Veita fólki með heilabilun aukinn stuðning á heimilum sínum

Velferð

""

Borgarráð samþykkti á dögunum að hefja þróunarverkefni þar sem félagslegur stuðningur er veittur einstaklingum með heilabilun sem búa heima. Velferðarsvið fékk aukna fjárheimild upp á 36 milljónir króna á árinu 2022 til verkefnsins. 

Á undanförnum árum hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar komið á fót sérhæfðum þjónustuúrræðum íöldrunarþjónustu og og öðrum fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á heimilum sínum.

Verkefnið um félagslegan stuðning við einstaklinga með heilabilun er af því tagi. Það fer af stað um næstu áramót og verður mótað með aðkomu hagsmunaaðila. Stuðningurinn verður veittur á kvöldin, um helgar eða þegar það hentar viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Um leið og stuðningur verður veittur einstaklingi með heilabilun gefst aðstandendum hans kostur á að fara út af heimilinu og sinna hugðarefnum sínum með þá vissu að hann sé í öruggum höndum. Með því móti er vonast til þess að hægt verði að létta álagi af heimilum og bæta lífsgæði fjölskyldunnar. 

„Það hefur lengi verið ljóst að þörf er á ríkari stuðningi við fólk með heilabilun og fjölskyldur þeirra,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunarmála á velferðarsviði. „Með fjölgun aldraða fjölgar einnig þeim sem fá heilabilun og stuðningur við þá einstaklinga og fjölskyldur þeirra verður því mikilvægara með hverju árinu. Þess vegna erum við mjög ánægð með að vera að hefja þessa vegferð. Við sjáum fyrir okkur að þjónusta af þessu tagi komi til með að aukast á næstu árum.“ 

Til að byrja gefst 30 einstaklingum kostur á þjónustunni en vonast sé til þess að þeim fjölgi hratt, ef vel gengur með þróunarverkefnið. 

Verkefnið er í takti við stefnu Reykjavíkurborgar um málefni eldri borgara fyrir árin 2018–2022 þar sem kemur fram að bjóða eigi upp á mismunandi valkosti í stuðningi fyrir fólk með heilabilun og taka eigi sérstaklega tillit til þess álags sem er á aðstandendum þeirra. Það er jafnframt í samræmi við aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins sem gefin var út í apríl 2020 um þjónustu við einstaklinga með heilabilun til ársins 2025. Þar kemur fram að stefna sveitarfélaga eigi að gera einstaklingum með heilabilun kleift að lifa í samfélagi sem skilur vanda þeirra, sýnir þeim virðingu og veitir þeim aðstoð eftir þörfum.