoðuð með það fyrir augum að götur á svæðinu verði í umsjá Reykjavíkurborgar eins og aðrar borgargötur.
 
„Undirritunin í dag er mjög ánægjuleg, bæði fyrir stúdenta Háskóla Íslands og kjarnastarfsemi skólans. Það er hagur bæði Reykjavíkurborgar og Háskólans að efla háskólasvæðið sem hluta af borgarmyndinni og við getum öll verið stolt af þeirri góðu samvinnu sem ríkt hefur milli Háskólans, Félagsstofnunar stúdenta, Vísindagarða og Reykjavíkurborgar í þessu mál,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
 
Unnið verður sameiginlega að því að afmarka fleiri byggingareiti á háskólasvæðinu fyrir stúdentaíbúðir. Þar er til skoðunar að Nýja Garði verði aftur breytt í herbergi fyrir stúdenta og einnig að íbúðir verði byggðar austan við húsið. Þá er til skoðunar að stúdentagarðar verði í húsnæði og/eða á lóð Raunvísindastofnunar við Dunhaga, en að því tilskyldu að Háskóli Íslands geti komið starfsemi sem þar er fyrir á nýjum stað. Einnig verður skoðaður möguleiki á staðsetningu stúdentagarða á lóð á horni Suðurgötu og Hringbrautar. Í samkomulaginu lýsir Reykjavíkurborg sig fylgjandi þessum hugmyndum.
 

Nánari upplýsingar: