
Sif Gunnarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Sif hefur stýrt Norræna húsinu í Færeyjum undanfarin ár en húsið er stærsta menningarstofnun Færeyja og sinnir öllum tegundum lista og menningar.
Sif er með meistaragráðu í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum, B.A. í danskri tungu og bókmenntun og diplómanám í rekstrarhagfræði. Hún var forstöðumaður Höfuðborgarstofu á árunum 2007 til 2013 og þar áður verkefnastjóri viðburða hjá Höfuðborgarstofu, menningarfulltrúi í Gerðubergi og aðstoðarforstöðumaður Gerðubergs.
Skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði annast almenna stjórnsýslu á vettvangi menningarmála og sér um starfssamninga, húsnæðissamninga, afgreiðslu styrkja og viðurkenningar. Skrifstofustjóri ritstýrir auk þess starfsáætlun sviðsins og heldur utan um mótun menningarstefnu, uppfærslu aðgerðaáætlunar, árangursmat sviðsins í menningarmálum og ýmis sérverkefni sem henni er falið af sviðsstjóra.
Frá og með áramótum stýrir skrifstofustjóri einnig viðburðateymi Menningar- og ferðamálasviðs sem sér um Vetrarhátíð í Reykjavík, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar og aðventuhátíð í desember.
Sif hefur störf á næsta ári.