Borgarstjórn - 20.12.2022

Borgarstjórn

Ár 2022, þriðjudaginn 20. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra Einars Þorsteinssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.         1. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. desember, dagskrá borgarstjórnar, er staðfestur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins víkur af fundinum við afgreiðslu málsins. MSS22010058

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Ákaflega mikilvægt er að borgarstjórn ræði málefni fyrirtækja í eigu borgarinnar eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Í því samhengi er þó rétt að umræðunni sé valin hentug tímasetning, sem meðal annars getur ráðist af sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi fyrirtæki og/eða viðkvæmri stöðu þeirra tilteknu mála sem eftir atvikum stendur til að ræða og varða umrætt fyrirtæki. Borgarfulltrúar eiga vissulega rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess en mikilvægt er að hafa í huga að það er borgarstjórn sjálf með aðkomu forsætisnefndar sem hefur um það endanlegt vald hvaða málefni verða tekin á dagskrá fundar. Þrátt fyrir að það geti verið um að ræða mál sem á undir verksvið borgarstjórnar, þ.e. varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess, getur málum verið þannig háttað að ekki verður hjá því komist að fresta umræðunni eða jafnvel taka ákvörðun um að umræða fari fram fyrir luktum dyrum. Telur meirihluti forsætisnefndar því rétt að málefni Ljósleiðarans verði rædd sem fyrst á nýju ári um leið og hægt er og aðstæður bjóða.

2.         Fram fer umræða um framtíðarþjónustu við eldra fólk í Reykjavík.

-           Kl. 15:10 er gert hlé á fundinum.

-           Kl. 15:30 er fundi fram haldið og höfðu þá Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason vikið af fundi og Birna Hafstein, Þorkell Sigurlaugsson og Jórunn Pála Jónasdóttir tekið sæti í þeirra stað. MSS22120102

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg á að vera borg þar sem pláss er fyrir okkur öll og þar sem aðstæður bæta félagslega, andlega og líkamlega heilsu íbúa á öllum aldri. Í sáttmála meirihluta borgarstjórnar kom fram að við ætlum að gera nýja stefnu í málefnum eldra fólks, með áherslu á sjálfstætt líf og valdeflingu. Endurskoða félagsstarf fullorðinna, bjóða fjölbreytta matarþjónustu og stuðla að uppbyggingu lífsgæðakjarna í borginni í breiðu samráði, meðal annars með hugmyndasamkeppni. Við viljum fjölga hjúkrunarheimilum og efla enn frekar samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun til að styðja við sjálfstæði fólks til að það geti búið sem lengst á eigin heimili. Við viljum styðja við heilsueflingu eldra fólks, miðla betur upplýsingum um það fjölbreytta úrval þjónustu og félagsstarfs sem stendur til boða og þróa leiðir til að auka sveigjanleika starfsloka. Þessi umræða í dag er liður í þessari stefnumótun sem styður einnig við nýkynnta aðgerðaáætlun ríkisins sem lögð verður fyrir vorþing. Í henni er kynnt þjónustukeðja, sem segja má að sé sú þjónusta sem Reykjavíkurborg hefur þegar með höndum að verulegu leyti; virkni, heimaþjónusta (samþætt heimahjúkrun og heimastuðningur), dagþjónusta, sérhæfðari heimaþjónusta/endurhæfing og loks hjúkrunarheimili. Reykjavíkurborg er þannig leiðandi í sveitarfélag á þessu sviði og mun verða áfam.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill sjá þjónustu við eldra fólk í Reykjavík með talsvert öðrum hætti en nú er. Eldra fólk í Reykjavík hefur mætt afgangi með margt þegar horft er til þjónustuþátta og nú er t.d. verið að skerða þjónustusamning við þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27. Biðlistar eftir heimaþjónustu eru rótgróið mein og eru dæmi um að fólk sé fast á sjúkrahúsi sökum manneklu í heimaþjónustu. Frumskilyrði er að hafa eins mörg hjúkrunarheimilisrými og þarf fyrir þá sem þarfnast víðtækrar umönnunar. Öll hjúkrunarheimili ættu að vera rekin eftir Eden-hugmyndafræðinni sem gengur út á nálægð og tengsl við lífríkið. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis í borgarstjórn. Það þurfa líka að vera til fjölbreyttir þjónustukjarnar víðar um borgina en nú er. Það þarf að styðja fólk við að vera heima eins lengi og það mögulega getur og vill. Til þess þarf að dýpka og fjölga þjónustuþáttum. Enda þótt velferðartækni hjálpi mörgum er ákveðinn hópur einmana og dapur. Sumt eldra fólk tekur geðdeyfðarlyf vegna depurðar sem er afleiðing einsemdar. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um aukinn sálfélagslegan stuðning fyrir eldri borgara en henni var hafnað. Ekkert kemur í staðinn fyrir nálægð, samtal, samverustundir og afþreyingu.

3.         Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 19. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2023 verði hækkað úr 14,52% í 14,74% og er það hækkun um 0,22% frá því sem samþykkt var í fyrri umræðu vegna fjárhagsáætlunar 2023-2027 þann 1. nóvember 2022.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt. FAS22100139

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

-           Kl. 15:34 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Helga Þórðardóttir tekur sæti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Hér er verið að auka tekjur sveitarfélaga um fimm milljarða vegna vanfjármögnunar málaflokks fatlaðs fólks. Það er fagnaðarefni en varpar um leið ljósi á gríðarlegan hallarekstur málaflokksins sem ógnar sjálfbærni sveitarfélaga og því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda. Hækkun útsvarsprósentu úr 14,52% í 14,74% byggir á því að sveitarfélögum er gert að greiða meira til jöfnunarsjóðs en fá á móti heimild til að hækka útsvar sem því nemur. Á móti lækkar ríkið sína tekjuskattsprósentu svo breytingin hefur því ekki áhrif á skattbyrði íbúa. Sveitarfélög fá á grundvelli þessara greiðslna til jöfnunarsjóðs aukið framlag úr sjóðnum sem snýr að fötluðu fólki. Gríðarlega mikilvægt er að fjármunir sem fara til sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóð fari til þeirra sveitarfélaga sem raunverulega veita fötluðum íbúum sínum þjónustu. Áfram verður unnið að því að tryggja jafnvægi í fjármögnun málaflokks fatlaðs fólk í samráði við ríkið og gengur samkomulagið útfrá því að það verði gert á vormánuðum. Þrátt fyrir að útsvarsbreytingin hafi jákvæð áhrif á afkomu borgarsjóðs er nauðsynlegt að gæta áfram aðhalds í rekstri og tryggja að bætt afkoma borgarsjóðs sé nýtt í samræmi við samþykkta fjármálastefnu borgarinnar 2023-2027.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar sósíalista samþykkja þessa tillögu með fyrirvara þó. Um er að ræða breytingu sem gerir það að verkum að meira fé fer til sveitarfélaga á móti lækkuðu tekjuskattshlutfalli til ríkissjóðs. Sósíalistar árétta þó með miklum þunga mikilvægi þess að sömuleiðis verði innheimt útsvar til sveitarfélaganna af fjármagnstekjum og því verði fjármagnseigendur ekki lengur undanþegnir greiðslu fyrir þjónustu síns sveitarfélags eins og þeir hafa verið enda þurfa þeir og njóta góðs af þjónustu í sínum sveitarfélögum rétt eins og allar þær manneskjur sem hafa einungis launatekjur af unninni vinnu og hafa þó úr minni eignum að moða. Lögbundin þjónusta sem færð hefur verið til sveitarfélaga hefur ekki verið fullfjármögnuð af ríkinu eða tekjustofnar sveitarfélaga lagaðir að þeim nýja veruleika í trássi við augljósar skyldur ríkisins þar um. Sósíalistar kalla á að sama harka verði notuð í viðskiptum borgarinnar við ríkið eins og sýnd hefur verið þeim sem ekki hafa ráð á að greiða fyrir þjónustu borgarinnar við sig sjálf, börn þeirra eða skyldmenni.

4.         Lagt er til að borgarstjórn samþykki tillögu valnefndar umdæmisráðs Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 12. desember 2022, að skipan aðalmanna og varamanna í umdæmisráð. Skipunartími umdæmisráðs Barnaverndar Reykjavíkur er fimm ár, frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2027. Þar er lagt til eftirfarandi: Aðalmenn í umdæmisráði Barnaverndar Reykjavíkur; Tómas Hrafn Sveinsson lögfræðingur, formaður, Eldey Huld Jónsdóttir félagsráðgjafi og Ingibjörg María Guðmundsdóttir sálfræðingur. Varamenn í umdæmisráði Barnaverndar Reykjavíkur; Halldór Rósmundur Guðjónsson lögfræðingur, varaformaður, María Gunnarsdóttir félagsráðgjafi og Thelma Gunnarsdóttir sálfræðingur.

Samþykkt. MSS22110124

5.         Lagt er til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Már Másson og Ragnheiður H. Magnúsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og Pawel Bartoszek, Friðjón Friðjónsson, Íris Baldursdóttir og Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir taki sæti til vara. Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður stjórnarinnar.

Samþykkt. MSS22090053

Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við nýlega eigendastefnu Reykjavíkurborgar sem tók gildi á síðasta kjörtímabili. Við samþykkt stefnunnar höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks á stefnunni allt annan skilning en meirihlutaflokkarnir. Mikilvægt er að stefnur af þessu tagi séu skýrar og ekki opnar fyrir túlkun, líkt og sú sem nú er í gildi. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægt að stefnan verði endurskoðuð hið fyrsta.

6.         Lagt er til að Skúli Helgason, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Gylfi Magnússon, Vala Valtýsdóttir og Þórður Gunnarsson taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sf. til eins árs og að Sara Björg Sigurðardóttir, Björn Gíslason, Auður Hermannsdóttir, Páll Gestsson og Ragnheiður Björk Halldórsdóttir taki sæti til vara. Jafnframt er lagt til að Gylfi Magnússon verði formaður stjórnarinnar.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að Kjartan Magnússon verði tilnefndur sem aðalmaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur.

Greinargerð fylgir breytingartillögunni.

Breytingartillagan er samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga að skipun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er samþykkt svo breytt.

Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22090052

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera alvarlegar athugasemdir við nýlega eigendastefnu Reykjavíkurborgar sem tók gildi á síðasta kjörtímabili. Við samþykkt stefnunnar höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks á stefnunni allt annan skilning en meirihlutaflokkarnir. Mikilvægt er að stefnur af þessu tagi séu skýrar og ekki opnar fyrir túlkun, líkt og sú sem nú er í gildi. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægt að stefnan verði endurskoðuð hið fyrsta.

7.         Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. desember.

3. liður fundargerðarinnar frá 8. desember; Orkuveita Reykjavíkur – skilmálabreyting lánasamnings, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

11. liður fundargerðarinnar frá 8. desember; gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir hundahald, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; tillögur starfshóps um útfærslu sameiningar íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

5. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; Ægisíða 102 – frestun tímamarka rammasamkomulags, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; 1. liður viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; 2. liður viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 vegna fjárfestingaráætlunar, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. liður fundargerðarinnar frá 15. desember; tillaga um samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík vegna starfsstöðvarinnar Bakka, er samþykktur með 18 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

10. liður; starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22010003

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Sameining menningar- og ferðamálasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs er skynsamleg ráðstöfun til að nýta betur mannauð og þekkingu borgarinnar, en líka tíma og fjármuni með því að ná fram samlegðaráhrifum. En einnig er mjög jákvætt að sjá hve vel starfshópurinn hefur notað tækifærið til að uppfæra og nútímavæða skipulagið, með áherslu á teymisvinnu og samstarf þar sem boðleiðir eru styttar og ábyrgð skýrð. Segja má að fyrsta skref að þessari sameiningu hafi verið tekið árið 2018 þegar verkefni sviðanna voru færð undir sama fagráðið en nú hefur það skref verið stigið til fulls. Þessi breyting mun bæta þjónustu við borgarbúa og efla mannlíf Reykjavíkurborgar. 11. liður; gjaldskrá fyrir hundahald: Eftir stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur hefur ásókn í þjónustu, símtöl og ráðgjöf aukist mikið, en tölfræðin sýnir að langflest erindi snúa að hundum. Ánægja er með þjónustuna, samtal við hagsmunasamtök hefur batnað og hundasvæðin í borginni hafa verið stórbætt, m.a. leiktæki sett upp víða til að bæta þessa mikilvægu frístundaiðkun borgarbúa. Til að ná markmiði um aukningu skráðra hunda í borginni fellur skráningargjaldið niður á sama tíma og er hækkun gjalda hófleg, bæði í samræmi við verðlagshækkanir og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fundargerð borgarráðs frá 8. desember 2022, liður 11: Fyrirliggjandi tillaga felur í sér hækkun hundaeftirlitsgjalds um 59%. Um er að ræða gífurlega hækkun á hundaeigendur sem er ekki í neinu samræmi við þróun verðlags. Fundargerð borgarráðs frá 15. desember 2022, liður 5: Svo virðist sem samningar við olíufélögin um uppbyggingu á svokölluðum bensínstöðvareitum séu hagstæðari en almennt gerist í Reykjavík. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt við úthlutun verðmætra gæða í borgarlandinu og að gagnsæi ríki um endurgjald fyrir slík gæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi þess að við framtíðarskipulag á lóðinni við Ægisíðu 102 verði hugað að sjónarmiðum íbúa, byggðamynstri og þörfum hverfisins, t.d. hvað varðar fleiri leikskólapláss.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember:

Staðfesting 19 borgarfulltrúa á úthýsingu leikskólans Bakka ber dapurlegt vitni um þá einkavæðingu á grunnþjónustu og menntun barna sem er í kortunum. Rökin fyrir þessu standast ekki skoðun og segja forsvarsmenn að lítil aðsókn sé í leikskólann og þar af leiðandi borgi rekstrareiningin sig ekki. Hins vegar hafa foreldrar greint frá því að í gegnum tíðina hafi borgin talað foreldra af því að skrá börn á leikskólann þar sem óvissa væri um framtíð hans og að valmöguleikinn um að skrá börn í þennan leikskóla hafi ekki verið kynntur fyrir þeim foreldrum sem hafi leitað að leikskóla. Það er einkennilegt og jafnvel hugsanavilla að segja að engin eftirspurn sé eftir leikskólanum á meðan hann er rekinn af borginni en þegar hann sé kominn í rekstur einkaaðila þá muni hann fyllast af börnum. Allt bendir þvert á móti til þess að aðgerðir borgarinnar hafi rutt veginn fyrir einkavæðingu leikskólans nú þegar sárlega vantar leikskólapláss í borgarreknum leikskólum þar sem gjöldin eru lægst. Borgin á að sinna leikskólum borgarinnar af myndugleika en ekki svelta þá svo hægt sé að selja þá síðar meir. Einkavæðing er ekki lausnin við langvarandi leikskólavanda Reykjavíkurborgar heldur vantar fleiri borgarfulltrúa sem eru tilbúnir að sinna fyrsta menntastigi barna af alúð og krafti.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Liður 2 í fundargerð borgarráðs frá 15. desember, sameining íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs: Í þessu tilfelli er ekki skýrt hver hagræðingin verður með sameiningunni. Sameiningin mun hafa í för með sér útgjöld. Undirbúa á nýja aðstöðu fyrir sameiginlegt svið í Borgartúni. Flokkur fólksins vill benda á kolefnisspor í þessu sambandi og að það er í lagi nota eldri búnað. Gæði þjónustu er ekki tengd einhverjum fínheitum eða glamúr. Búið er að ráða hönnuði sem öllu jafna kalla á mikil útgjöld. Mörg dæmi eru um að „svona vegferð“ beri með sér fyrirsjáanlega hagræðingu og sparnað en síðan hefst „þensla“ í kringum hið nýja verkefni. Þegar upp er staðið verður sparnaður enginn. Fyrir liggur að fjárhagur borgarinnar er kominn á heljarþröm. Liður 6, gjaldskrá hunda: Gjaldskrá fyrir hundahald er hækkað verulega. Meirihlutinn leggur til að gjaldið fyrir að halda hund verði 15.700 í stað 10.300 á ári. Ekki á að rukka gjald á skráningarári en það var 2.200 kr. Eins og fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta þá er gulrótin sú til að fá hundaeigendur til að skrá hunda sína þar sem ekki verður rukkað árgjald fyrsta skráningarár hunds. Athugið að hér er ekki um neina lækkun að ræða fyrir hundaeigendur þótt kerfið sé einfaldað.

8.         Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. desember, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. og 12. desember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 7. og 12. desember, skóla- og frístundaráðs frá 5. desember og umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember.

3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. desember; viðauki við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fullnaðarafgreiðsluheimilda Barnaverndarþjónustu Reykjavíkur er tekin til síðari umræðu. Samþykkt. MSS22010335

5. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. desember; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 3. janúar 2022, er borinn upp til atkvæða. Með tillögunni greiða atkvæði sextán borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Kjartans Magnússonar, Þorkels Sigurlaugssonar og Jórunnar Pálu Jónasdóttur. Friðjón R. Friðjónsson, Sandra Hlíf Ocares og Birna Hafstein borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Með vísan til 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nær tillagan ekki fram að ganga þar sem hún var ekki samþykkt mótatkvæðalaust. Næsti reglulegi fundur borgarstjórnar verður því haldinn 3. janúar 2023. MSS22010060

7. liður fundargerðar forsætisnefndar, tímabundin lausnarbeiðni Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttir, er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember:

Undanfarna daga hafa Reykvíkingar kynnst getuleysi borgaryfirvalda gagnvart því grunnhlutverki að tryggja að fólk komist með góðu móti til og frá heimilum sínum. Ekki er um það deilt að starfsmenn borgarinnar eða verktakar sem sinna snjómokstri hafa staðið sig vel við erfiðar aðstæður. Hins vegar er ljóst að skipulag og verklag snjóruðnings í Reykjavík er með öllu óviðunandi. Gullna reglan við snjóhreinsun felst í því að setja sem mestan kraft í verkið á meðan snjór er nýfallinn, ótroðinn og meðfærilegur. Eftir því sem lengri tími líður frá snjókomu verður erfiðara að eiga við hjarnið. Ef snjór safnast upp í húsagötum vegna óstjórnar og seinna viðbragða myndast harðir klakahryggir á milli djúpra hjólfara, sem valda tjóni á undirvögnum bíla, ekki síst smábifreiða. Ljóst er að ástandið er slæmt í flestum hverfum borgarinnar en verst virðist það þó vera í eystri hverfum. Óskað er eftir úrbótum sem fyrst og greinilegt er að þörf er á að stórbæta skipulagningu snjóhreinsunar í borginni.

Kjartan Magnússon, Jórunn Pála Jónasdóttir og Þorkell Sigurlaugsson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Vandséð er að virða þurfi borgarfulltrúum það til vorkunnar, þótt þeir mæti til vinnu þriðjudaginn 3. janúar eins og annað launafólk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er undarlegt að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fullyrði að borgarfulltrúar meirihlutans „vorkenni“ sjálfum sér að þurfa að mæta á fund. Tillagan um að fella niður þennan borgarstjórnarfund tekur mið af starfsaðstæðum þess starfsfólks sem undirbýr borgarstjórnarfundinn. Að jafnaði tekur um tvo daga að undirbúa borgarstjórnarfund enda þarf að senda út gögn fundarins með tveggja daga fyrirvara. Með þessari ákvörðun er reynt að horfa til þess að sú undirbúningsvinna lendi ekki á rauðum dögum eða inni í jólafríum. Það er ómaklegt af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks að saka borgarfulltrúa um vinnuleti að vilja líta til þessara sjónarmiða um vinnuaðstæður starfsfólks og fulltrúum Sjálfstæðisflokks til minnkunar að gefa sér að slíkt liggi að baki.

Kjartan Magnússon, Jórunn Pála Jónasdóttir og Þorkell Sigurlaugsson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Enginn starfsmaður Reykjavíkurborgar hefur reynt að beita undirrituð þrýstingi í því skyni að knýja fram að borgarstjórnarfundur 3. janúar félli niður. Hins vegar hafa nokkrir borgarfulltrúar beitt þrýstingi í þessu skyni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður hvernig komið er fyrir skólamálum í Staðahverfi. Á síðasta kjörtímabili stóð þáverandi meirihluti borgarstjórnar fyrir því að loka eina grunnskólanum í Staðahverfi, Korpuskóla, og í ár hafa málefni leikskólans í Staðahverfi, Bakka, verið mikið til umfjöllunar. Nú stefnir í einkarekstur sem eins konar „neyðarúrræði“ vegna fámennis í Staðahverfi þrátt fyrir að margir foreldrar hafi sótt um að fá pláss fyrir börn sín en verið synjað. Hluti af vandræðaganginum er sagður vera mannekla. Þrátt fyrir það tilkynnti meirihlutinn við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun að segja ætti upp starfsfólki á leikskólum sem ráðið hafði verið sérstaklega til að annast hólfun í COVID. Það er ekki ljóst hvað er rétt og hvað er rangt í starfsmannamálum leikskóla borgarinnar. Er mannekla eða ekki? Þetta mál lyktar sérkennilega. Mjög líklega er fyrir löngu búið að ákveða að einkavæða þennan leikskóla. Sé fámenni og mannekla er líklegt að sá vandi loði við einkarekstur jafnt sem annars konar rekstrarfyrirkomulag nema launin í einkareknum leikskóla séu þeim mun hærri en í borgarreknum leikskólum.

9.         Samþykkt að taka á dagskrá samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 19. desember 2022 á tillögu um forgang barna á leikskólann Hlíð, leikskólann Klambra og aðra leikskóla sbr. bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 20. desember 2022.

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 17:21

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon