Ísland er á meðal fjögurra Evrópuþjóða sem sameiginlega standa að verkefni sem miðar að því að styrkja foreldra í hópi flóttafólks. Á rúmu ári hafa fjörutíu foreldrar fengið fræðslu í gegnum SPARE-verkefnið hjá Reykjavíkurborg.
Þrír hópar flóttafólks hafa farið í gegnum SPARE-námskeið á vegum Reykjavíkurbogar undanfarið ár, eða alls um 40 foreldrar. SPARE er rannsóknarverkefni sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands leiðir í samvinnu við Noreg, Danmörku og Holland. Hér má lesa meira um það. Markmið þess er að styrkja foreldra í hópi flóttafólks í sínu foreldrahlutverki og stuðla þannig að góðri aðlögun barna og foreldra í nýju landi. SPARE stendur fyrir Strengthening Parenting Among Refugees in Europe. Það byggir á foreldrafærniúrræðinu Parent Mangaement Training – Oregon (PMTO) sem hefur verið notað hjá Reykjavíkurborg með góðum árangri.
Með SPARE hafa aðferðir PMTO verið sérsniðnar að flóttafólki í Evrópu. Nýverið fór fram fjölmenn kynning á notkun SPARE hjá Reykjavíkurborg en það var Keðjan sem stóð fyrir henni. Keðjan veitir stuðningsþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra og heyrir undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Á fundinum komu meðal annars nokkrir foreldrar fram sem höfðu sótt námskeiðin. Nefndu þeir meðal annars að námskeiðið hefði ýtt undir nánari tengsl og bætt samskipti við börn þeirra, haft jákvæð áhrif á líðan allrar fjölskyldunnar, gert reglur skýrari og rútínur heima fyrir sem stuðla að því að allri fjölskyldunni vegni betur og aðlagist betur í nýjum aðstæðum á Íslandi.
Á kynningunni fjallaði Dr. Margrét Sigmarsdóttur, sálfræðingur og lektor við HÍ um aðlögun og fýsileika SPARE, en í máli hennar kom fram að fyrstu niðurstöður rannsókna á SPARE eru mjög jákvæðar. Auk þess voru flutt stutt erindi varðandi reynslu meðferðaraðila af SPARE og komu þar við sögu PMTO meðferðaraðilarnir Edda Vikar Guðmundsdóttir, Ólafía Helgadóttir og Arndís Þorsteinsdóttir og millimenningamiðlararnir þær systur Tara og Telma Khoshkhoo. Þess má geta að velferðarsvið fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála hjá Félagsmálaráðuneytinu til þess að ráða til starfa menningamiðlara sem gegna æ mikilvægara hlutverki.