Lengja opnunartíma Kaffistofu Samhjálpar fyrir gesti neyðarskýla 

Stefnt er að því að kaffistofan verði opin milli 14 og 16.30 alla daga í desember 2023, janúar og febrúar 2024. Sú opnun verður sérstaklega fyrir gesti neyðarskýla sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Maður stendur fyrir framan kaffistofu Samhjálpar.

Velferðarráð samþykkti í gær að ganga til samstarfs við Samhjálp, svo hægt verði að lengja opnunartíma Kaffistofu Samhjálpar, fyrir þá gesti sem nýta neyðarskýli og hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir. Þetta er liður í vetraráætlun velferðarsviðs um opnun neyðarskýla. Velferðarráð hafði fyrr í vetur falið velferðarsviði að útfæra tillögur um vetraropnun og leitaði sviðið af þeim ástæðum til Samhjálpar. 

Kaffistofa Samhjálpar er fyrir fólk sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum og þau sem eru í neyð. Kaffistofan er venjulega opin alla daga ársins mili klukkan 10 og 14 og þar er bæði morgunverður, kaffi, súpa og heitur matur daglega. 

Stefnt er að því að Kaffistofan verði opin milli 14 og 16.30 alla daga í desember 2023, janúar og febrúar 2024. Sú opnun verður sérstaklega fyrir gesti neyðarskýla sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir.  

Kallað hefur verið eftir samastað fyrir hópinn, milli þess sem kaffistofan lokar klukkan 14 og neyðarskýlin opna síðdegis. Til að bregðast við því fól velferðarráð velferðarsviði, þann 18. október síðastliðinn, að útfæra tillögu um rekstur tímabundins dagsathvarfs fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem yrði opið í desember 2023 – febrúar 2024.  

Reynslu af opnuninni í vetur verður nýtt í áframhaldandi þróun úrræða fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir.  

„Til framtíðar þurfum við að útfæra hvernig virkniúrræði við viljum hafa til staðar fyrir fólk sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir, hvort sem það reiðir sig á að gista í neyðarskýlum eða er komið með íbúð. En þetta er jákvætt skref og okkar starfsfólk verður á staðnum ásamt starfsfólki Samhjálpar. Við munum svo meta árangurinn af vetraropnun í samráði við hópinn,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs. 

,,Við erum þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt. Þetta er spennandi verkefni og verður áhugavert að sjá hvernig framvindan verður,“ segir Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar.  

Áætlaður heildarkostnaður vegna þriggja mánaða vetraropnunar er 5,2 m.kr., sem rúmast ekki innan fjárheimilda velferðarsviðs. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa látið í ljós áhuga á vetraropnun og verður þeim boðin aðild að henni gegn hlutdeild í kostnaði.   

Tillagan var samþykkt í velferðarráði og vísað áfram til borgarráðs.