Reykjavíkurborg hefur nú innleitt lög um vernd uppljóstrara með reglum, verklagsreglum og nýrri uppljóstrunargátt og gengur þannig enn lengra en lögin kveða á um.
Borgarráð hefur samþykkt reglur um verklag vegna uppljóstrunar starfsmanna um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Reykjavíkurborgar. Reglurnar voru unnar af mannauðs- og starfsumhverfissviði í samráði við mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkur og gengur Reykjavík lengst sveitarfélaga við innleiðingu reglna og verklags á grundvelli laga um uppljóstranir.
Samhliða samþykkt reglna um vernd uppljóstrara er verið að innleiða nýja uppljóstrunargátt sem stuðlar að öruggum samskiptum við uppljóstrara og tækifæri til að skila nafnlausum ábendingum á öruggan hátt. Markmið reglnanna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Reykjavíkurborgar og þannig dregið úr slíkri háttsemi.
Lögð er rík áhersla á að misferli verði ekki liðið innan borgarinnar og að öll mál verði skoðuð og brugðist við á viðeigandi hátt. Einnig er markmið verklagsins að vernda starfsmenn, sem í góðri trú greina frá slíkri háttsemi. Starfsmaður hefur rétt á að vita í hvaða ferli málefni er uppljóstrun varðar er innan við mánuði frá tilkynningu.
Uppljóstranir til utanaðkomandi aðila
Starfsmanni sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum án þess að það hafi leitt til fullnægjandi viðbragða innan Reykjavíkurborgar eða af hálfu lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila er heimilt í góðri trú að miðla umræddum upplýsingum eða gögnum til utanaðkomandi aðila, þar á meðal fjölmiðla, svo fremi sem starfsmaðurinn hafi réttmæta ástæðu til að ætla að um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilvikum þegar ljóst er að innri uppljóstrun muni ekki skila árangri, til dæmis í málum er varðar öryggi borgarinnar, efnahagslega mikilvæga hagsmuni sveitarfélagsins, heilsu manna eða umhverfi í Reykjavíkurborg.
Komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu starfsmanns með tilliti til þess að miðlun hafi verið í heimildaleysi eða að starfsmaður verið látinn sæta óréttlátri meðferð í kjölfar hennar á starfsmaður rétt á gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Gjafsókn fellur niður ef sýnt er fram á fyrir dómi að starfsmaður hafi ekki verið í góðri trú þegar upplýsingum var miðlað. Starfsmaður nýtur verndar samkvæmt lögum um uppljóstranir.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs segir um málið: ,,Vernd uppljóstrara snýst um aukið aðhald með lýðræðislegum og faglegum vinnubrögðum, að tryggja almannahagsmuni og stuðla að auknu trausti á stjórnsýsluna. Reykjavíkurborg er metnaðarfull þegar kemur að vernd uppljóstrara og gengur með sinni innleiðingu enn lengra en lögin um vernd uppljóstrara kveða á um með reglum, verkferlum og nýrri uppljóstrunargátt. Gáttin á að tryggja örugg samskipti við uppljóstrara þar sem hægt verður að senda inn nafnlausar ábendingar. Þetta er hluti af umfangsmikilli vegferð Reykjavíkurborgar sem snýr að því að styrkja eftirlitsumhverfið, auka gagnsæi og réttindavernd borgaranna.“
Innri endurskoðun og ráðgjöf hefur opnað Sérstaka vefgátt fyrir uppljóstranir og nafnlausar ábendingar.
Reglurnar í heild sinni, viðhengi.