Reykjavíkurborg kaupir húsnæði Faxaflóahafna

Menning og listir Mannlíf

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Magnús Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna, undirrituðu í dag samning um kaup Reykjavíkurborgar á húsnæði Faxaflóahafna í Hafnarhúsinu. Viðstödd undirritunina var Guðrún Kristjánsdóttir, myndlistarkona sem var fulltrúi Unu Dóru Copley, dóttur Nínu Tryggvadóttur listakonu. 

Með samningnum mun Reykjavíkurborg eignast Hafnarhúsið í heild sinni en hluti hússins mun hýsa nýtt safn Nínu Tryggvadóttur ásamt viðbótarrými fyrir Listasafn Reykjavíkur.

Stefnt er á að efnt verði til hugarflugs og samráðs vegna útfærslu á Hafnarhúsi, húsi myndlistar. Hlutverk hússins sem miðstöð myndlistar og mannlífs í miðborginni verði treyst og þau tækifæri sem felast í því fyrir menningarlífið í borginni verði nýtt til fullnustu. Kallað verður eftir viðhorfum og hugmyndum til undirbúnings hönnunarsamkeppni þar sem útfærðar verða breytingar á Hafnarhúsi til að rúma Safn Nínu Tryggvadóttur og til að skapa rými fyrir aðra notkun hússins í þágu myndlistar og eftir atvikum annarrar listsköpunar. Kallað verður eftir aðkomu fjölbreytts hóps  listafólks og borgarbúa á öllum aldri, Listasafns Reykjavíkur, bakhjarla Safns Nínu Tryggvadóttur, Erró-safnsins, Listaháskóla Íslands, tónlistarhússins Hörpu og annarra hagaðila.