Ójöfnuður á Stór- Reykjavíkursvæðinu- hver er staðan?

Heilsa Mannlíf

Kolbeinn H. Stefánsson, dósent á Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar. Róbert Reynisson
Kolbeinn H. Stefánsson, dósent á Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, í pontu í Tjarnarsal að tala um ójöfnuð í Reykjavík.

Félagslegur aðskilnaður hefur aukist á Stór- Reykjavíkursvæðinu en staðan er þó enn ekki mjög slæm og hægt að snúa við blaðinu. Inngilding er mikilvæg sem og aukin samvinna sveitarfélaga á suðvesturhorninu. Þetta er meðal helstu niðurstaðna rannsóknar á félagslegu landslagi í Reykjavík, sem kynnt var í Ráðhúsinu í dag og pallborðs um hana.

Fjallað var um ójöfnuð á Stór- Reykjavíkursvæðinu á opnu málþingi í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í dag. Þar kynnti Kolbeinn H. Stefánsson, dósent í Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, niðurstöður rannsóknar sinnar um félagslegt landslag í Reykjavík. Rannsóknin var unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg með skráargögnum frá Hagstofu Íslands og var markmiðið að greina félagslegt landslag út frá dreifingu lífskjara, bæði innan og milli hverfa. Á fundinum ræddu sérfræðingar og fulltrúar sveitarfélaga niðurstöður rannsóknarinnar, tækifæri og áskoranir á Stór- Reykjavíkursvæðinu og hægt er að nálgast upptöku af fundinum

Fjölmenni í Tjarnarsal á fundi um félagslegt landslag.

Fundurinn var vel sóttur.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði fundinn og kom meðal annars inn á þá staðreynd að ójöfnuður er stærsti einstaki áhrifaþáttur heilbrigðis. Sagði hann um tímamótarannsókn að ræða sem setti mikilvægar spurningar á dagskrá. 

Vísir að lágtekjuhverfum að myndast 

Kolbeinn kynnti ýmsar lykilniðurstöður rannsóknarinnar og sagði einna áhugaverðast að fá landfræðilegan vinkil á hvernig félagslega landslagið væri. Búsetumynstur lágtekjuhópanna væri að verða aðgreindara frá mið- og hátekjuhópum, sem væri slæm þróun. Á óvart hefði komið að frá hruni hefði ójöfnuður í tekjum aðeins aukist lítillega, en að vaxandi ójöfnuður væri þó í eignum og vísir að lágtekjuhverfum að myndast. Um slæma þróun væri að ræða af ýmsum ástæðum, til að mynda væri hætta á að ef fólk í mismunandi tekjuhópum hitti ekki hvert annað reglulega minnkaði skilningur og samkennd á milli hópa. Þá gætu skapast svokölluð hverfisáhrif, það er að ekki aðeins fátækt einstaklinga hefði slæm áhrif á þá heldur hefði fátækt fólksins í nærumhverfinu einnig áhrif svo úr yrði nokkurs konar tvöföld fátækt. Lágtekjufólk væri að einangrast og mynd lágtekjuhópa að breytast, öryrkjar og einstæðir foreldrar flýðu til dæmis húsnæðisverð í Reykjavík, sem hefði áhrif á íbúasamsetningu nágrannasveitarfélaga, en í staðinn kæmu innflytjendur, sem stæðu jafnvel enn hallari fæti. 

Kolbeinn skoðaði líka skólahverfin og sagði athyglisvert að sjá að Vesturbærinn og Austurbærinn skæru sig úr hvað varðaði lágar tekjur og þar byggju því einir viðkvæmustu hóparnir. Fellahverfið var þar nærri en skýringin væri meðal annars að Vestur- og Austurbær væru algengt fyrsta stopp innflytjenda en að þegar ákveðið væri að setjast að, færðist búsetan oft í Breiðholtið. 

Loks var mikið rætt um hvernig Stór- Reykjavíkursvæðið, það er suðvesturhorn landsins, væri í auknum mæli að verða að einu svæði, búsetu- og atvinnulega séð. Breytingar sem ættu sér stað á einu svæði hefðu áhrif langt út fyrir það sveitarfélag og huga þyrfti að þessum áhrifum í stefnumótun til framtíðar. 

Samþjöppun lágtekjufólks áhyggjuefni

Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor á Félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, sagði skýrsluna draga upp mynd af félagslegu landslagi höfuðborgarsvæðisins út frá ýmsum breytum. Hún greindi fjöll og dali, gjár og mögulega gliðnun í hinu félagslega landslagi og að máli skipti að fylgjast með, þar sem óhóflegur ójöfnuður myndi ala af sér vandamál og aftra einstaklingum frá því að njóta sín til fulls. Samþjöppun fólks í krefjandi aðstæðum væri áhyggjuefni og eignaójöfnuður væri vanmetinn en áhrifaríkur. 

Inngilding eitt stærsta verkefnið

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, fjallaði um ójöfnuð heilsu og hvaða áhrif hann hefði á samfélagið og íbúa þess. Samband ójöfnuðar og slakari heilsu væri sterkt og ekki hefðu öll sömu möguleika á að lifa heilbrigðu lífi og búa við góða heilsu. Mikilvægt væri að skoða birtingarmyndir þessa nánar.

Loks fjallaði Sigríður Haraldsdóttir Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis, um líðan Íslendinga eftir aldri, kyni og fjárhagsstöðu en könnunin Heilsa og líðan Íslendinga er gerð á fimm ára fresti.

Í pallborði var rætt um áhrif rannsóknarinnar og verkefni komandi ára og voru þátttakendur pallborðs sammála um að inngilding væri eitt stærsta verkefnið, sem og aukin samvinna sveitarfélaga á suðvesturhorninu.

Pallborð í Tjarnarsal á fundi um félagslegt landslag.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri (lengst til hægri) stýrði pallborði. Það sátu einnig (frá vinstri) Sigþrúður Erla Arnarsdóttir, framkvæmdarstjóri Vesturmiðstöðvar Reykjavíkur, Kolbeinn H. Stefánsson, dósent á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum og Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdarstjóri Suðurmiðstöðvar Reykjavíkur.