Gakktu í bæinn á Menningarnótt

Mannlíf Menning og listir

""

Menningarnótt í Reykjavík verður haldin í nítjánda sinn laugardaginn 23. ágúst. Menningarnótt var fyrst haldin árið 1996 og hefur vaxið í að vera stærsti viðburður sem haldinn er á Íslandi. Yfir 100 þúsund manns hafa tekið þátt í hátíðinni síðustu ár og allt að 600 viðburðir á dagskrá frá morgni til kvölds. Yfirskrift hátíðarinnar er „Gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.

Dagskrá Menningarnætur stendur frá klukkan 11:00 um morguninn til klukkan 23:00 um kvöldið. Opnunarviðburður Menningarnætur í ár verður í Hörpu klukkan 13:00 þegar borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B. Eggertsson og Björn Kalsö menntamálaráðherra Færeyja afhjúpa innsetningu glerlistamannsins Trónds Paturssonar, Farfuglar. Fjölbreyttir viðburðir fara fram um alla miðborg en í ár verður sérstök áhersla lögð á Hverfisgötuna sem menningarmiðju Menningarnætur 2014 með yfir 50 viðburði í boði. Á heimasíðunni www.menningarnott.is er hægt að skoða viðburði og setja saman sína eigin dagskrá. Ókeypis er á alla viðburði Menningarnætur.

Stærstu viðburðirnir í ár

Menningarnótt er hátíð allrar fjölskyldunnar þar sem gott tækifæri gefst fyrir foreldra, unglinga og yngstu börnin að skemmta sér saman. Viðburðir eru í boði fyrir alla aldurshópa og að lokinni flugeldasýningu geta allir verið samferða heim með góðar minningar í farteskinu. Líkt og undanfarin ár lýkur Menningarnótt með stórfenglegri flugeldasýningu sem framkvæmd er af Hjálparsveit skáta með stuðningi Vodafone. Í ár verður flugeldasýningin í formi dansverksins „Töfrar“ eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og verður það frumflutt klukkan 23:00 af flugeldum og strengjasveit á hafnarbakkanum auk þess sem 32 kirkjur munu hringja kirkjuklukkum sínum víðsvegar um Ísland. RÚV mun sýna beint frá flugeldasýningunni ásamt því að vera með beina útsendingu í sjónvarpi og útvarpi frá tónleikum Rásar 2, Tónaflóði á Arnarhóli en tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Bylgjan stendur fyrir garðpartýi og fjölskyldutónleikum í Hljómskálagarðinum sem hefjast klukkan 18:00. Sjá nánar á menningarnott.is.

Ókeypis í strætó

Á Menningarnótt er frítt í strætó og eru borgarbúar hvattir til skilja bílinn eftir heima og fara með strætó niður í bæ þar sem miðborgin er lokuð fyrir allri bílaumferð. Strætó mun aka Gömlu Hringbrautina gegnt BSÍ ásamt því að aka að og frá Hlemmi, þar sem venjulegt leiðarkerfi í miðbænum verður tekið úr gildi. Hefðbundið leiðakerfi breytist að lokinni flugaeldasýningu eða eftir klukkan 23:00 þegar allir vagnar verða settir í að flytja fólk úr miðbænum (gegnt BSÍ) og út í hverfi. Síðustu ferðir verða eknar klukkan 01:00.

Nýtt: Ferjað frá bílastæðum

Þeir sem fara á bíl í bæinn eru hvattir til að leggja bílnum þar sem eru stór og rúmgóð stæði svo sem við skóla, stóra vinnustaði eða íþróttamannvirki nálægt biðskýli og taka strætó í bæinn. Einnig er hægt að leggja í bílastæði við Borgartún og Kirkjusand og mun strætó ferja fólk þaðan upp á planið við Hallgrímskirkju og til baka, á milli klukkan 13:00 – 00:00. Strætó stoppar hjá Íslandsbanka við Kirkjusand og á biðstöð við Borgartún 33. Þetta er ný þjónusta sem hefur ekki verið boðið upp á áður. Bílastæðahúsið Höfðatorgi verður opið á Menningarnótt til klukkan 01:00 og hægt er að leggja víðsvegar úti á Granda og við Háskóla Íslands.

Virðum götulokanir

Á Menningarnótt breytist miðborgin í eina allsherjar göngugötu þegar götum er lokað fyrir akandi umferð eins og kemur fram á hátíðarkortinu í ár. Lokanirnar til að tryggja öryggi bæði gangandi og akandi vegfarenda og auðvelda aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs. Það eru rúmlega 40 stofnanir, félagasamtök og sérfræðingar sem koma að útfærslu lokana og öryggismála á Menningarnótt í þeim tilgangi að almenningur geti skemmt sér áhyggjulaus á stærstu hátíð ársins. Brýnt er að hátíðargestir virði lokanir og sýni samferðafólki sínu tillitsemi.

Menningarnæturpotturinn

Þremur milljónum króna var veitt úr Menningarnæturpotti Landsbankans til 36 verkefna og viðburða sem fram fara á Menningarnótt. Menningarnæturpotturinn er samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Tilgangurinn með pottinum er að veita marga en hóflega styrki til einstaklinga og hópa sem vilja skipuleggja frumlega og áhugaverða viðburði á Menningarnótt. Allur fjárstuðningur Landsbankans vegna samstarfssamnings bankans við Reykjavíkurborg um Menningarnótt rennur beint til listamanna og hópa sem koma fram á hátíðinni. Við úthlutun styrkja í ár var kastljósinu meðal annars beint að viðburðum á Hverfisgötu og nágrenni en um helmingur viðburðanna sem styrktir voru falla undir þann flokk. Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er veitt úr Menningarnæturpottinum. Alls bárust um 200 umsóknir í ár en aldrei hafa fleiri umsóknir borist.