Ný stefna í málefnum heimilislausra

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt nýja stefnu velferðarráðs í málefnum heimilislausra ásamt aðgerðaáætlun. Í stefnunni er lögð áhersla á hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins.

Síðustu mánuði hefur staðið yfir viðamikil endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá velferðarsviði borgarinnar.  

Samráð var haft við notendur, fagfólk og hagsmunaaðila. Sameinast var um að leggja áherslu á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um ,,húsnæði fyrst”. Einnig er lagt til að ríki og sveitarfélög hafi með sér þétt samstarf um málaflokkinn. Húsnæði er grunnþörf og aðeins þegar þessari grunnþörf er mætt getur einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir í lífi sínu.

Lögð er áhersla á gagnkvæma virðingu í vinnu með málefni heimilislausra þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins og umburðarlyndi eru í fyrirrúmi. Lagt er upp með að efla og auka sjálfsvirðingu notandans, valdefla einstaklinginn og draga úr fordómum í samfélaginu.  

Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun til fimm ára og er nú þegar farið að vinna úrbætur eftir henni. Má þar nefna 25 ný smáhýsi, íbúðakjarna fyrir konur á Hringbraut og neyðarskýli fyrir unga karlmenn í neyslu á Granda. Þá er áformað að Félagsbústaðir kaupi 11 nýjar íbúðir fyrir heimilislausa og einnig mun rýmum á áfangaheimilum fjölga.

Umræða um stefnuna verður í borgarstjórn í næstu viku.

Ný stefna og aðgerðaráætlun í málefnum heimilislausra frá 2019-2025