Neyðarskýli opin vegna kuldakasts

Velferð

""

Neyðarskýlin fjögur sem Reykjavíkurborg rekur, Konukot, gistiskýlið á Lindargötu, neyðarskýlið á Granda og tímabundið neyðarathvarf fyrir konur, verða öll opin allan sólarhringinn frá 3.–7. desember, vegna yfirvofandi kuldakasts. 

Öll neyðarskýli á vegum borgarinnar verða með sólarhringsopnun frá fimmtudeginum 3. desember fram til mánudagsins 7. desember. Þetta er í samræmi við neyðaráætlun málaflokks heimilislausra vegna veðurs sem hefur verið virkjuð. Það er gert þegar spáð er kuldakasti eða óveðri sem er þess eðlis að hætta sé á ofkælingu eða alvarlegum slysum þeirra sem nýta sér þjónustu neyðarskýla.

Staðirnir sem um ræðir eru Konukot, gistiskýlið á Lindargötu, neyðarskýlið á Granda og tímabundið neyðarathvarf fyrir konur. Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa, sér um rekstur Konukots með samningi við Reykjavíkurborg. Samanlagt er pláss fyrir 63 einstaklinga í skýlunum. Á öllum stöðum leggja stjórnendur áherslu á að skapa stemningu innandyra, svo sem flestir haldi þar til og hætti sér ekki út í kuldann, enda hefur Veðurstofan hvatt fólk til að halda sig heima. 

Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkur aðstoðar fólk sem er heimilislaust með vímuefna- og geðvanda. Teymið á nú sem fyrr í nánu samstarfi við Frú Ragnheiði við að koma upplýsingum til þeirra notenda sem geta verið í ótryggum aðstæðum og gætu þurft að nýta neyðarskýlin. Viðbragðsáætlunin er jafnframt unnin í nánu samstarfi við aðra viðbragðsaðila í Reykjavík – bráðamóttökur Landspítalans, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Rauða krossinn og forsvarsmenn tjaldsvæða.