Komdu að vinna í leikskóla!

Viltu vera fyrirmynd og skapa góðar minningar? Komdu að vinna í einum af leikskólum Reykjavíkurborgar og taktu þátt í að móta framtíð komandi kynslóða og láta drauma rætast! Viltu ekki vera með?

Um vinnustaðinn 

Leikskólar Reykjavíkurborgar eru fjölbreyttir og lifandi vinnustaðir þar sem enginn dagur er eins. Að vera leiðbeinandi og kennari í leikskóla felur í sér fullt af áskorunum, en fyrst og fremst er það ótrúlega gefandi, skemmtilegt og fræðandi. 

 

Mótaðu starfið út frá þínum styrkleikum

Að vinna með börnum er skapandi og þú hefur fjölmörg tækifæri til að flétta styrkleika þína og áhugamál inn í verkefnin í skólanum. Það sem þú hefur fram að færa getur því verið einstakt framlag inn í starfið og reynsluheim bæði barna og samstarfsfólks. 

En passa ég nokkuð þarna inn? 

Ef þér finnst gaman að vinna með fólki og vilt leggja þitt af mörkum, þá smellur þú örugglega í hópinn. Í leikskóla ertu hluti af heildinni og í góðum félagsskap allan daginn. Það er mikil breidd í mannauð leikskólanna þar sem hver og einn hefur eitthvað dýrmætt fram að færa. 

Starfið fer fram inni og úti þar sem unnið er í teymum undir leiðsögn stjórnenda. Börnin eru að læra á lífið og tilveruna og þarfnast umhyggju, öryggis, athygli og menntunar. 

 

Fjölskylduvænn og þægilegur vinnutími

Vinnutíminn á leikskólanum er bæði þægilegur og fjölskylduvænn, enda fer starfið fram á dagvinnutíma á virkum dögum. Mörgum finnst vinnutíminn líka passa vel til að geta sinnt áhugamálum sínum og hugðarefnum, svo sem námi, íþróttum og listsköpun. 

 

Fáðu vinnu í þínu hverfi

Nálægð við heimili er stór kostur fyrir marga, en oft er hægt að fá vinnu í leikskóla í hverfinu þínu.  Ýmis fríðindi fylgja starfinu, t.d. góður hádegismatur, frítt í sund, á söfn og fleira. Leikskólinn er líka besti staðurinn ef þú ert til í að fá knús þegar þú mætir í vinnuna.  

Þitt hlutverk sem kennari eða leiðbeinandi 

Starf í leikskóla er bæði gefandi og fjölbreytt. Í þínu starfi sem kennari eða leiðbeinandi munt þú... 

 • Vinna með börnum og búa þau undir lífið 
 • Sinna menntun barna undir leiðsögn stjórnenda þar sem megináhersla er lögð á nám í gegnum leik 
 • Taka þátt í umönnun barna og aðstoða þau eftir þörfum 
 • Taka þátt í að skipuleggja faglegt starf 
 • Stuðla að því að börnunum líði vel og eigi góðar stundir í leikskólanum 
 • Skapa góðar minningar, bæði með börnum og samstarfsfólki 

Menntunar- og hæfniviðmið

Í starfi í leikskóla er lögð áhersla á gleði og jákvæðni, traust og samstarf ásamt vellíðan og fjölbreytni í starfi. Þú þarft að hafa vilja til að leggja þitt af mörkum, búa yfir góðri samskiptahæfni, vera tilbúinn að læra og tileinka þér fagleg vinnubrögð. Íslenskukunnátta er mikilvæg, en það er líka enginn betri staður til að læra tungumálið en í leikskólanum! 

 

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þau sem starfa við kennslu ættu að hafa leikskólakennaramenntun. Í dag gefst þó svigrúm til undanþágu frá þeirri kröfu og því er fólk með aðra menntun og reynslu kærkomin viðbót í öflugan hóp starfsfólks. 

 

Laun eru samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar og viðkomandi stéttarfélags. 

Fríðindi sem fylgja starfinu 

Fyrir utan það hversu gaman það er að vinna í leikskóla, þá fylgja starfinu ýmis fríðindi. 

 • Sundkort 
 • Frír hádegismatur 
 • Samgöngusamningur 
 • Heilsustyrkur 
 • Menningarkort 
 • Stytting vinnuvikunnar 
 • Afsláttur af dvalargjaldi barna í leikskóla 
 • Forgangur barna í leikskóla 
 • Möguleikar á að sækja styttri námskeið eða lengra nám samhliða starfi (t.d. námsleyfi v/leikskólakennaranáms 

Myndir úr starfinu

Viltu sækja um starf?

Hér getur þú lagt inn almenna umsókn um starf í leikskólum borgarinnar.