No translated content text
Borgarráð samþykkti í dag að hafinn verði undirbúningur að stofnun endurhæfingarteyma í heimaþjónustu Reykjavíkur.
Tilgangurinn með slíkum endurhæfingarteymum er að virkja eldri borgara og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Með endurhæfingu er hægt að þjálfa fólk í að bjarga sér sjálft á heimilum sínum.
Teymin verða samsett af iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi, sjúkraliðum og félagsliðum sem munu veita fólki markvissa þjálfun til að vinna að verkefnum daglegs lífs.
Endurhæfing í heimahúsi snýst um að einstaklingurinn sjálfur ákveður og segir til um hvar hann vantar færni. Nálgunin er talsvert öðruvísi en í hefðbundinni heimaþjónustu þar sem tilgangurinn er að þjálfa og leiðbeina fólki þannig að það geti gert sem mest sjálft.
Í upphafi er gert ráð fyrir að heimsóknir frá teyminu séu allt að daglega. Þegar geta einstaklingisins til daglegra athafna eykst fækkar heimsóknum teymisins. Markmiðið er að bæta lífsgæði eldri borgara og seinka því að fólk þurfi mikla og varanlega aðstoð við daglegt líf á heimilum sínum.
Það er mat sérfræðinga á velferðarsviði að með jákvæðri endurhæfingu þar sem fólk nýtur faglegrar aðstoðar við að læra að bjarga sér sjálft sé hægt að mæta vaxandi þörf á langtíma umönnun. Velferðarsvið leggur því til að komið verði á fót þremur endurhæfingarteymum í heimaþjónustu á árunum 2017 til 2019.
Þjónustan verður fyrst prófuð í tilraunaskyni í efri byggðum borgarinnar, með öðrum orðum í Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og Grafarvogi. Ef það gefst vel er gert ráð fyrir að boðið verði upp á þjónustuna í öllum hverfum borgarinnar.
Er talið að þjónustan muni valda straumhvörfum í heimaþjónustu þar sem faglegt starf verður aukið umtalsvert. Endurhæfing af þessu tagi hefur gefist vel á hinum Norðurlöndunum og niðurstöður tilraunarverkefnis um slíkt teymi sem gert var árið 2015 hjá Reykjavíkurborg sýndu góðan árangur.